<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, maí 30, 2004

Var að lesa moggann og rakst á frétt um mótmæli feminista við fegurðarsamkeppni Íslands fyrir utan Brodway á dögunum. Áhugaverð mótmæli þar á ferð. Í kjölfarið kíkti ég fyrir forvitnissakir inn á heimasíðu félagsins.

Mig langar að varpa fram einni athugasemd til netheima. Ef Feministafélag Íslands vill meina að það berjist svona mikið fyrir jafnrétti kvenna og karla af hverju er bara mynd af einum strák en þremur stelpum undir feministaspjall vefnum þeirra? Sem jafnréttissinni þá finnst mér að það ætti nú að vera 50/50 skipting þarna. Svo lítur út eins og hann sé að tékka á þeirri ljóshærðu. Eins og við karlmenn hugsum ekki um annað en stelpur!!



Samkvæmt þessu prófi á netinu, sem vefleiðari Ellans vakti athygli mína á, þá líkist ég víst þeim David Beckham, Michel Owen og David Borenaz. Fyrir þá sem ekki þekkja hann þá er það gaurinn sem leikur Engil (e. Angel) í Buffy the Vampire slayer. Hræðilegra nafn hef ég aldrei heyrt samt, Boring Ass!! Hvað voru foreldrar hans að hugsa?

En allavega ég er mjög ánægður með þessa niðurstöður, enda ekki ljótum að líkjast, þó svo að mér hafi alltaf verið sagt að ég líkist meira Mel Gibson. Á hverju þetta próf byggist veit ég ekki nákvæmlega en það hefur eitthvað með það að gera hvað er langt á milli augnanna á þér.



föstudagur, maí 28, 2004

Nú er allt að gerast hérna hjá mér en það eru stórfréttir í aðsigi. Eftir að ég bruggaði fyrsta skammtin af Bex heimabrugginu hafði ég samband við þýska bjórframleiðendur og viti menn þeir voru yfir sig hrifnir af gullna ölinu.

Þeir voru svo hrifnir að þeir réður hinn fræga grafíska hönnuð Sibbowitz von Weitholt til þess að hanna hið nýja merki og leit fyrsta flaskan dagsins ljós í dag. Þvílík hönnun hefur ekki sést áður!!!



Probst!! Meine herren und damen.



fimmtudagur, maí 27, 2004

Haustið er farið að segja til sín hérna í Queensland þessa dagana. Ég vissi nú ekki alveg við hverju ég ætti að búast en þetta er svo sem hliðstætt því sem gerist heima. Tréin virðast samt ekki fella öll laufin heldur bara hluta af þeim og þau fjúka um göturnar gul og brún. Það er nú samt ekki að sjá á þeim því allt er enn grænt og ekki veit ég hvort það breytist nokkuð. Það er ekki nánast því nærri sama litadýrðin sem fylgir haustinu hérna og heima. Ég fór nú samt á stúfana um daginn og reyndi að fanga haustið á filmu, eða réttara sagt pixla, og náði nokkrum góðum myndum. Ég set þær inn við tækifæri þegar ég hef kannski náð meiru.

Hitastigið er líka komið niður í 20 gráðurnar á daginn, bara næstum það sama og á Egilsstöðum þessa dagana, og allt niður í 5 gráður á nóttunni. Það er líka farið að blása meira að staðaldri heldur en það gerði og þegar það er þessi blástur og sólar nýtur ekki við þá er bara óneitanlega haustlegt þegar maður fer út. Þannig það má því augljóslega greina árstíðir hérna þó enginn sé snjórinn og lítil litadýrðin. Það verður áhugavert að sjá hvernig verður orðið umhorfs um miðjan ágúst eða "in the dead of winter" :)

Annars er ég búinn að vera að hugsa um hvað eigi að gera í miðsvetrarfríinu sem er frá 23. júní til 26. júlí næsta. Ég ætla mér allavega að ferðast eitthvað en ekki verða það langferðir að þessu sinni. Ætlunin er að kíkja norður til Noosa, sem er á Sunshine coast, og taka nokkra tíma í viðbót í brimbrettaþjálfun :) Svo er plönuð útilega á Fraser Island sem er víst stærsta sandeyja í heimi (nóg af trjám á henni samt) og að lokum kannski að kíkja á hin ýmsu svæði hér í kringum Brisbane sem ég á enn eftir að kíkja á. Langferðalögin ætla ég að bíða með þangað til í nóvember og svo eftir útskrift held ég.

