<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, júlí 30, 2004

Verslunarmannahelgin eða á ensku "The shoppingsman´s weekend". Í Ástralíu hefur þessi helgi enga meiningu, ekkert frí, engar útihátíðir. Ég var næstum sjálfur búinn að gleyma að þessi helgi væri til ef það hefði ekki verið fyrir að allir fóru að segja frá ferðaplönum sínum á bloggsíðum eða í samtölum á netinu.

Eitthvað skilst mér að veðrið sé slæmt eins og gengur og gerist með verslunarmannahelgar, sérstaklega í eyjum og liggur við að það fari að skapast hefð fyrir regnblautum þjóðhátíðargestum líkt og á hinum eina sanna þjóðhátíðardegi 17. júní.

Annars fer nú að styttast í það að ég flytji héðan úr New Farm, en það gerist 26. ágúst. Búinn að vera að skoða íbúðir í nágrenni UQ, í St Lucia, Toowong, Taringa og tungubrjótinum Indooroopilly. Hef komið auga á nokkrar góðar en ekki er víst að þær verði lausar þegar á þarf að halda. En svona áður en ég flyt þá verð ég að setja inn mynd dagsins úr New Farm Park. Garðurinn er einn sá besti í Brisbane og það hefur verið flott að geta farið með námsbækurnar (eða boomerangið) og tjillað í garðinum.


New Farm Park.
Posted by Hello



fimmtudagur, júlí 29, 2004

Hef eiginlega ekki neitt að segja í dag, fór reyndar út í garð í dag og æfði mig að kasta boomeranginu mínu. Þetta er allt að koma en það er ekki alveg samt að nást að grípa það aftur, það drífur ekki alla leið aftur til mín. Ef ég á að grípa það þá þarf ég að hlaupa á móti því. Þetta kemur samt með tímanum og svo er mikilvægt að taka vindáttina með í reikninginn.

Annars langaði mig að birta aðra mynd frá Fraser Island, ég er enn að vinna í myndasíðunni. Að þessu sinni er það alger andstæðan við regnskógana sem ræður ríkjum, sandurinn. Enginn gróður ekkert vatn bara sandur.


In the desert you can´t remember your name.
Posted by Hello



miðvikudagur, júlí 28, 2004

Skólinn byrjaði á mánudaginn. Ég er eiginlega í hálfgerðu sjokki ennþá því að þessi fyrsta vika er ekkert grín. Eftir cirka 5 mín af kynningum þá var bara hoppað út í djúpu laugina og byrjað á fullu. Og vá, ég hélt að það hefði verið mikið að gera á fyrsta misserinu en þetta lítur enn hrikalegar út :) Við sjáum samt til ég þarf bara að skipuleggja tímann vel og ekki eyða honum í einhverja vitleysu, eins og að blogga og setja myndir á netið. Nei nei bara grín auðvitað held ég því áfram.

Stundataflan er nú ekkert rosagóð en það eru góðir og slæmir punktar. Skóli á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum frá 4-10, já 10 á kvöldin, og svo fjórar helgar á misserinu þar sem er kennt á laugardögum og sunnudögum frá 9-5. Það verður því ekki mikið um ferðalög á þessu misseri hjá mér. Ekki þá nema niður á Gold Coast eða sunshine coast.

Það var búið að plana aðra útilegu til Fraser Island 8-9 ágúst næsta en þá þurfti það einmitt að vera kennsluhelgi hjá mér þannig það verður ekkert úr því. Ég verð því bara að skoða myndirnar mínar frá Fraser í staðinn.


Rainforest on Fraser Island.
Posted by Hello



mánudagur, júlí 26, 2004

Shit hvað er í gangi með fontinn?? Bara hlussustafir hérna á blogginu?!? Hvaða hvaða, bara verið að leggja mann í einelti hérna.



laugardagur, júlí 24, 2004

Búinn að vera rólegur dagur í dag, bara slappað af og horft á vídeó og borðað góðan mat. Kveðjupartí þjóðverjanna var tekið með stæl en þeir buðu mér að kíkja í heimsókn þegar ég á næst leið um sunnanverð héruð Bayern. Hver veit kannski stoppar maður í viku á leið heim til Íslands.

