<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, apríl 29, 2004

Ég sé að það er heldur farið að lengjast milli þess sem ég blogga hérna og því komið mál að bæta úr því. Annars er lítið að frétta svo sem af mér, sit bara allan daginn við lærdóm eins og venjulega. Kannski ætti maður bara að slá þessu upp í kæruleysi þar sem mér hefur boðist að kíkja með nokkrum krökkunum úr skólanum í tvær mismunandi ferðir, annars vegar til North Stradbroke Island í útilegu og hins vegar til Moreton Island í siglingu o.fl. En nei bæði er of mikið að gera og svo er ég að reyna að spara til að geta farið til Alice Springs í miðsvetrarfríinu. Ég er í frí frá 23. júní til 26 júlí og þá er hávetur hérna og hitinn í miðri eyðimörkinni verður ekki nema um 30 stig yfir hádaginn. Kjörinn tími til að kíkja þangað og virða fyrir sér endalausar rauðar auðnir og einstaka dularfulla kletta eins og Ayers rock sem standa upp úr þessu sandhafi eins og sker eða vitar. Ég var að vonast til að geta ferðast með félögum mínum, Þjóðverjunum, sem ætla að skreppa þangað á sama tíma en það myndi bæði verða ódýrara og svo gaman að hafa félagsskap.

Jón og Rósa eru búin að ákveða að keyra eitthvað norður upp með ströndinni á sunnudaginn og vera á flakki í nokkra daga þarna uppfrá að skoða regnskógana og Rifið Mikla. Ekki er fylgt neinni ákveðinni dagskrá heldur ætla þau bara að sjá hvert vegurinn leiðir þau hverju sinni. Í gær fóru þau annars í Wet n´ Wild rennibrautagarðinn hérna niðri á Gold Coast og skemmtu sér hið besta. Hvar var ég? Nú heima að læra auðvitað :) Ég ætla mér að vera duglegur og eyða síðustu dögunum með þeim í eitthvað skemmtilegt frekar.

Annars er próftaflan mín komin út og mér líst bara ágætlega á hana. Ég fæ nógan tíma til að lesa fyrir þau öll, sem er gott því ég hætti að lesa námsbækurnar í síðasta mánuði. Það hefur bara verið endalaus verkefnavinna síðustu vikur og ekkert annað komist að. Gaman að því samt því maður lærir mest á að gera hlutina en minnst á að lesa um þá ekki satt. Jæja þetta er þokkalega boring umræða þannig ég læt hér við sitja þangað til mér dettur eitthvað sniðugra í hug.



sunnudagur, apríl 25, 2004

Jæja ég ferðaðist ágætlega um helgina núna þannig ég get hætt að kvarta yfir að hanga bara alltaf heima yfir lærdómnum (sem nú tekur reyndar aftur við :). En það var sem sagt mikið skoðað og mikið séð um helgina og byrjaði það strax eftir skóla á föstudeginum. Strax eftir að ég var búinn að halda fyrirlestur um skógareyðingu og skógrækt á Íslandi (verkefni í umhverfisskipulagi og auðlindanýtingu) þá kom Jón bróðir og familía að sækja mig og sýndi ég þeim það helsta á campusnum.

Eftir það var ákveðið að skreppa í smá bíltúr og halda út að strönd sem er eiginlega hluti af Brisbane borg og kallast Nudgee beach. Þar eru líka stærstu votlendis svæði innan Brisbane borgar, the Boondall wetlands, þar sem hægt er að sigla um í kanóum og fleira sniðugt. En þegar við komum til Nudgee þá skildum við af hverju fólk fer norður til Sunshine eða suður til Gold coast til að fara á ströndina. Strendurnar hérna við Brisbane eru eiginlega ekkert rosalega spennandi fyrir hefðbundið strandlíf. Þetta eru mest leirur með mangrove skógi og svo sem sérstakar í sjálfu sér en enginn er hvíti sandurinn fyrir þá sem eftri því sækjast.

En við héldum bara leiðangrinum áfram og keyrðum suður með sjó, í gegnum bæina Wynnum og Manly. Það var skemmtileg strandbæjar fílingur í þessum plássum þar sem við keyrðum eftir ströndinni í gegnum hvern bæinn á fætur öðrum. Þetta var samt ekki svona sörf menning, þar sem sandinn vantaði auðvitað, heldur minnti meira á svona sjávarpláss nema hvað að ólíkt þeim íslensku þá var nóg um að vera. Veitingahús og kaffihús í röðum ásamt óteljandi fish and chips búllum. Þegar við komum svo til Manly þá blasti við mér sjón sem ég hef aldrei séð áður en það voru mörg þúsund möstur. Í Manly er nefnilega ein stærsta smábátahöfn hérna í nágrenninu og margir Brissie búar geyma bátana sína hérna. Þetta var alveg magnað möstur svo langt sem augað eygði og þúsundir báta, því miður klikkuðum við á að koma með myndavél annars hefðum við tekið myndir. Áfram héldum við og stoppuðum m.a. á útsýnistaðnum Wellington point þar sem mátti horfa yfir allan syðri Moreton bay, sem er flóin sem Brisbane áin rennur út í, og aftur nagaði maður sig í handabökin að hafa ekki haft neina myndavél.