En enn sem komið eru þetta bara ferðalög með Hugarflugi hf og ef ég held ekki áfram að pikka inn verkefnin í staðinn fyrir að blogga þá fer ég hvergi.



sunnudagur, maí 23, 2004

Það eru nokkrir hlutir í heiminum sem geta gert menn geðveika. Að vera bundin undir krana þar sem ískalt vatn er látið dropa á ennið á þér í langan tíma er dæmi um slíkt. Að vera strandaglópur á eyðieyju með blakbolta í mörg ár er annað. En ég hef uppgötvað að þessir hlutir komast ekki í hálfkvist við þá illsku og geðveiki sem kallast "Structured Query Language (SQL) eða "Satans Query Language" eins og ég vil frekar nefna það.

Þetta miskunarlausa tungumál er notað í gagnagrunnum til að sækja eða meðhöndla upplýsingar og hefur eflaust verið notað eða mun vera notað um okkur öll einhvern tíman á lífsævinni. Þegar þú borgar skattana þína, tekur bók á bókasafninu eða leigir þér nýjustu Sylvester Stallone myndina þá hefur SQL verið beitt.

Margir hafa eflaust unnið með þetta tungumál en fæstir hafa áttað sig á því þar sem þeir eru það heppnir að vera verndaðir fyrir rótum þess með grafísku viðmóti þar sem nægir að smella á einn eða tvo hnappa með músinni til að ná æskilegum árangri. Fyrir þá sem hins vegar voga sér að kafa dýpra í þennan myrkraheim bíður ekkert nema geðveiki þegar menn eru farnir að þylja ósjálfrátt upp yfir sig setningar sem byggja á þessari málfræði hins myrka.

SELECT drykkur, matur
FROM ísskápur
WHERE drykkur=bjór AND (matur=kjöt OR matur=Grænmeti)



fimmtudagur, maí 20, 2004

Hér í Ástralíu er ekki til Cherioos. Sem er merkilegt því nánast allt annað morgunkorn er til hérna frá Corn Flakes til All Bran. Þess vegna var stungið upp á því við mig að ég ætti að hætta þessu skólabulli og fara bara að flytja inn Cherioos hérna og moka inn peningunum. Við sjáum til. Ég er sjálfur ekki mikið fyrir morgunkorn, kýs heldur vænan skammt af beikoni og eggjum, en ef ég borða morgunkorn þá vil ég helst honey nut cherioos. Og svona til að kóróna þetta þá vil ég helst setja tvær vænar skeiðar af Nesquick súkkulaðidufti ofan á og drekka svo súkkulaðimjólkina þegar ég er búinn að veiða upp allt cherioosið. En þar sem ekkert er cheroosið í landinu down under hef ég þurft að sætta mig við Corn Flakes sem er bara ekki það sama og á alls ekki við með Nesquickinu.

En að mikilvægari málum. Sá í mogganum í morgun merkilega frétt. Justin Timberlake og Antonio Banderas héldust í hendur og grétu á frumsýningu Shrek 2. Cameron Diaz, unnusta Timberlake, horfði undrandi á þá "félaga". Það er gott að geta látið tilfinningar sínar í ljós, sérstaklega þegar um dramatískar myndir er um að ræða eins og þessa tölvuteiknimynd þar sem Eddie Murphy leikur talandi asna og Mike Myers grænt tröll. En hversu kaldlynd er Cameron Diaz ef hún fellir ekki eitt tár og hrekur Justin greyið í arma annars manns?

Jæja nú er nóg að gera framundan, próf á mánudaginn og svo er unnið hörðum höndum að lokaverkefninu í rýmisgreiningu. Ég á að finna bestu staðsetningu á nýjum vindtúrbínum hérna í South-East Queensland m.t.t. bestu vindskilyrða, minnstu raski á umhverfinu og sjónmengun og þar sem kostnaðurinn er í lágmarki. Mjög áhugavert allt saman og því best að koma sér að verki.