Í gær var svo útskrift hjá vinkonum mínum Becky og Liz. Var þetta fyrsta útskriftin sem ég er viðstaddur hérna í UQ, skulum vona ekki sú síðasta samt, og er það sama sagan eins og allstaðar. Þetta hlýtur að vera eitthvað það leiðinlegasta sem maður getur gert. Leiðinlegar ræður, upptalningar, meiri ræður o.s.frv. Af hverju fá þeir ekki einhvern eins og Billy Crystal til þess að stjórna þessu. Skella inn nokkrum bröndurum á milli afhendinga.

En það mátti þó skemmta sér yfir þessum furðulegu búningum sem allir þurfa að klæðast og sér í lagi þeir sem eru að útskrifast með doktorsgráðu. Lítur út fyrir að þeir hafi stigið um borð í bátinn í London einhvern tímann árið 1800 og hafi bara verið að stíga á land, eitthvað tafist á leiðinni. Ég verð nú samt að ganga í gegnum þetta sjálfur eftir cirka eitt ár, gott að mastersnemar klæðast þessum hefðbundnu húfum og bláu, sem fer mér ágætlega.

Eftir útskrift var svo auðvitað farið á djammið ;)


Happy graduation Becky and Liz!
Posted by Hello



fimmtudagur, júlí 22, 2004

Þvílíkt leti leti.... letilíf sem ég hef verið að lifa núna síðustu daga.  Dagarnir líða þannig að ég sef til hádegis og kíki svo í heimsókn til vina minna í St Lucia þar sem við hlustum á tónlist, spjöllum, fáum okkur vínglas nú eða horfum á vini langt fram eftir.  Á þriðjudaginn var hins vegar smá partí eða BBQ hjá þjóðverjunum eins og ég hafði minnst á en í kvöld er svo þeirra síðasta djamm í Brisbane og á ég von á að það verði tekið vel á því.   Á morgun eru svo tvær vinkonur mínar að útskrifast og þá verður líka partí.  Sem sagt ljúft ljúft líf.

Ég læt svo flakka með hérna eina enn mynd frá North Stradbroke eftir að hafa fengið svo góða dóma fyrir síðustu mynd. Þessi er ekki alveg eins góð en mér líkar hún.

 


Sunset at North Stradbroke island.
Posted by Hello





sunnudagur, júlí 18, 2004

Ég er mættur aftur heim nokkrum dögum á undan áætlun...ástæðan...veðrið. Þegar ég kom til Moreton Island í gær var alveg þetta fínasta veður, sól logn og blár himinn. Þegar fór að nálgast eftirmiðdaginn hrúguðust upp svört ljót ský og vind tók að auka. Því var farið til yfirvalda á svæðinu sem tjáðu okkur að ráðlegast væri að hætta við útileguna þar sem von væri á stormi næstu daga með miklum vindi og rigningu. Og viti menn um leið og við stigum upp í ferjuna þá byrjaði líka þetta hrikalega þrumuveður.

Ég náði nú samt alveg ágætum degi, fór að snorkla í kringum nokkur skipsflök sem sökkt hefur verið þarna bæði til þess að verja ströndina og til að auka fjölbreyttni sjávarlífsins. Þarna mátti sjá hundruðir fiska í öllum regnbogans litum og sumir ansi furðulegir. Það var samt einn galli á gjöf njarðar en sá var að ég vanmat aðeins hitastig sjávarins he he. Þannig var að ég var ekkert að eyða nokkrum auka dollurum í það að leigja blautbúning heldur bara sundfitin, grímuna og öndunarpípuna. Gaurinn sagði líka við mig "So You´re just gonna tough it!!". Auðvitað sagði ég enda hélt ég að það væri nú lítið mál. En eftir cirka 45 mín þá var ég nú orðinn soldið kaldur. Þá fór ég bara í land og lét sólina baka mig þangað til hitinn var kominn aftur í kroppinn.

Annars hitti ég félaga minn úr UQ þarna, en hann var búinn að vera í 5 daga á resortinu Tangalooma beach. Við eyddum því bara restinni af deginum í ýmislegt sem þar var í boði m.a. billiard og bogfimi. Já undur og stórmerki þetta var í fyrsta sinn sem ég Bogi hef skotið af boga. Mér gekk líka svona merkilega vel, bara natural í sportinu, tengist kannski nafninu... ég veit ekki.