Á laugardaginn vöknuðum við svo snemma fengum okkur stóran morgunverð og drifum okkur norður á leið í átt að Sunshine coast því ætlunin var að heimsækja einn frægasta dýragarð hérna á svæðinu, ef ekki í Ástralíu allri, Australia Zoo!!!. Þarna er að finna öll helstu dýrin sem gera Ástralskt dýralíf svona sérstakt auk þess sem þar ræður ríkjum einhver sérstæðasti Ástrali sem um getur, Steve Irwin corcodile hunter "Crikey mate!!!!". Þetta er flottur dýragarður, snyrtilegur og fjölbreytt dýralíf auk þess sem þau eru með sýningar á hálftíma fresti. Horðum við á fuglasýningu, snákasýningu, tígrísdýrasýningu og loks krókódílasýningu enda er garðurinn frægur fyrir krókódílana sína þar sem þeir eru ansi vígalegir sumir. Sá stærsti er 70 ára gamall 7 m langur og vegur ekki nema 1 tonn. Þetta eru flest allt krókódílar sem Steve hefur þurft að fjarlægja úr ám og vötnum þar sem þeir hafa verið óæskilegir og taldir hættulegir. Þarna mátti einmitt sjá ýmislegt úr fórum Steve eins og götóttustu gönguskó sem ég hef séð en þeir urðu fyrir barðinu á einum krókódílnum sem Steve var að veiða. Að sjálfsögðu var Steve í skónum þegar þetta gerðist.

Annars urðum við fyrir smá vonbrigðum því ekkert bólaði á kappanum í dýragarðinum, ekki einu sinni í krókódílasýningunni. Ég hafði nú vonast til að sjá gaurinn en allt kom fyrir ekki. Nóg var nú samt af myndum af honum og hans familíu og nóg hægt að kaupa af dóti og drasli tengdu dýragarðinum. Þetta er alveg heljarinn fyrirtæki þessi garður. En það var margt meira að sjá þarna þó að ekki næðist mynd af Steve. Kengúrur og kóalar, drómedarar og dingóar, snákar og otrar, emúar, vambar og ofvirkir Tasmaníu djöflar. Þeir höguðu sér alls ekkert ólíkt því sem maður hefur séð í looney tunes heldur hringsnérust út um allt og erfitt var að ná af þeim mynd. Ef einhver hefur áhuga þá setti ég það helsta inn í myndasafnið sem sagt komnar NÝJAR MYNDIR!!! :). En við eyddum góðum 6 tímum í að skoða garðinn og var þetta alveg frábær skemmtun enda kominn ansi langur tími síðan ég fór í dýragarð síðast.

Eftir að heimsókninni lauk þá ákváðum við að fara í smá sightseeing um svæðið í kring. Dýragarðurinn er staðsettur á svæði sem kallast Glasshouse mountains og er það eftir sérkennielgum fjallmyndunum þarna á svæðinu. Við keyrðum því upp í fjöllinn, upp á lookout þar sem mátti berja augum það helsta og útsýnið var magnað þar sem við náðum sólarlaginu og gátum virt fyrir okkur skógi vaxið landið. Við höfðu samt ekki tíma til að keyra meira þarna um en á þessu svæði eru mörg smá þorp sem selja allskonar handverk og listaverk. Á leiðinni til baka stoppuðum við aðeins til að taka eina mynd enn af þessum skemmtilegu fjöllum og fundum þá nokkuð sérstakt, risastórar breiður af ananas!!!. Lyktin var alveg mögnuð, sæt og seiðandi, og ananasinn var ansi girnilegur. Í því sem við vorum að fara að leggja af stað aftur þá kemur til okkar sjálfur ananas bóndinn og gefur okkur túristunum bara tvo hlussu ananasa!!!! Við þáðum þetta með þökkum og í eftirrétt þetta kvöldið var sætasti og safaríkasti ananas sem ég hef nokkurn tíma smakkað og það beint af akrinum !!!! :)

Jamm lífið er gott um þessar mundir í hinu trópíska Queensland, ríki sólskinsins.



miðvikudagur, apríl 21, 2004

Lífið gengur sinn vanagang hérna megin á hnettinum, ég fer í skólann og bróðir minn og familía fara á bestu strendur Ástralíu eða fara í bíltúra um baklönd Brisbane. Ég verð nú að hrósa sjálfum mér fyrir að geta staðist freistinguna að kíkja með, enn sem komið er, þar sem ég þarf virkilega að vinna baki brotnu núna í skólanum. Ég ætla nú samt að kíkja með þeim um helgina eitthvað hvað sem tautar og raular. Annað hvort er stefnan tekin á Australia zoo, þar sem vitleysingurinn og krókódílaveiðimaðurinn Steve Irwin ræður ríkjum, eða að skella sér til Moreton Island þar sem hægt er að snorkla.