þriðjudagur, maí 18, 2004

Jæja loksins tókst mér að koma inn myndum af strandferðinni um helgina. Netið hjá mér er búið að vera á módem hraða síðustu daga þar sem ég fór yfir kvótann sem ég má hlaða niður. Þó hægja þeir á tenginunni þannig þetta er eins og mjög hægvirkt módem. Er ég búinn að vera að nálgast geðveiki við að hlaða niður eitthvað á netinu og það tekur heila eilífð. Maður er orðinn alltof háður þessari tækni.

En strandferðin var alveg frábær. Ég fór með nokkrum félögum úr UQ niður á Gold Coast, nánar tiltekið hluta hennar sem heitr Surfers Paradise enda ætlunin að læra að "sörfa". Við vorum snemma á ferðinni til að komast sem fyrst niður á strönd því dagarnir eru farnir að styttast heldur betur hérna. Það er farið að rökkva upp úr fjögur.

Við komum því upp úr níu og fundum þennan fína brimbrettaskóla á ströndinni og fengum tveggja tíma grunnkennslu með öllum útbúnaði á 30$ á mann. Við skelltum okkur því hið snarasta og ég lærði alveg helling og náði grunnatriðunum nokkuð vel. Nú er bara að fara að æfa sig meira. Já ég skellti líka inn myndum af því handa þeim sem vilja hljæja aðeins !!!! :) Þetta er geggjað sport en alveg þrælerfitt. Ég held ég eigi nú ekki eftir að eyða miklum tíma í þetta en gaman að kunna aðeins í þessu svo er hægt að skella sér af og til.

Annars er lítið annað að frétta nema það að Eurovision var sýnt hérna í sjónvarpinu. Það kom mér mjög á óvart enda Ástralía augljóslega ekki í Evrópu. Ég horfði samt ekki á það en ég sá að það var síðar gert stólpagrína að Jónsa í gamanþætti hérna í gærkvöld. Enda engin furða maðurinn engdist um á sviðinu eins og það væri eitthvað fast upp í óæðri endanum á honum. Alveg hræðilegt að horfa á manninn. En jæja þetta var nú samt fyndið að þetta skildi vera sýnt hérna og Jónsi tekinn fyrir í grínþætti í kjölfarið.



fimmtudagur, maí 13, 2004

Föstudagur mættur á svæðið og helgin fram undan. Nú þegar ég sé fram á að það verði kolbrjálað að gera næstu þrjár vikur þá er akkúrat rétti tíminn til að taka sér smá tíma og slappa af aðeins fyrir próftíðina og lokasprettinn á önninni.

Þess vegna hef ég ákveðið að skella mér niður á Gold Coast með nokkrum félögum mínum hérna í UQ og fara að sörfa. Já nú verður ekki aftur snúið, ég hef blóði vætt góm (ef svo má að orði komast) og er kominn á bragðið. Frænkur mínar voru svo elskulegar að skilja eftir lítil boggie board sem maður getur legið á og ætla ég að hafa þau meðferðis. Ég veit að ég á eftir að fá að heyra það frá félögunum þar sem á þeim er mynd af sætum höfrungum en þau eru allavega blá en ekki bleik.

Annað kvöld er mér svo boðið í afmæli til hans Finns og fór ég í gær niður í miðbæ og keypti handa honum ferðahandbók um Ísland. Er búinn að finna alveg frábæra litla kortabúð hérna sem selur allskonar kort, ferðahandbækur og fleira sniðugt. Þetta var nokkuð skemmtileg bók þar sem þetta var í raun líka bók um land og þjóð með mikið af flottum myndum. Það voru umræður um allt frá fiskveiðistrjórnunarkerfinu til álfa og trölla.

En í dag og fram eftir morgni á morgun er stefnan að vera duglegur í lærdómnum og svo tekur brjálæðið aftur við eftir helgi og þá verður ekki neitt gert fyrr en eftir próflok sem eru 23. júní.