Fleira er svo sem ekki á döfinni í fríinu að sinni nema kannski kíki ég í stutta dagsferð norður til Noosa en þar er þjóðgarður sem mér hefur verið sagt að sé vert að kíkja í göngutúr um. Við sjáum til annars þarf ég að fara huga að stundatöflum, skólabókum og fleiru. En ég læt hér flakka mynd af einu af mörgum sokknu skipum sem ég snorklaði í kringum á Moreton en þau eru stödd nærri resortinu Tangalooma og kallast því The Tangalooma wrecks eða bara the wrecks í daglegu tali.


The Tangalooma wrecks.
Posted by Hello





föstudagur, júlí 16, 2004

Það er eitt frábært við Ástralíu og það er að það er enginn skortur á mögnuðum stöðum hérna. Hver staðurinn á eftir öðrum er alveg picture perfect. Þannig var það á North Stradbroke Island í gær. Ég skrapp í stutta útilegu til eyjunnar, sem er sandeyja líkt og Fraser, og var tjaldað á Cylinder Beach aðeins 5m frá ströndinni. Dagurinn var tekinn mjög snemma og haldið með lest til Cleveland þar sem ferja var tekinn til eyjunnar og svo strætó til þorpsins Point lookout þar sem tjaldstæðið var. Dagurinn fór svo í göngu meðfram ströndinni og það var þannig að þegar maður hélt að mynd dagsins hefði náðst á filmu þá kom maður að enn fallegri stað, alveg magnað.

Um kvöldið var síðan bara tjillað á ströndinni þar sem maður sat og sötraði bjór og horfði á stjörnurnar og hrikalega flottar eldingar og þrumuveður úti fyrir sjóndeildarhringnum. Eftir að hafa spottað gervihnetti, vetrarbrautir, stjörnuhröp og fleira lagðist maður svo til svefns þar sem öldugangurinn söng mann í svefn.

Seinni dagurinn var hins vegar ekki eins og best var á kosið. Um nóttina byrjaði þessi líka þvílíka rigning, algert úrhelli en sem betur fer hélt K-MART (ísl Rúmfatalegrinn :) tjaldið vatni en bíða þurfti nokkra stund þangað til hlé gerði á úrhellinu til að taka saman rennblautt tjaldið en það hafðist. Ég náði þó að sjá það helsta þar sem dagurinn í gær nýttist mun betur og sólin skein í heiði. Ég kom því í fyrri kantinum heim til Brisbane í dag.

Ég hef ekki enn fengið svar frá vitleysingunum í imagestation en fór samt inn og tók út nokkrar myndir sem ég held að gætu hafa farið í taugarnar á þeim. Hins vegar gæti farið svo að það sé ekki nóg og þá verður bara lokað endanlega á reikninginn minn. Ég ætla því ekki að setja inn nýjar myndir frá Stradbroke strax heldur bíða og sjá. Annars flyt ég bara myndasíðuna mína á stað þar sem ég fæ að vera í friði og þjónustan er betri, takk fyrir ábendinguna Alli kíki á þetta.

Læt samt flakka eina mynd hérna á bloggsíðuna bara svona til gamans.

Á morgun er það svo Moreton Island.



Cylinder Beach.
Posted by Hello



miðvikudagur, júlí 14, 2004

Ég, litli maðurinn, ætla að gleyma deilum mínum við corporate america í smá stund og skella mér í aðra útilegu. Reyndar tvær í röð. Ég fer eldsnemma í fyrramálið til North Stradbroke Island og gisti þar eina nótt. Kem aftur heim á föstudaginn stuttlega aðeins til að sofa og skella mér svo aftur eldsnemma á laugardagsmorgni í aðra útilegu til Moreton Island og þar verður gist í 3 nætur. Mun þetta tímabil héðan í frá vera kallað Biggi Bix´s Island adventure þar sem ég mun hafa tekið allar helstu eyjar hérna í kringum Brisbane og skoðað.

Hvað verður um myndir veit ég ekki, ég á eftir að tala við lögfræðinginn minn.



Jæja ég er formlega kominn í stríð við SONY imagestation. Það er sem sagt búið að loka myndasíðureikningnum mínum þar sem þeir segja að það sé tvennt sem sé að. Í fyrsta lagi er í albúmunum ósæmilegt innhald sem fer eitthvað fyrir brjóstið á þessum háu herrum og í öðru lagi þá gæti verið búið að linka af einhverri annarri vefsíðu beint inn á einhverja mynd í einhverju albúmi (það má víst ekki bara linka á albúmin).