Annars skelltum við okkur öllsömul í bíó í gær en það er nú ekki frásögu færandi nema það að þetta var open air cinema under the stars. Þetta var sem sagt úti bíó niðri á South Bank þannig að maður kom bara með teppi og nammi með sér og sat á grasinu og horfði á bíó á risaskjá fyrir framan sig, stjörnurnar fyrir ofan sig og borgarútsýni hinu megin við ána og veðrið hið besta. Alger snilld!!!! Reyndar var myndin kannski ekki sú skemmtilegasta en sem betur fer mátti samt "horfa" á hana þar sem þetta voru ofurskutlurnar í Charlies Angels 2 (svo mátti nú alveg hlægja að Bernie Mac inn á milli). Ég skil samt ekki hvernig þessar stelpur eiga að geta hoppað og skoppað út um allt, lent í sprengingum og fótbrotnað og svo fimm mínútum síðar verið komnar í kjól og hvítt með svaðalega hárgreiðslu. Það er ekki eins og þetta eigi að gerast í gerviheimi eins og The Matrix. Ég er með þá kenningu að ástæðan fyrir því að þær geta hoppað og skoppað svona mikið og þolað allt þetta hnjask er sú að þær eru allar fullar af gerviefnum (sílikoni, kollageni o.s.frv.).

En ég þarf víst að stoppa hér þar sem ég þarf að taka dótið mitt til og taka ferjuna niður í skóla eftir smá stund.

Stay afloat on the reality boat!




laugardagur, apríl 17, 2004

Hæ aftur öllsömul svo virðist sem www.biggibix.blogspot.com sé aftur komin í fínasta lagið og því ekkert meira að segja um það og því ætla ég bara að vinda mér beint í ferðasöguna og segja ykkur að það eru komnar myndir inn á myndasafnið frá Sydney!!!!

Ég fékk sem sagt eins og flestum ætti að vera kunnugt gesti um páskana, bróðir minn hann Jón, Rósu mágkonu mína og dætur þeirra Valdísi og Ingibjörgu. Þau mættu hingað í byrjun páskafrísins hjá mér þannig ég gat eytt nokkrum tíma með þeim sem betur fer. Stuttu eftir að þau komu var ákveðið að skella sér til Sydney en þau hafa sem sagt leigt sér bílaleigubíl hérna í mánuð og ætla að vera að flakka um í kringum Brisbane og svo að kíkja í lengri ferðir líka inn á milli.

Eftir að hafa eytt fyrstu dögunum hérna í Brisbane, þar sem við fórum m.a. að skoða það helsta í borginni, þá var lagt af stað til Sydney á mándegi en þangað eru samkvæmt kortabókunum u.þ.b. 1000 km frá Brisbane. Ekki var ætlunin að taka þessa vegalengd í einum rykk heldur að gista miðja vegu í bæ sem heitir Port Macquarie, viðkunnalegur hafnarbær sem á sér langa sögu. Á leiðinni til Port Macquiraie stoppuðum við í litlum strandbæ sem heitir Byron Bay. Byron er einn af þessum stöðum sem er "möst" að heimsækja þegar menn eiga leið hér um. Plássið er þekkt fyrir góðar strendur, gott brim og nokkuð sérkennilegt mannlíf. Þarna þrífast hippar og sörfarar inn á milli ógeðslega ríkra Ástrala sem hafa komið sér þarna fyrir. Við stoppuðum nú ekki lengi en dýfðum þó tánum í sjóinn og virtum fyrir okkur mannlífið sem var fjölbreytt og héldum svo áfram. Við komum um kvöldmatarleitið en þar er margt hægt að gera sér til dundurs t.a.m. að fara í reiðtúr á kameldýri á ströndinni. Ekki var það nú gert þar sem við komum það seint í bæinn og fórum snemma á fætur þar sem við vildum komast til Sydney eins snemma og við gátum til að geta skráð okkur inn á hótelið og kíkt í bæinn. Þess má geta að Ástralía er einn af fáum stöðum í heiminum þar sem villt kameldýr er enn að finna en þau voru flutt hingað og notuð sem ferðamáti í rauðum, heitum og þurrum eyðimörkunum í árdaga þegar menn voru enn að reyna að brjóta þetta land undir sig.