þriðjudagur, maí 11, 2004

Jæja ég var að enda við að kveðja gestina sem komu fyrir rúmum mánuði. Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt þegar það er glatt á hjalla. Mér fannst nú íbúðin mín aldrei vera neitt rosalega stór en nú er bara eins og það sé allt of mikið pláss og ég veit ekki hvað ég á að gera við það (stefnan er nú samt að halda partí :). Ef ykkur finnst þið lifa í lítilli íbúð þá mæli ég með að þið fáið fjölskylduna ykkar til að flytja inn í smá tíma og flytja svo út aftur þá virðist hún vera mun stærri fyrir vikið.

En allavega takk fyrir mig brói, það var frábært að fá ykkur í heimsókn og að skoða Sydney með ykkur. Þið eruð velkomin aftur hvenær sem er og það á einnig við um alla aðra sem vilja heimsækja mig down under.



mánudagur, maí 10, 2004

Verð að viðurkenna að síðasta umræða var á lágu plani en engu að síður nauðsynleg. Í dag hef ég frá skemmtilegri hlutum að segja því ég fór loksins á ströndina. Já loksins eftir að hafa verið hérna í tæplega 3 mánuði þá fór ég loksins á ströndina. Að þessu sinni lét ég skólavinnuna fjúka út um gluggann og ákvað að skella mér með familíunni á ströndina. Þetta gæti hugsanlega kostað mig nokkra punkta í verkefni sem ég á að skila í dag.....en who cares!!! Kominn tími til að ég fari á ströndina og enn betra að fara með familíunni þar sem hún er nú að kveðja á morgun.

En við fórum sem sagt á Sunshine coast, til bæjar sem heitir Caloundra og komum okkur þar vel fyrir. Þetta var ágæt strönd svo sem en það sem var skemmtilegast við hana var að það voru engar smá öldur þarna. Allt upp í 3m á hæð sem skullu í stanslausum straumi á ströndinni. Það var því ekkert annað um að ræða en að hoppa út í og byrja á að stunda body surfing. Það er alveg eins og sörfing nema það er ekkert bretti notað...þú ert sjálfur brettið!!!

Þetta er ekkert smá erfið vinna. Fyrst þarf maður að koma sér út á almennilega stað þar sem öldurnar myndast. Til þess þarf maður að berjast á móti öldunum sem eru að brotna, eins og ég sagði sumar allt að 3m á hæð. Ferli sem er svona 2 skref áfram og 1 aftur á bak EF maður fer rétt að. Rangt er að reyna að standa af sér ölduna, hún er vitaskuld sterkari en þú. Það sem maður gerir er að maður bíður eftir öldunni og reynir að standa í lappirnar á meðan þar sem undiraldann reynir að draga þig inn í ölduna sem er að byggjast upp fyrir framan þig. Svo þegar hún er kominn alveg að þér og er að fara brotna yfir þig þá stingur þú þér undir hana og hún æðir yfir þig. Það er ekkert smá gaman og þá sérstaklega samt þegar þetta tekst ekki alveg og þú lendir inní henni.

Þá hrífur hún þig með sér, skellir þér í botninn (sem betur fer var þarna sandbotn) og allt hringsnýst og þú veist ekki hvenær þú kemst aftur upp á yfirborðið til að anda. Þvílíkt rush!!!! Lang skemmtilegast er þó þegar þú ert kominn nógu langt út til að grípa öldurnar. Maður flýtur og bíður eftir rétta augnablikinu og þegar maður sér eina góða þá byrjar maður að synda skriðsund á undan henni á réttu augnabliki og hún grípur þig og ber þig ofan á sér nánast alla leið upp á strönd ef vel tekst til. Þú þarft samt að synda eins og vitleysingur á meðan annars lendir þú inn í henni og eins og ég hef líst þá getur það orðið ansi strembið. Eftir nokkra klukkutíma af þessu er maður alveg búinn á limminu og farinn að fá krampa í kálfana. Þá er nú betra að hætta....í bili allavega.

Mælt er með body sörfing fyrir byrjendur sem vilja læra að sörfa á bretti þar sem þetta kennir þeim að höndla öldurnar og fá tilfinninguna fyrir þessu. Nú er ég þá allavega búinn að læra hvernig á að kafa undir þær og grípa þannig næsta skref er að fá sér svona lítið body board sem maður liggur bara á og fara að æfa mig með bretti.