Þeir sögðu til útskýringar að ég þyrfti að laga albúmin en gáfu ekki frekari skýringar á því heldur þuldu upp úr notendasamningi að efni mætti ekki vera fordómafullt, enga nekt eða bla bla bla bla. Ég skrifaði því á móti að ég gæti ekki séð neitt athugavert við efnið á síðunni minni og væri bara með link á heimasíðunni minni á albúmin.

Fékk svar áðan.....sama sagan við getum ekki sagt þér hvaða myndir um ræðir en eyddu þeim myndum sem þú ert í vafa um annars eyðum við ÖLLUM myndum af svæðinu þínu. Hvað í fjan***** þar sem ég hef ekki hugmynd um hvaða myndir þeir eru að tala um þá get ég alveg eins eytt þeim öllum hvort sem er!!! Ég sendi þeim því á móti harðort bréf þar sem ég gagnrýndi þeirra ofsóknir og heimska policy og krafðist þess einu sinni enn að fá nákvæmari útskýringar á þessum blessaða skrípaleik.

En ég vil biðja ykkur sem hafið skoðað myndirnar mína að athuga hvort þið hafið nokkuð óvart eða viljandi linkað á einhverja einstaka mynd eða sett link í favorites að fjarlægja þann link. Takk :)

Kv, Biggi Bix í stríðsham



Somewhere Outside of New York.
Posted by Hello



þriðjudagur, júlí 13, 2004

Svo virðist vera sem búið sé að aftengja myndasíðu reikninginn minn af einhverjum ástæðum og er ég að leita frekari skýringa á því. Vonandi tekst mér að koma þessu aftur í lag sem fyrst svo hægt sé að skoða myndirnar.



mánudagur, júlí 12, 2004

Ég er mættur aftur heim í siðmenninguna eftir þrælskemmtilega ævintýraferð. Af því tilefni ætla ég að henda inn hérna einni lítilli ferðasögu.

Ég vaknaði kl 4:40 á laugardagsmorgun til þess að koma mér niður í Brisbane transit center þar sem átti að leggja af stað til Fraser Island kl 6:40. Þar hitti ég tour guideinn og bílstjórann Spike ásamt restinni af hópnum alls 8 manns þar með talinn ég. Mest allt bretar, tveir strákar og stelpa frá Jórvíkurskíri (töluðu nánast óskiljanlega ensku) og svo þrjár mæðgur frá Lundúnum og að lokum ég og Shawn sem voru þeir einu frá UQ. Faratækið var gamall Toyota land cruiser, 4WD, sem hafði verið breytt í minibus og fór bara ágætlega um mann. Spike var líka alveg eðal því ef hann hættir í fararstjóra bransanum þá gæti hann unnið fyrir sér sem stand up comedian en alla leiðinina reitti hann af sér brandarana ásamt fróðlegum upplýsingum um Fraser Island og það sem fyrir augu bar.

Frá Brisbane til Fraser Island eru u.þ.b. 350 km, í raun Norður til bæjar sem kallast Noosa því þar þarf að taka pramma yfir sundið til Fraser Island. Á Fraser Island er nauðsynlegt að hafa 4WD því eyjan er öll úr sandi og engir almennilegir vegir heldur bara einbreiðir slóðar. Reyndar er ein hraðbraut þar, opin þegar fjara er, en það er ströndin og þar þeysa jepparnir fram og til baka á þéttum sandinum þegar fjarar út, magnað. Við fengum reyndar forsmekkinn af slíku á leiðinni til Noosa en þá keyrðum við eftir strönd sem heitir Rainbow beach. Þar stoppuðum við hjá skipsflakinu Maheno en því miður er það orðið það lélegt að það var orðið hættulegt fyrir gesti og því var búið að rífa stórann hluta þess niður og því eiginlega bara ein stór járnhrúga eftir. Áfram var svo haldið upp til Noosa þar sem prammi flutti okkur yfir mjótt sund sem skilur að eyjuna og meginlandið og svo aftur brunað upp eftir ströndinni.