En áfram héldum við eftir the Pacific Highway sem er þjóðvegur númer 1 hérna hjá þeim í Oz. Við urðum nú fyrir svolitlum vonbrigðum með vegakerfið hjá þeim en við bjuggumst nú við aðeins meiri hraðbrautarbrag yfir þessu þar sem þetta er nú aðal vegurinn hjá þeim. Raunin varð sú að það er bara hraðbrautir 150 km út frá borgunum eins og Brisbane og Sydney en þar á milli er þetta nánast eins og þjóðvegur 1 á Íslandi þar sem hann bugðast um litla bæi og sveitir Ástralíu. Þannig það tók aðeins lengri tíma að komast til Sydney en við gerðum ráð fyrir. Hins vegar vorum við bræðurnir ánægðastir með það að okkur tókst að rata á hótelið okkar án þess að hafa eitt einasta kort í höndunum. Við höfðum leiðbeiningar sem ég fékk á netinu og keyrðum svo bara eftir skiltunum sem gekk svona alveg ágætlega. Hótelið okkar var í bæ sem heitir Bankstown, svona eins og Hafnarfjörður í Reykjavík, og voru 25 km í miðbæ Sydney. Við lögðum hins vegar bílaleigubílnum á meðan á dvölinni stóð og notuðum bara lestirnar í staðinn en frá Bankstown var lestarferðin 35 mín niður í miðbæ.

Við komum til Syndey frekar í seinni kantinum en kíktum engu að síður niður í miðbæ til að berja augum hið fræga óperuhús og hafnarbrúnna. Ekki var maður svikinn af því að vera spóka sig um þarna þar sem maður hefur svo oft séð myndir af þessu í fréttum og bíómyndum. Alveg magnað að vera staddur þarna sjálfur og skoða allt sem fyrir augu ber. Við stöldruðum nú stutt við að þessu sinni enda klukkann orðinn margt.

Næsta dag var vaknað snemma og brunað með lestinni niður að Circular Quay sem er niðri við höfnina og er aðal stoppistöð allra ferjanna sem sigla þvers og kruss um Sydney harbour fullar af fólki sem er að fara í vinnuna eða bara að skoða sig um. Við skelltum okkur í göngutúr um miðbæinn, framhjá óperuhúsinu aftur og í gegnum grasagarðinn. Þar var eiginlega merkilegast að sjá þúsundir af leðurblökum hangandi í trjánum að reyna að fá sér lúr í heitri sólinni. Þær voru út um allt og eru eiginlega orðnar plága í garðinum þar sem þær eru eru orðnar svo margar að þær eru farnar að skemma tréin sem þær sofa í. En það var margt annað að sjá og eiginlega ekki hægt að lýsa því í orðum. Eftir garðinn skelltum við okkur aftur inn í borgina. Ös og kös og ys og þys er einkennandi fyrir Sydney þar sem maður gekk framhjá búðum eins og Cartier og Gucci og sá jakkaklædda menn hoppa upp í eðaldrossíur. Hinum megin á horninu sat betlarinn með nokkur cent í kaffibollanum sínum. Sydney er stórborg með öllu sem því fylgir en það er hægt að týna sér í þessum frumskógi úr steypu og malbiki við að horfa á allt fólkið, bílana og háhýsin sem tróna yfir öllu saman. Því brugðum við á það ráð að fá betra sjónarhorn og fórum því upp 250m í Sydney observation tower. Frá þessum turni er aðeins hægt að átta sig betur á hvernig landið liggur og aðeins að komast burt frá kösinni fyrir neðan.

Næst lá leiðin aftur niður á circular quay þar sem við tókum ferju, en það er ekki hægt að koma til Sydney án þess að sigla með ferju um eina frægustu höfn í heimi. Ferðin lá til Manly beach sem er hálftíma sigling frá Syndey. Þar eru strendur sem Sydney búar sækja í og er þetta alveg frábær strandbær, soldið majorka legt samt og nóg af búðum og skyndibitastöðum. En strendurnar voru flottar og Kyrrahafið var langt frá því að vera kyrrt því þarna var allgott brim. Þegar hingað var komið til sögu var sólin farin að setjast og því gripum við næstu ferju til baka til að reyna að ná góðri mynd af brúnni og óperuhúsinu í gylltum skrúði sólarlagsins en...........við vorum of sein og þegar við komum að Sydney var sólin sest. Samt var nú ekkert að útsýninu þar sem maður sá borgarljósin og upplýst óperuhúsið og brúnna. Eftir langan og strangan dag var gott að komast aftur upp á hótel og hvíla lúin bein en framundan var langur akstur aftur heim til Brisbane. Því miður höfðum við ekki lengri tíma en einn og hálfan dag í Sydney og það var nóg til að sjá það helsta en það er svo margt margt meira sem maður á eftir að sjá þar. Ég er því búinn að lofa sjálfum mér því að koma aftur og eyða a.m.k. viku í að skoða mig um og hafa það náðugt (fann meira að segja góða backpacker gistingu á Manley beach ;).

