<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, janúar 29, 2004

Hefur einhver pælt í nafninu Ölfus?? Af hverju heitir Ölfusið Ölfus en ekki eitthvað annað? Mig langar að segja ykkur frá því af hverju Ölfusið heitir Ölfus. Af hverju langar mig að gera það? Hef ekki hugmynd.

Sagan segir að þegar Ingólfur Arnarson var að ráfa yfir sveitir landsins með föruneyti sitt í leit að sínum öndvegissúlum þá stoppaði hann eitt kvöldið á góðum stað og reisti þar náttstað. Eins og venja var og er enn með okkur Íslendinga þá drukku menn stíft þegar leið á kvöldið. Hvort það var Thule eða Egils veit ég ekki en Ingólfur drakk stíft og tæmdi hvert hornið á fætur öðru. Eftir að hafa klárað úr horninu sendi hann Vífil þræl sinn til að ná í meira. Vífli gramdist það að húsbóndinn væri of graður á góða stöffið. Hann fór því og sótti handa honum eitthvað glundur sem aðeins konur drukku. Þegar Ingólfur svolgrar í sig fyrsta sopann bregður honum heldur betur í brún og ölið frussast út um munn, nasir og eyru kappans og svo æpir hann á Vífil..."Hvaða helv* ölfusss er þetta eiginlega!!!!?!!!".

Og þar hafið þið það.



miðvikudagur, janúar 28, 2004

Jæja nú er smá fargi af mér létt en ég var að frétta það að mér hefur boðist tímabundin gisting hjá indælli ástralskri fjölskyldu í Brisbane fyrstu tvær vikurnar sem ég verð í bænum. Þessu var reddað í gegnum hann Krissa, sem er bróðir vinkonu minnar, og fær hann hér með kærar þakkir fyrir það. Ég var orðinn nokkuð stressaður með þetta þar sem ég var bara búinn að græja 4 nætur í gistingu hjá skólanum (það mátti víst ekki vera lengur en til 16. feb) og minna en tvær vikur í brottför.

Annars verð ég fyrstu dagana bara að slappa af og jafna mig af flugþreytunni. Tek tímann í að læra að rata um campusinn og browsa á netinu eftir íbúð. Ég hætti við að taka íbúðina í South Brisbane því þrátt fyrir frábæra staðsetningu þá var hún bara of dýr fannst mér. Ég er því enn ekki kominn með íbúð en þetta reddast allt saman er það ekki, no worries mate!!!



mánudagur, janúar 26, 2004

Það er alltaf gott að koma heim er sagt. Ég er sammála því en í gærkvöld kom ég heim eftir 5 daga helgarferð til Prag. Tilgangur ferðarinnar var í sjálfu sér skyndiákvörðun af minni hálfu þar sem ég var að flakka um ferðasíður á netinu og fann ódýrt flugfargjald en einnig var ætlunin að hitta félaga minn, hann Hjálmar, sem er að læra kvikmyndaleikstjórn þarna úti.

Ferðin byrjaði á miðvikudaginn síðasta en daginn áður hafði ferðafélagi minn tilkynnt mér það að hann myndi forfallast og kæmist ekki með. Það reddaðist þó því ég frétti af hóp af fólki sem var að fara líka að hitta félagann í Prag og með sömu vél meira segja. Prógrammið var að fljúga með icelandair til Heathrow og svo með easy jet frá Stansted til Prag. Þess vegna fór fyrsti dagurinn eiginlega bara í að flakka á milli þessara flugvalla, með smá stoppi í London, en það tókst vonum framar og þakka ég það að ég var búinn að fara þarna um áður þegar ég fór til Kúbu 2003.

Eftir nokkuð langt ferðalag komum við loksins til Prag um tíu leytið og var vel tekið á móti okkur en við gistum hjá Hjálmari á besta stað í bænum, í göngufæri við allt það helsta í miðborginni. Við héldum að best væri bara að koma sér fyrir og fara að sofa en það var víst ekki á dagskrá heldur fórum við niður í bæ og fengum okkur dýrindis steik og nóg af bjór þrátt fyrir að klukkan væri orðin 1 að nóttu!!! Það er víst alltaf nóg um að vera þarna jafnvel þó að það sé off season í ferðamannabransanum um þessar mundir. Verðið á þessari fínu máltíð var líka fáránlegt, 4500 kr fyrir steik og fullt af bjór fyrir 6 manns!!!! Það kostar ekkert að lifa þarna úti, bjór út úr búð kostar rúmlega 45 kr hálfur lítur og matur er ekki mikið dýrari. Þannig endaði fyrsta kvöldið bara á fínu rólegu kaffihúsadjammi á Litlu Geitinni fram eftir nóttu.

Daginn eftir var farið á flakk og rölt um miðborg Prag og öll helstu minnismerki og byggingar skoðaðar, gamla miðbæjartorgið, Charles brúin, kastalinn og dómkirkjan o.fl. o.fl. Byggingarstíllinn er alveg magnaður og það liggur við að maður sé á gangi í risastórri leikmynd úr Disney mynd þar sem eru hallir, torg og turnar. Það var líka soldið magnað að hugsa til þess að maður væri að ganga um sömu götur eins og kallar eins og Mozart gerðu en Prag er mettuð af sögu sem tæki mann langan tíma að læra. Það eina sem var ekki nógu gott var að frostið var komið niður í mínus 15 gráður og fór niður í 20 gráður á kvöldinn brrrr. Um kvöldið var farið á eitt heitasta diskótekið í bænum, svona til að bæta upp kuldann, og djammað langt fram eftir morgni.

