<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, desember 31, 2006

Jæja gott fólk upp er runninn síðasti dagur ársins 2006 sem hefur verið viðburðaríkt og ætla ég að leyfa sjálfum mér að rifja upp nokkra merkisatburði á árinu sem er að líða, sjálfum mér og öðrum til skemmtunar.

Árið byrjaði líkt og það endaði, í útlegð á Reyðarfirði. Næstu mánuðir gengu sinn vanagang og skiptust á milli vinnu í 10 daga og frí í bænum í 4 daga. Ég man mjög lítið eftir þessu tímabili svo sem. Ég hafði nú samt ágætlega gaman af vistinni fyrir austan og kynntist þar skemmtilegu fólki.

Það var nú samt ekki fyrr en sumarið gekk í garð fyrir austan að ég fór að hafa virkilega gaman að hlutunum. Þó er nú umdeilt meðal okkar sem þarna vorum hvort sumarið hafi nokkurn tímann gengið í garð enda grúfði þokan sig all oft yfir okkur með kulda og raka. En það komu þó nokkrir góðir dagar sem nýttir voru í golf meðal hreindýra, sundferðir, gönguferðir og bíltúra um Fljótsdalshéraðið sem er eitt það skemmtilegasta landsvæði sem ég hef heimsótt á Íslandi verð ég að segja.

Ég kíkti líka til Kaliforníu í júní og var það frábær ferð þar sem ég eyddi mestum tímanum í San Fransisco og nágrenni auk þess sem ég kíkti til Yosemite þjóðgarðsins og til Santa Barbara. Þetta var ekki eina utanlandsferðin á árinu því í október kíkti ég til Kaupmannahafnar í helgarferð og það var í fyrsta skipti sem ég hef farið til Norðurlanda utan Íslands. Ferðin var frábær og Kaupmannahöfn er skemmtileg borg sem ég á eftir að heimsækja aftur.

Í lok sumars skipti ég um vinnu og réð mig til Vatnamælinga Orkustofnunar. Ég taldi kominn tíma til að skipta um starf auk þess sem í boði var starf sem var eins og klæðskerasaumað fyrir mig hvað varðar menntun, reynslu og áhugasvið. Síðust mánuðir ársins hafa svo farið í það að setja sig inn í hlutina á nýja vinnustaðnum og kynnast þar nýju samstarfsmönnunum.

Auðvitað hefur margt annað gerst en þetta stendur upp úr. Ef ég hugsa út í það þá hefur þetta ár verið sannkölluð rússíbanaferð uppfull af breytingum, ást og hamingju en einnig sorg og missi.

En þannig er lífið býst ég við og galdurinn er að reyna að njóta augnabliksins og hugsa jákvætt, sleppa öllum leiðindum og hlakka til framtíðarinnar. Ég er viss um að árið 2007 á eftir að verða gott ár.


GLEÐILEGT NÝTT ÁR 2007 OG TAKK FYRIR ÞAÐ LIÐNA!



fimmtudagur, desember 21, 2006

Gleðileg jól og farsælt komandi ár með þökk fyrir hið liðna.



sunnudagur, desember 10, 2006

Staðreynd: Úr vinninnu minni, niðri á Grensásvegi 9 og heim í Bakkasel 26, eru 5011 m og um 45 mínútna rösklegur gangur.

Að þessu komst ég í tilraun helgarinnar.



föstudagur, desember 08, 2006

Jæja nú verður sko skrall í vinnunni í kvöld, hinn árlegi "Julefrokost" Vatnamælinga. Nóg af mat og drykk og heimatilbúin skemmtiatriði og í þetta sinn kem ég ekki fram í rifinni skyrtu né neinu öðru skemmtiatriði.



þriðjudagur, desember 05, 2006

Nú er orðið jólalegt á skrifstofunni minni enda skreytti ég í gær. Í gangi er óformleg skreytingakeppni og læt ég ekki mitt eftir liggja og stefni á sigur.

Annars var ég að skoða dagatalið og sá að jólin á næsta ári verða alger draumur hvað varðar frí. Helgin frá og með 21. des verður 5 dagar þar sem aðfangadagur, jóladagur og annar í jólum lenda á virkum dögum. Það er ekki laust við að ég sé farinn að hlakka til jólanna 2007!!!! :)

Annars ættum við nú bara að gera eins og Ástralir, en nú myndu sumir gagnrýna mig fyrir eilíft mas um þá en ég held ótrauður áfram. Já Ástralir eru snillingar, ef helgidag ber upp á laugardegi eða sunnudegi þá fá þeir bara auka frí í næstu vinnuviku á eftir. Þannig þurfa þeir aldrei að verða af lögboðnum frídegi, þvílík snilld!!!



This page is powered by Blogger. Isn't yours?