En ég er sem sagt búinn að sjá BORGINA, helstu borga Ástralíu, og ekki sveik hún. Þetta er góð byrjun á því sem í vændum er en ég á eftir að sjá allt hitt, frumskóginn, rifið mikla, eyðimerkurnar og allt þar á milli. Ævintýrið er rétt að byrja og ég hlakka til þegar ég er búinn í prófunum en þá hafði ég hugsað mér að kíkja inn í rauða miðjuna að skoða.

Svo að lokum er hér saga sem ég las um það af hverju kengúrur heita þessu skrítna nafni kengúrur. Rétt eftir að Ástralía fannst var kafteinn Cook að kanna landið og rakst á þessi skrítnu hoppandi dýr sem hann hafði aldrei séð áður (og reyndar enginn annar í hinum þekkta heimi þá). Hann spyrði því innfædda að því frumbyggja að því hvað þessar furðulegu skepnur væru kallaðar. Frumbygginn svaraði "Kangaroo" og því fór Cook heim til Evrópu og lýsti "kangoroos" fyrir lýðnum sem átti erfitt með að trúa að slíkar skepnur væru til á jörðinni. En eins og oft vill koma fyrir þegar tveir mismunandi menningarheimar mætast verður stundum misskilningur og hvað þá heldur þegar menn tala ekki sama tungumálið. Það kom nefnilega síðar í ljós að Cook hefði átt að hafa með sér túlk þegar hann ræddi við frumbyggjannþví að "kangaroo" þýðir á máli frumbyggja "ég veit það ekki".

Cheers

Ps: Heimabruggið er alveg eðal ;)



föstudagur, apríl 16, 2004

Hæ hæ ég er mættur aftur á Mark street eftir magnaða ferð til Sydney. Eitthvað virðist nú vera að síðunni hjá mér þar sem www.biggibix.blogspot.com virkar ekki en http://biggibix.blogspot.com virkar???? Jæja ég ætla að sjá hvað setur og hvort þetta lagist ekki. Ferðasagan og fullt af myndum verður sett inn á næstunni þannig fylgist vel með.



sunnudagur, apríl 11, 2004

Jæja nú er búið að vera kátt á hjalla hérna á Mark street síðustu tvo daga. Jón bróðir og fjölskylda mættu eldhress á svæðið á laugardagsmorgun eftir að hafa verið 2 nætur í Singapore, sem er víst ein stór verslunarmiðstöð að þeirra sögn. En sum sé ég tróð þeim hérna inn í íbúðina mína þó lítil séð og fer ágætlega um þau. Enn og aftur á ég það Finn og Marge að þakka sem lánuðu mér queen size upplásið rúm og fold out rúmið sem ég svaf á hérna fyrstu næturnar :)

En eftir að hafa komið sér fyrir þá var fyrst farið að versla og svo lögðu hjónin sig á meðan ég fór með frænkur mínar, Ingibjörgu og Valdísi 11 ára, út í New Farm Park þar sem ég hafði lofað þeim að finna litríku páfagaukanna sem ég setti myndir af á netið. En við röltum sem sagt út í garð þar sem mikið þurfti að skoða, blóm, fiðrildi, eðlur, allskonar fugla og loks fundum við páfagaukana litríku. Okkur tókst að eyða 3 tímum úti í garði og er ég kominn með ágæta bændabrúnku þar sem ég sólbrann aðeins á öxlunum þrátt fyrir að hafa verið með sólarvörn númer 25!!!

Eftir að við komum heim voru foreldrarnir komnir á fætur aftur og þá stakk ég upp á smá bíltúr upp á Mt Cootha þar sem er útsýnisstaður og hægt að sjá yfir alla borgina og yfir svæðið í kring. Eitthvað gekk Jóni nú erfiðlega að átta sig á hvorum megin stýrið væri á bílnum og ætlaði hann að setjast inn farþegameginn. Einnig á hann erfitt með að gefa stefnuljós þar sem hann setur oft rúðuþurrkurnar í gang í staðinn. Við erum allavega með hreinustu bílrúður í Brissie. En ég hafði sjálfur aldrei komið upp á Mt Cootha en þetta er magnaður staður og hægt að gleyma sér þarna bara við að horfa út yfir borgina og lengra í átt að sjóndeildarhringnum. Ég tók nokkuð af myndum sem ég þarf að setja inn á netið við tækifæri, læt vita þegar þær eru komnar.

