<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, júní 28, 2004

Það er búið að vera nóg að gera síðustu dagana. Föstudagurinn var bara notaður í leti þar sem ég hafði það bara gott eftir prófin og naut þess að gera ekki neitt. Á laugardaginn kíkti ég svo út með krökkunum að horfa á Ástralska fótboltan (Rugby). Það var hörkuleikur í gangi Ástralía vs England og fórum við á eina krá, The Paddington ale house, hérna í Brisbane til að fylgjast með leiknum á risaskjá. Ég hafði nú bara jafn gaman að fylgjast með Áströlunum horfa á leikinn eins og að horfa á sjálfan leikinn. Kráin er rétt hjá leikvanginum þannig þegar leikurinn var búinn þá varð allt trofðfullt af hressum Áströlum að syngja og tralla enda rústuðu þeir pommunum (þeir kalla Englendinga pommies hérna). Ég var oftar en ekki spurðu að því hvort ég væri pommie, líklega út af rauðu hárinu og fölu litarhaftinu, en nei ég sagðist sko vera Íslendingur!! Fyndið að sjá undrunarsvipinn á fólkinu því það vissi ekki í hvorn fótinn það átti að stíga. En það var sem sagt skemmtun langt fram á nótt og nú er stefnan að fara næst á leikvanginn. Þetta er nefnilega nokkuð skemmtilegt sport að horfa á, stanslaust action allan tímann og þvílík slagsmál og læti.

Á sunnudaginn vaknaði ég frekar þunnur en hélt þó snemma áleiðis í grillveislu hjá öðrum hópi af fólki sem ég þekki hérna í Brisbane. Það var alveg ekta Aussie BBQ úti í garði með nóg af bjór (en bara til að laga þynnkuna) og ég kenndi þeim hvernig á að grilla gráðostafyllta sveppi (þó ekki sé það flókið) sem slógu þvílíkt í gegn. Gaman að geta kennt þessum grillmeisturum eitthvað allavega. Svo var bara setið úti í garði allan daginn og fram á kvöld og rabbað um Ástrali og Íslendinga. Ekki var ég nú með neinar gróusögur um okkur að þessu sinni heldur hélt mig nú við sannleikan.....kannski ýkti aðeins til að láta land og þjóð líta betur út.



föstudagur, júní 25, 2004

Þá er þessi próftörn búin og síðasta prófið gekk vel. Nú er bara að bíða og sjá hvað hefur komið út úr þessu. Það var auðvitað farið beint út á lífið eftir prófið og líka í gærkveldi. Ekki laust við að maður sé hálf þreyttur og því verður bara slappað af í dag og svo er spurning um að skella sér á ströndina um helgina.

En jæja það er best að fara að koma sér á fætur og njóta þess að vera í fríi :)



þriðjudagur, júní 22, 2004

Three down one to go! Þetta var prófið sem ég var búinn að kvíða mest fyrir enda lesefnið örugglega nokkur þúsund síður. En sem betur fer var þetta uppbyggt þannig að við fengum í hendurnar 40 spurningar fyrir prófið og af þeim voru átta sem komu á prófinu en maður þurfti að svara 4. Ég ákvað því að reyna að sortera úr þessum 40 líklegustu spurningarnar og sat uppi með 12 spurningar sem ég svona reyndi að setja mig betur inn í og punkta niður nokkur lykilatriði. Og viti menn það komu allavega 7 spurningar af þessum 12 þannig ég var bara í fínum málum og ætti því útkoman að vera ágæt :) Nú er bara síðasta prófið eftir á morgun og svo er maður frjáls!

Nú ætla ég aðeins að laga til í þessari svínastíu því ekki hefur verið mikið um þrif síðustu daga. Í próftíð á maður það til að láta sjálfan sig og sitt nánasta umhverfi fara í algert chaos. Það er víst náttúrulögmál þar sem óreiðan í alheiminum er sífellt að aukast og ekki getur maður farið gegn náttúrulögmálunum er það?



sunnudagur, júní 20, 2004

Ég hef verið blekktur, narraður með áróðri sem skólinn minn hérna hefur búið til. Hingað kom ég með því hugarfari að mér yrði aldrei kalt og í versta falli myndi hitastigið fara niður í 10 gráðurnar. Þetta er lygi!!! Hitastigið var 1 gráða þegar ég vaknaði klukkann sex í morgun. Það var minnst á það í fréttunum að ef fram heldur sem horfir þá gæti jafnvel snjóað ef aðstæðurnar eru réttar (en tekið var fram að það væru afskaplega litlar líkur). Hversu bókstaflega kaldhæðið væri það samt....Íslendingurinn sem flúði vetur á Íslandi til þess eins að lenda í snjó í Ástralíu. Já kaldhæðið en mér er ekki skemmt ég ætla að kaupa mér hitara núna, þó ekki væri nema til þess að koma í veg fyrir að það frjósi í klósettinu og það rústist. Á meðan hlægja áróðursmeistarar UQ að snilld sinni í vel upphituðum hýbýlum sínum og plotta hvernig eigi að selja eskimóum ísskápa.