Daginn eftir var aftur farið á flakk og nú var meira gengið beint af augum og farið út fyrir helstu ferðamannasvæðin. Alls staðar eru lítil kaffihús og verslanir en mikið er af búðum sem selja kristal á hlægilegu verði. Ef farið er út fyrir helstu ferðamannagöturnar eru verðin enn þá lægri. Á laugardaginn fórum við á Þjóðarsafnið, en það er stærsta safn sem ég hef farið á, og þar var hægt að sjá allt milli himins og jarðar, uppstoppuð dýr í þúsundavís, steina og mannvistarmenjar frá steinöld og áfram. Þannig fóru dagarnir í skoðunarferðir en á kvöldin fórum við svo á röltið, kíktum á kaffihús, djassklúbba eða diskótek og almennt höfðum gaman af því að vera til.

Það var hálf leiðinlegt að þurfa að fara á sunnudaginn en allt tekur enda. Það versta var að ég var einn á ferð heim þar sem hinir í hópnum höfðu skipulagt að fara ekki fyrr en tveimur dögum seinna en ég. Ekki byrjaði nú förin gæfulega þar sem ég þurfti að hanga á flugvellinum í 6 tíma því hann var lokaður vegna snjókomu. Eftir 5 tíma seinkun á fluginu mínu var loksins flogið. Þetta setti verulegt strik í ferðaáætlunina mína en ég hafði hugsað mér að eyða þessum 5 tímum í flakk um London en núna þurfti ég að fara beint frá Stansted og til Heathrow í gegnum London eins og á leiðinni út. Ekki tók betra við þegar ég kom til Stansted en þá komst ég að því að lestin sem gengur þaðan til London var víst ekki í gangi aldrei þessu vant. Mér tókst þó að finna einhverja rútu sem gekk til London og bjarga mér fyrir horn. Ég var þó orðinn nokkuð stressaður að missa af fluginu heim og dreif mig því í gegnum undergroundið til Paddington station þar sem ég tók lestina til Heathrow. Ég var svo mættur einum og hálfum tíma fyrir flug í check in eða sem sagt bara alveg á tíma. Flugið heim var hið þægilegasta og það var gott að komast heim að sofa í eigið rúm.

Ég mæli með því að fólk kíki til Prag ef það getur því þetta er ótrúleg borg og nóg að sjá og upplifa. Ef þið eruð ekki á leið þangað í bráð þá getið þið samt upplifað eitthvað af því sem fyrir augu ber þar með að kíkja á myndasafnið en ég set á næstu dögum inn nokkrar myndir úr ferðinni.



mánudagur, janúar 19, 2004

Jæja ég er þá loksins búinn að skipta um mynda service og er kominn inn á imagestation samkvæmt góðum ráðleggingum. Var að klára að setja inn myndir úr kúbuferðinni 2003 þannig endilega kíkið á þetta. Fylgið bara linknum myndasafn og þá sjáið þið albúmin. Eitt enn þið verðið að skrá ykkur áður en þið getið skoðað myndirnar en það kostar ekki neitt og þið bara veljið að fá engan póst frá þeim og voila!!!! En allavega góðar stundir.



miðvikudagur, janúar 14, 2004

Tikk tokk tikk tokk tikk tokk klukkan tifar og 11. febrúar nálgast á óeðlilega miklum hraða þessa dagana. Ég hef alltaf haldið því fram, þegar ég er spurður hvort ég sé ekki spenntur yfir því að vera fara út, að ég sé nú ekkert svakalega mikið að velta þessu fyrir mér enda svo langt í það ennþá. En jæja nú er ég að átta mig á því að það er minna en mánuður í þetta og það er ekki laust við að maður fái smá fiðring í magann af spenningi en líka smá hnút. Auðvitað fer hugurinn á flug yfir öllu fjörinu sem er framundan en á hinn bóginn er þetta alveg nýtt af nálinni og ókannað. Nokkuð yfirþyrmandi hugsun ef maður pælir í því, sérstaklega fyrir mann sem hefur átt heima í Breiðholtinu alla sína ævi :) En ég lít á þetta sem áskorun og tækifæri til að læra að vera aðeins sjálfstæðari sem sagt bara að hafa gaman að þessu.



þriðjudagur, janúar 06, 2004

Jæja þetta er allt að koma hjá mér. Ég er búinn að vera að vinna hörðum höndum síðustu tvo tíma við að bæta útlitið á síðunni minni til muna. Sjáiði svörtu brotalínuna fyrir ofan dagsetninguna, er stoltur af henni. Svo er ég nú búinn að gera meira t.d. setti ég fleiri linka inn. Ég fann líka góða síðu á netinu sem heitir webshots.com en þar getur maður geymt myndir á netinu ókeypis (með fjöldatakmörkunum upp á samtals 240 myndir) og hef ég bætt link inn á hana af þessari bloggsíðu. Nú er bara að fara að taka myndir og setja á netið.



mánudagur, janúar 05, 2004

Jæja nú eru víst ekki nema 5 vikur í brottför og allt í góðum gír ennþá, þarf að ganga frá nokkrum lausum endum og svona en svo er það bara bæ bæ Biggi. Var að tengja athugasemdakerfi við síðuna og ætla að skoða hvort það virki ekki eins og það á að gera.



This page is powered by Blogger. Isn't yours?