Fjölskyldan fór ekki á fætur í dag fyrr en klukkan eitt eftir hádegi, þau eru enn að reyna að koma sólarhringnum í rétt horf, á meðan ég notaði morguninn í að læra aðeins. Annars fór dagurinn bara í leti þar sem við bjuggum okkur til samlokur og fórum í picknik út í garð (New Farm park) og nutum þess að hafa það gott í góða veðrinu og horfa á fólkið. Um helgar er garðurinn yfirleitt fjölsóttur en nú er páskahelgi þannig það var nokkuð meira en venjulega en samt ekki of margt. Við höfðum ekki mikinn tíma samt þar sem við áttum að mæta í kvöldmat til Finn og Marge klukkan sex og þaðan vorum við að koma eftir góðan mat, skemmtilegar samræður og frábæra gestrisni.

Nú er bara verið að plana ferðina til Sydney en stefnan er að leggja af stað á morgun eftir hádegi og gista eina nótt á leiðinni í Port Macquarie, sem er nokkurn veginn miðja vegu milli Sydney og Brissie. Í þetta skipti verður svo gist í tvær nætur í Sydney og farið að sjá það helsta, bara svona eins og alvöru túristar, en svo á ég ábyggilega eftir að kíkja aftur og eyða aðeins lengri tíma þarna síðar.



fimmtudagur, apríl 08, 2004

Hmm ég er ekki frá því að ég sé að upplifa "deisjavú" (þetta er hljóðfræðileg stafsetning) í dag ....... eða svona nokkurn veginn sams konar atburð. Sagan er allavega að endurtaka sig því nákvæmlega fyrir einu ári síðan, föstudaginn langa árið 2003. Þá sat ég einnig fyrir framan tölvu, að vinna á fullu í verkefni fyrir skólann, óskandi þess að föstudagurinn langi væri aðeins lengri en aðrir dagar svo ég gæti nú klárað það sem ég þyrfti að gera. Ha ha og viti menn ég er tilbúinn að veðja 10 þús á upp á það að sagan á eftir að endurtaka sig líka næsta ár. En svo næsta ár þar á eftir þá verður vonandi eitthvað annað upp á teningnum setjum það allavega niður sem framtíðarplön.



miðvikudagur, apríl 07, 2004

Ég ætla að segja ykkur smá sögu um mann sem var hetja. Ég heyrði þessa sögu einhvern tímann þegar ég var í HÍ en heyrði hana aftur í tíma í dag, hún er því greinilega vinsæl út um allan heim.

Í einhverri ónefndri borg í ónefndu landi á ónefndum tíma bjó ónefndur maður á óræðum aldri. Dag einn var þessi maður að ganga meðfram ánni sem bugðaðist í gegnum borgina hans þegar hann heyrir angistarvein lítils barns sem rekur hjálparlaust niður ánna. Hann bregst við á skjótan hátt stekkur úti í, nær í barnið og syndir með það í land og bjargar því þar með. Fyrir þetta álitu hann allir vera hetju og fögnuðu honum mjög auk þess sem það var umfjöllun um hann í blöðunum. Næsta dag fór maðurinn í göngutúr aftur meðfram ánni og enn og aftur var hjálparlaust barn sem flaut niður ánna og hann dreif sig því og bjargaði því líka. Aftur var hann álitin hetja af samborgurum sínum og svona gekk þetta dag eftir dag, alltaf nýtt barn og alltaf stökk maðurinn út í og bjargaði barninu. Svona gekk þetta þangað til að dag einn kom ókunnugur maður að hetjunni sem beið á bakkanum eftir að næsta barn flyti framhjá. Hann hafði heyrt um þessa miklu hetju sem alltaf var að bjarga börnum. Hann spurði hetjuna af hverju hún sæti á bakkanum? Til að geta bjargað börnunum og verið hetja sagði hetjan við ókunnuga manninn. Þá hugsaði ókunnugi maðurinn sig um í dálitla stund og sagði svo pirraður " Ok en í staðinn fyrir að sitja hérna á bakkanum og bíða eftir næsta barni af hverju reynir þú ekki að komast af því hver er að grýta þessum fjandans krökkum í ánna!!!!!!"

Já og þannig var nú það en mottóið með þessari sögu er að í staðinn fyrir að bregðast alltaf við vandamálum jafnharðan og þau koma upp af hverju ekki að reyna að koma í veg fyrir þau áður en þau gerast. Bara svona smá hugleiðing úr skólanum.