laugardagur, júní 19, 2004

Jæja nú er allt á fullu hér í Brissie, Justin Timbelake og The Offspring eru að spila á sama tíma núna í þessum töluðu orðum. Það hlýtur að vera magnað stuð á Offspring tónleikunum, þeir eru undir berum himni hérna niðri í Botanical gardens og ég heyri vel í þeim hérna upp í New Farm. Hef bara opinn gluggann og hlusta, hlýtur að vera mögnuð stemning en ég get ekki leyft mér þann lúxus að kíkja því ég þarf að lesa smesa.



föstudagur, júní 18, 2004

Tvö próf búin og tvö eftir, þessi próftörn hálfnuð og minna en vika í frí......sweeet! En mér gekk bara ágætlega í prófinu en þetta var fag sem mér finnst mjög áhugavert og nefnist spatial analysis eða bara rýmisgreining eins og ég vil kalla það á íslensku. En í stuttu máli þá snýst það allt um að finna út mynstur í landfræðilegum gögnum og reyna að búa til líkön sem byggja á þeim. Þetta er eitthvað sem mér þykir mjög áhugavert....að pæla í hvernig hlutirnir virka og reyna að búa til líkön til að sjá hvort það sem maður er að pæla í virkar í raun og veru. Ég vona að þetta hafi komið vel út því samkvæmt prófi sem ég tók á netinu mér til dundurs, þá á þetta að vera eitthvað sem ég hef hæfileika fyrir.

Ég var sem sagt að lesa undir prófið fyrr í dag og var orðinn hálfstressaður þannig ég tók mér pásu. Ég datt inn á þetta gáfnapróf á netinu. Ég var nú forvitinn þar sem ég hef nú aldrei tekið svona próf áður og ákvað að gera þetta í staðinn fyrir að læra. Ég veit ekki hversu nákvæmt þetta netpróf er en samkvæmt því er ég sem betur fer ekki svo vitlaus eftir allt saman. Það sem mér fannst hins vegar skemmtilegast var kommentið sem fylgdi með einkuninni:

"Your Intellectual Type is Visual Mathematician. This means you are good at spotting patterns — both in pictures and in numbers. These talents make you good at understanding the big picture".

Kannski er þetta bara frat en mér finnst þetta merkilegt því hvað er ég að gera annað en að greina mynstur, bæði í kortum og i tölum t.d. gervitunglamyndum. Og svo man ég alltaf hvað okkur var kennt um að sjónarhorn landfræðinnar væri "the big picture". Það er allavega gott að vita að maður er á réttri braut.

Hins vegar má einnig líta þannig á að þar sem ég er búinn að læra mikið um mynstur og að túlka þau nú þegar hvort prófið hafi bara ekki sýnt það sem ég er orðinn þjálfaður í nú þegar. Það er spurning.

En ert þú á réttri braut? Taktu prófið að gamni til að komast að því!


Það er spurning?
Posted by Hello>



miðvikudagur, júní 16, 2004

Gleðilegan þjóðhátíðar dag!!!! Hei hó og jíbbí jei, jíbbí og jei það er kominn 17. júní! Þessum þjóðhátíðardegi verður eytt í próflestur og svo kannski kíkir maður út á íslenska kaffihúsið hérna í New Farm með Íslendingunum sem eiga heima hérna upp í Sydney street. Að því tilefni hef ég sett upp enn aðra fánamynd og ég vona að fólk lesi nú ekki út úr henni neitt annað en að ég sé bara Íslendingur.


Skjótum upp fána.
Posted by Hello



þriðjudagur, júní 15, 2004

Það er greinilega alveg gríðarlega góð þátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslunni skv kommentunum á síðasta bloggi. En ég vil benda þátttakendum á það að samkvæmt stjórnarskránni á hún að vera leynileg þannig í raun ættuð þið ekki að skrifa nafnið ykkar undir.....en í það er svo sem í lagi mín vegna og endilega látið í ykkur heyra.

Svona bloggsíður eru nokkuð skemmtilegar, þetta eru svona eins og börnin manns eða allavega skemmtilegt gæludýr. Þetta vex, dafnar og breytist allt eftir þínu höfði en ég var sem sagt að bæta enn einum fítusnum hérna inn. Nú er ég kominn með veðrið inn á síðuna. Að hafa veðrið inni á bloggsíðunni er gott því ef manni skortir umræðuefni þá má alltaf tala um veðrið.

Svo setti ég inn fánamynd handa honum Reyni Pétri.


Aussie Aussie Aussie !!!
Posted by Hello



Jæja þá er fyrsta próf mitt í University of Queensland að baki og gekk það bara svona ágætlega. Ég annað hvort brilleraði í þessu prófi og fékk andagiftina yfir mig þar sem ég gerði hluti sem ég vissi ekki að ég kunni....eða ég kolféll þar sem stundarbrjálæði greip mig og ég krotaði bara niður einvherja vitleysu á blaðið.