Þetta var þó ekki það eina svona Ozzie sem ég gerði í gær. Ég fór líka út í New Farm park að æfa bjúgverpilskast, sem er boomerang fyrir þá sem ekki gátu þess til. Þetta gekk nú líka svona fínt, í fyrsta kasti náði þetta næstum því heilan hring. Það þaut framhjá tréi þarna og gerði nokkra páfagauka dauðskelkaða þannig þeir forðuðu sér hið snarasta. Það er nú líka upprunalegi tilgangurinn með boomeranginu sem kemur til baka, að hræða upp fugla og önnur dýr svo hægt sé að kasta í þau annarri tegund af boomerangi sem er stærra, þyngra og drepur.

En jæja það er best að koma sér að verki í verkefninu sem á að skila í dag, held að þetta náist nú ef ekki þá bara skila ég á morgun.



laugardagur, maí 08, 2004

Gúrkur!!!! Gúrkur eru dæmi um það sem er öðruvísi hér en heima á Íslandi. Gúrkur hér eru eiginlega óætar og hef ég prófað að kaupa gúrkur af mismunandi kaupmönnum og mismunandi stærðum og gerðum. Ekkert virðist samt skipta máli þar sem þær eru vel flestar súrar eða á einhvern annan hátt bragðvondar. Mín kenning er sú að það sé út af vatninu. Gúrkur eru jú 90% vatn og því hlýtur að vera einhver orsakatengsl milli gæða vatnsins, sem notað er til að rækta gúrkuna, og bragðsins. Hér er vatn yfirleitt ekki nærri því eins gott og það gerist heima á Íslandi ergo gúrkurnar eru miklu betri heima á Íslandi. Einhver myndi segja að það væri hálfgerð gúrkutíð í umræðum mínum hérna á blogginu. Ég blæs á það....pfffffffffuuuffffff!!!!!!.

Annars eru Jón og Rósa und die twillinger mætt aftur eftir skemmtilega ferð norður með sjó. Að sögn var þetta ævintýri líkast hjá þeim, kókóshneturog hvítir sandar. Þau snorkluðu í kristaltærum sjó, sáu skrautlega fiska og það sem meira er húkkuðu sér far með risaskjalbökum. Já ég hef farið að snorkla á Kúbu og það var alveg geggjaðslega skemmtilegt en að húkka sér far með risaskjaldböku er eitthvað sem ég hef ekki gert en nú er það sko komið á listann hjá mér. Annars fóru þau núna út áðan og kíktu í mollin svo ég geti nú komið einhverju í verk í lærdómnum, he he he og ég sem sit bara og blogga. Það er rigning núna, einn af fáum rigningardögum sem ég hef upplifað hérna, og því kjörið að kíkja í mollin. En mér finnst rigningin hérna góð, hún kemur beint niður, því það er logn, hún er heit, því maður er nú í subtropics og svo þarf ég ekki að horfa á eftir familíunni niður á strönd að sleikja sólina he he.

Annars er ég nú samt búinn að gera meira í dag en að hanga á netinu. Ég sótti um námsstyrk áðan (reyndar á netinu) en það er samt mun arðbærari vinna en að blogga (ef ég fæ styrkin það er að segja). Ég hef aldrei sótt um svona styrk áður en ég reyndi að láta þetta hljóma mjög gáfulega og sendi rosaflott CV með og læti. En það er eins með svona dót og lottó það er alltaf hinn gaurinn eða gellan sem vinnur. En ég fæ að vita í byrjun Júní hvort af verður og vonandi verður það á en ekki af.

Eitt að lokum, svona til umhugsunar.........hver er tilgangurinn með klósettpappír sem er með ilmefnum???????? Think about it.



miðvikudagur, maí 05, 2004

Það er merkilegt hvað það fer mikill tími í það sem kallað er daglegt líf eða það sem ég vil meina daglegt amstur. Ég ætlaði að reyna að vera mjög duglegur í dag að læra en hef ekki komið miklu í verk sökum þess að ég var að amstrast. Það byrjaði nú bara allt á því að netið var hægara en allt sem hægt er og grunaði mig að það væri kominn ormur í tölvuna. Til þess að ná kvikindinu út þurfti ég að fara á netið og ná í vírusvarnarforrit til að finna dýrið og eyða því en auðvitað var netið svo krappí að það tók klukkutíma og margar tilraunir. Það bar þó loks árangur og ormurinn var lagður að velli og netið tók vel við sér og stökk af stað eins og fílefld veðhlaupa trunta.