þriðjudagur, apríl 06, 2004

Það eru alltaf skemmtilegar fréttir frá Ástralíu í morgunblaðinu. Þessi fannst mér nokkuð áhugaverð:

"Mikil deila hefur nú brotist út í Ástralíu eftir að ísframleiðandi hóf sölu á Magnum-íspinnum með trönuberjavodkabragði. Samtök fólks sem berst gegn útbreiðslu vímuefna hafa gagnrýnt tiltækið og segja, að íspinnar sem þessir venji börn á alkóhólbragð allt of snemma á lífsleiðinni. Ástralir megi ekki við því að slá slöku við með þessum hætti, áfengisneysla sé mikið vandamál í landinu. Framleiðandi íspinnanna segir hins vegar að ekkert áfengi sé í ísnum og að framleiðslunni sé hvort eð er ætlað að höfða til fullorðinna."

Ég persónulega myndi ekki hafa neinar áhuggjur af því að börnin myndu upp til hópa fara að skrópa í skólanum til að detta í íspinna át á rólóvellinum. Vodkabragð er nú ekkert til að hrópa húrra fyrir svona eitt og sér og ef einhver krakki yrði svo vitlaus að byrja drekka vodka eftir að hafa smakkað þennan íspinna þá held ég að sviðinn sem hann fengi í hálsinn af að drekka brennda drykki myndi fljótlega hrekja hann frá öllum áætlunum um að byrja að þamba vodka. Nema að hann væri þeim mun staðráðnari í að byrja að drekka en krakkar hafa hvort sem er nú orðið svo litla einbeitingu til lengri tíma.

Svo var ég líka að lesa að stórhljómsveitin Metalica sé á leiðinni til Íslands í sumar. Hvað er í gangi?!?



mánudagur, apríl 05, 2004

Sko ég er enginn kuldaskræfa, heima í Bakkaseli átti ofnin í herberginu mínu það til að slökkva á sér og það var nánast við frostmark þegar ég vaknaði. Ég var ekkert að gera við ofninn því mér fannst bara þægilegt að sofna í kulda. Oft var nú samt erfiðara að vakna þegar það voru 37 gráður undir sænginni og þegar maður rak tærnar út undan henni þá svona hálfpartinn snöggfrusu þær. Oft og iðulega var því ýtt á snooze og haldið áfram að lúra.

Þess vegna var hrikalegt að vakna í morgun. Í fyrsta lagi nota Brissie búar ekki sæng eins og við heima, í mesta lagi lak og svo þykkara rúmteppi þegar fer að kólna á haustin og veturna. Já ég segi kólna því það er nákvæmlega það sem gerist. Þegar ég vaknaði í morgun var mér skítkalt en hitastigið datt niður fyrir átján gráðurnar í nótt. Je je hættu þessu væli þarna hugsa kannski sumir á meðan allt er á kafi í snjó heima á Íslandi. Jú það má vel vera en þið getið þó allavega hækkað á ofnunum og haldið hitastiginu inni í kringum 22 gráður , sem samkvæmt vísindamönnum er víst kjörhitastig fyrir mannskepnuna, og sleppt því að fara út. Hér eru engir ofnar og húsin eru óeinangruð þannig það er ekki hægt að ylja sér. Þess vegna er ég í alvörunni að hugleiða að kaupa rafmagnshitara fyrir veturinn ógurlega hérna. Mér er sagt að í verstu vetrarhörkunum þá geti hitastigið fallið niður í 5 gráður og þegar þú vaknar á morgnanna og geispar þá líður frostmóðan af andadrættinum upp.

Innkaupalisti fyrir veturinn: Rúmteppi, rafmagnshitari, flíspeysa og inniskór.



sunnudagur, apríl 04, 2004

Ég kíkti í partí til félaga míns hans Thomas, hann er í einum kúrs með mér, en það er svo merkilegt að hann er frá Nýju Kaledóníu. Það er land sem maður heyrir ekki mikið um heima á Íslandi en íbúarnir þar eru 200 þúsund stykki og er þetta eiginlega ennþá hluti af Frakklandi. En ég var bara ánægður þegar ég hitti hann fyrst að loksins hefði ég hitt einhvern sem byggi í landi sem hefði færri íbúa en Ísland þannig ég gat hlegið að HONUM í staðinn fyrir að láta hlægja að MÉR þegar ég segi fólki hvað margir búa á Íslandi. En allavega partíið var alveg þrælskemmtilegt og það var alveg frábær veðurskilyrði fyrir partí. Það er farið að verða mjög þægilegt hérna núna, ég gat t.d. farið í gallabuxur í fyrsta skipti í gærkveldi síðan ég kom hingað fyrir rétt tæpum átta vikum. Áður fyrr var bara allt of heitt og rakt til að vera í þykkum gallabuxum, hálf óþægilegt. En sem sagt það var bara hangið á veröndinni, drukkinn bjór, hlustað á músík og talað við allt fólkið frá öllum þessum mismunandi löndum. Þarna var t.d. ein stelpa frá Nýju Kaledóníu sem hafði átt heima í 17 ár á Madagaskar og flutt svo til Nýju Kaledóníu en hún átti víst líka bróður á Spáni, systur á Ítalíu, mamma hennar var í Frakklandi og svo var pabbi hennar í U.S.A. Ég spurði nú bara svona sposkur á svip hvort að fjölskyldunni væri nokkuð illa hvort við annað :) En svo reyndist ekki vera bara mjög sjálfstætt fólk sem hefur nóg að gera.