Nú eru sem sagt bara 3 próf eftir og vonandi gengur það eins ágætlega og í dag. Annars hef ég ekkert meira að segja nema það að mig langaði að sýna ykkur út um gluggann minn á morgnanna.


BRRR Kalt!!!
Posted by Hello


Svo er ég hættur þessu myndadóti í bili. Bara gaman að leika sér með nýja hluti eins og alltaf.



sunnudagur, júní 13, 2004

Jæja þá er próftíðin formlega hafin og fyrsta prófið framundan á þriðjudaginn. Mér hefur alltaf líkað ágætlega við próftíð. Þetta er svo sem ekkert flókinn tími. Maður situr og les og les og les, borðar, les, sefur, les, borðar, les, sefur og já ,eins og marga er farið að gruna, les aðeins meira. Þetta er ágæt tilbreyting frá því að vera að standa í eilífri verkefnavinnu og að sitja í skólanum og hlusta á misáhugaverða fyrirlestra.

Reyndar getur fylgt þessu smá stress en ég hef alltaf litið svo á að það þýðir lítið að stressa sig yfir þessu. Annað hvort kanntu þetta eða ekki og það er ekki nægur tími til þess að gera neitt við því ef þú kannt þetta ekki. Getur í mesta lagi hresst upp á það sem þú kannt nú þegar og því má segja að það sé bara formsatriði að klára prófið, einkuninn er að mestu ráðinn. Þessu eru eflaust einhverjir ósammála og segjast ekki hafa kunnað neitt fyrir próftíðina en lært allt nokkrum dögum fyrir próf. Annars held ég að það sé undantekning frá reglunni.

Próftíðin snýst um að rifja upp hluti og þá er við hæfi að staldra við og líta um öxl á farinn veg. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að ég sé nú að klára 1/3 af náminu og búinn að vera hérna í OZ í 4 mánuði upp á dag í dag. Tíminn líður hratt þegar nóg er að gera og gaman er að hlutunum. Þetta er búin að vera skemmtilegur tími, lærdómsríkur en krefjandi. Það er ekki laust við að hægt sé að segja að þessi reynsla hafi breytt manni á margan hátt og til gamans bjó ég til þessa samanburðarmynd þar sem má sjá helstu ytri breytingarnar allavega. Ætli það sé ekki mest hárvöxturinn sem er eftirtektaverðastur og já það gæti blekkt suma að á myndinni frá 13. febrúar er ég með gleraugu en ekki hinni.



13. februar VS 13. juni
Posted by Hello



þriðjudagur, júní 08, 2004

Ég hef verið að leita að leiðum til að birta eina og eina mynd hérna á bloggsíðunni og svo virðist sem ég hafi uppgötvað ágæta lausn við fyrstu sýn. Svokallaðan bloggbot.


Bara að prófa nýja myndaþjónustu frá blogger.
Posted by Hello



sunnudagur, júní 06, 2004

"Everything is related to everything else, but near things are more related than distant things" - Waldo Tobler. Svo hljóðar hið svokallaða Fyrsta lögmál landfræðinnar. Þetta er mjög gott að vita sérstaklega þegar þú ert að pæla í kvonfangi og vilt ekki að börnin ykkar verði eitthvað skrítin. Þetta er víst lítt þekkt lögmál í afskekktum fjallahéruðum Pennsylvaniu þar sem fólk pælir lítt í skyldleika, skemmtir sér við að spila á banjó og taka vel á móti ferðalöngum sem leggja leið sína um svæðið á kajökum.

Ekki það að ég sé að gefa í skyn að ég hafi farið til Ástralíu til að leita mér að óskyldu kvonfangi.



föstudagur, júní 04, 2004

Loksins loksins búinn með öll verkefni á þessu misseri og það er alltaf jafn góð tilfinning. Nú er ég frjáls frjáls alveg þangað til á morgun þegar ég þarf að fara að lesa fyrir próf :) Já það verður lítil hvíld næstu þrjár vikurnar enda nóg efni sem þarf að fara yfir, læra formúlur, skilja skrítin hugtök og setja þetta svo allt í gott samhengi til þess að fá góðar einkunnir svo maður fái nú draumadjobbið einhvern daginn. Hérna eru einkunnirnar samt soldið öðruvísi en heima því hæsta einkunn sem gefin er er 7. Ég veit nú ekki alveg af hverju það er en þetta er bara enn eitt sem er skrítið og öðruvísi hérna í Oz.



miðvikudagur, júní 02, 2004

Ég verð að segja það að ég er stoltur af forsetanum okkar í fyrsta sinn í langan tíma. Ferfalt húrra fyrir lýðræðinu!

Húrra! Húrra! Húrra! Húrraaaaaa!!!!!!



This page is powered by Blogger. Isn't yours?