Eftir þessi netvandræði tók ég eftir því að íbúðin mín var í rúst, og þá sérstaklega eldhúsið, þannig ég tók mig til og þreif það og vaskaði hátt og lágt. Þegar ég var búinn að þrífa áttaði ég mig á að í öllum þrifunum þá hafði ég óvart hent rafmagnsreikningnum mínum og öskubíllinn nýbúinn að tæma tunnurnar. Jæja þá hringdi ég því í cústómer línu rafmagnsfyrirtækisins til að reyna að fá hann aftur sendan. Þar svaraði mér kvenmannsrödd en reyndist þó vera símsvari sem bauð mér að ýta á ýmsar tölur til að fá hitt og þetta og leiddi mann í gegnum ýmsa valmöguleika sem enduðu svo á því, eftir korters samtal, að ekkert átti við það sem ég var að leita að. Ég hringdi því bara í HQ og bað um afrit af reikningnum, nó próblemó it´s in the meil!!

Gangi ykkur vel í ykkar amstri kæru lesendur.



mánudagur, maí 03, 2004

Það er gaman að pæla í því hvernig hlutirnir eru öðruvísi hérna í Oz heldur en heima á Íslandi. Til dæmis er það þetta að þegar þér er skítkalt á puttunum og tánum hérna í Oz þá ferðu út að hlýja þér!!!.



sunnudagur, maí 02, 2004

Það er ekkert smá stress að vera húseigandi hérna í Queensland, sérstaklega ef það er týpískur Queenslander (hús sem eru aðallega úr tréi). Hér eru óteljandi skordýr sem vilja ólm éta ofan af þér kofann án þess að gera nokkuð gagnlegt fyrir þig í staðinn. Sá í gær hús sem var eiginlega óíbúðarhæft sökum termíta því þeir voru búnir að éta það allt að innan. Það sést ekki utan á timbrinu hvort að termítar séu í því en þegar þú svo tekur utan um það þá hrekkur það í sundur því termítarnir eru búnir að hola allan viðinn að innan. Pælið í stressi alltaf þegar þú sérð maur þá hoppar þú hæð þína af hræðslu við að hann sé að fara að hóa í félaga sína til að halda átveislu í veggjunum hjá þér. Kannski væri besta lausnin að flytja bara inn í húsið sitt svona apa sem éta þessi kvikindi?!?!

En að öðrum málum ég var að uppgötva algeran gullmola en það er hægt að nálgast Fréttablaðið á netinu í heilu lagi með pdf formati. Núna getur maður því bara lesið blaðið í rólegheitum á morgnanna áður en maður skellir sér í skólan. Alltaf gaman að lesa um það sem ríkisstjórnin er að bralla. Útlendingafrumvarpið svokallaða sem er nú soldið vafasamt og síðar en ekki síst hin nýju fjölmiðlalög sem sögð eru ekki standast stjórnaskrána. Sorglega fyndnust fundust mér samt ummæli formanns nefndarinnar sem fjallaði um eignarhald á fjölmiðlum en hann átti víst að hafa sagt að ef hann hafi einhvern tímann efast um lögmæti laga um eignarhald á fjölmiðlum þá efist hann ekki lengur eftir að hafa lesið grein um kosti sína og galla í DV. Pælið aðeins í þessum hugsunarhætti ef einhver segir eitthvað um þig sem þú ert ekki sáttur við þá setur þú lög á þá sem brjóta kannski í bága við stjórnarskrána. Og svo finnst mér þetta ennþá merkilegra þar sem þessi grein var í DV sem er yfirlýst sorprit sem enginn tekur mark á hvort sem er. Af hverju fer maðurinn þá bara ekki í mál við þá fyrir skrifin?



This page is powered by Blogger. Isn't yours?