Ég hálfpartinn hafði eiginlega ekkert slíkt að segja, fæddur og uppalinn í Reykjavík, þar er öll familían mín og hefur búið þar líka alla ævi fyrir utan bræður mína sem báðir bjuggu um stund í U.S.A. Ekkert voða spennó miðað við Madagaskar, Nýju Kaledóníu og svo loks Ástralíu hjá henni :) En það skiptir ekki öllu máli það er bara gaman að fræðast um fólk sem hefur verið út um allt og séð ýmislegt, það er eitt af því sem mér líkar svo vel við skólann og að vera hér, þessi fjölbreyttni.

Annars er ég búinn að sitja við í allan dag og gærdag við að reyna að læra undir próf í gagnasafnsfræðum á mánudaginn. Gengur svona ágætlega og inn á milli hlusta ég á tónlist og fæ mér smá snarl í gogginn, frekar þægilegt og einfalt líf svo sem. Það mætti kannski halda að ég væri alveg að verða brjálaður á því að húka inni hérna og læra þegar ég hef 7.682.300 ferkílómetra af einhverju hrikalegasta og mikilfenglegasta landsvæði á jarðarkringlunni fyrir utan gluggann hjá mér og bíður eftir að ég kanni það nánar. En ég er svona að venjast þessu og svo er nógur tími til stefnu. Auk þess er í sjálfu sér bara hálfgert ævintýri að fara út í búð eða í skólann, alltaf eitthvað nýtt að sjá og alltaf gott veður ;) Ég fer nú líklegast að ferðast um páskana með gestunum væntanlegu og það dugar í bili þangað til þessi önn er búin í skólanum í lok júní.

Have a nice one!!



föstudagur, apríl 02, 2004

Er ekki tæknin skondin. Var að lesa í mogganum að nú væri engin vafi á að það hefði verið vatn á mars. Fyrsta staðfestingin á því að vatn hafi á einhverjum tíma fundist í sólkerfinu og þar af leiðandi að öllu líkindum utan sólkerfisins. Nema þetta hafi verið apríl gabb hjá NASA og þeir bíði spenntir eftir því að einhver stoppi við á Mars til að fá sér vatnssopa þá hoppa tveir geimfarar fram og segja......ha ha ha hér er ekkert vatn 1. apríl!!!!! En ef satt reynist þá er það spennandi mjög spennandi þar sem vatn er jú undirstaða lífs þá gæti einnig hafa verið líf á Mars og ef það var líf á Mars þá gæti verið líf annars staðar. En nóg af pælingum um Marsbúa og aðra íbúa himingeimsins hvort sem þeir eru einfrumungar, fjölfrumungar, Hafnfirðingar eða hvur veit hvað.

En já tæknin er skondin og í dag nýtti ég mér loksins míkrafóninn sem ég keypti mér um daginn til að tala við Sigurbjörn og Val félaga mína í gegnum msn messengerinn. Það tók smá tíma að koma þessu til að virka en það hafðist með dyggri aðstoð hans Vals sem fær hér með þakkir....... and the check is in the mail ok?? En þetta var bara alveg fínasta samband sem náðist í gegn, bara eins og að tala í síma nema hvað að þetta er ódýrara og þægilegt að geta sleppt því að pikka á lyklaborðið. Ég er líka að hugsa um að fá mér webcameru en Sigurbjörn var einmitt með svoleiðis og þegar maður er kominn með það líka þá er nú bara eins og maður sé í sama herbergi.....svona næstum því. En gaman að því að tala við fólk í U.S.A. og Íslandi og ég svo sjálfur í Ástralíu, allt í gegnum internetið. Gaman að hugsa um það hvernig hlutirnir verða orðnir eftir 50 ár maður verður bara svo spenntur að hugsa um það að maður vill helst ekki bíða!!!!!!! Vona að tímavélin sé á leiðinni í póstinum.

Tæknin lengi lifi.



This page is powered by Blogger. Isn't yours?