Haldið var til tjaldsstæðisins Dilli Village, en þar bjuggu flestir skógarhöggsmennirnir sem unnu hérna þegar skógarhögg var stundað. Eyjan er nú alfriðuð og því búið að breyta þorpinu í tjaldstæði og svo svefnskála fyrir ferðalanga. Allt svæðið er girt til þess að halda Dingó hundunum frá þar sem þeir geta verið hættulegir, sérstaklega ef börn eru í kring, og ef þeir finna matarlykt. Þá eiga þeir það til að ráðast á tjöld og rífa þau niður ef þeir finna matarlykt úr þeim. Eftir að hafa tjaldað héldum við áfram upp til Eurong Beach. Það er svona resort með allri helstu þjónustu og gistingu fyrir ferðalangam, bakarí, matvörubúð og jafnvel bar. Þar var tekinn stutt pása og áfram haldið og í þetta sinn yfirgáfum við ströndina og héldum inn á eyjuna. Þessir slóðar þarna eru rosalegir bara úr sandi og þegar þurrt er, eins og núna, verður sandurinn alveg rosalega erfiður yfirferðar og það kom nokkrum sinnum fyrir að við þurftum öll að fara út að ýta þegar kagginn festist he he. En þetta er nú einu sinni ævintýraferð og þannig það var nú bara smá bónus. En við komust alltaf áfram og að þessu sinni héldum við til lake Wabby. Það er nóg ferskvatn á eyjunni og mörg vötn sem sitja í lægðum og dældum innan um sandöldurnar. Það er samt ótrúlega mikill gróður sem þrífst þarna enda þykkt lag af næringarefnum ofan á sandinum sem hefur myndast gegnum þúsindir ára. Við gengum 2 km að lake Wabby og á tímabili hélt maður að maður væri í miðri eyðimörkinni þar sem risastórar sandöldurnar ná stundum að blása yfir eyjuna og þar er enginn gróður.

Lake Wabby var magnað, kristaltært, hvítur sandur öðrumegin og grænn skógurinn í kring. Auðvitað skellti maður sér til sunds en þar sem það er vetur þá var vatnið alls ekki heitt, frekar ískalt en maður gat nú ekki látið það spyrjast að vera frá Íslandi og ekki þola smá kulda! Það var bara verst þegar maður var kominn upp í klofdýft he he og svo þegar maður fór upp fyrir axlir. Eftir smá stund þá var maður orðinn hvort sem er svo dofinn að maður fann ekkert fyrir þessu heldur tók baksundið í rólegheitum. Manni hlýnaði nú samt fljótt þegar maður kom upp úr og lét sólina baka sig þar sem maður lá í hvítum sandinum. Eftir sundið var farinn smá bíltúr og svo haldið aftur í resortið þar sem nokkrir öllarar voru teygaðir á barnum og svo farið í kvöldmatar buffet á hótelinu. Svo var haldið aftur niður ströndina í kolniðamyrkri en við stoppuðum á leiðinni til þess að kíkja aðeins á stjörnurnar. Þar sem engin ljósmengun var þá sá maður þúsundir af daufum stjörnum sem maður annars sér ekki í borginni. Í sjónum voru líka sjálflýsandi þörungar sem lýsa þegar við þeim er hreyft, ég hafði reyndar séð svoleiðis áður þegar ég fór til Kúbu en þetta var samt frábært. Þegar á tjaldstæðið var komið var búinn til varðeldur og þar sátum við langt fram eftir nóttu og Spike sagði brandara. Við vorum að því er virtist ein á tjaldstæðinu en það var bara nokkuð gaman, jafnvel þó enginn hefði verið gítarinn. Bara höfðum gaman að því að skiptast á sögum og hlusta á grínið.

Daginn eftir var pakkað saman og haldið áfram en að þessu sinni héldum við inn í miðja eyjunna þar sem stór svæði eru þakin regnskógi, eitt af fáum þekktum svæðum þar sem regnskógur þrífst í sandi. Ég hafði aldrei komið í regnskóg áður og það var magnað. Dimmt og rakt og í loftinu liggur sterk lykt, gróðurlykt og einnig soldið þrúgandi myglulykt svona eins og í tjaldi sem hefur verið pakkað blautu og geymt. En nóg er af lífi, þúsundir fuglategunda, trjátegunda og ekki má gleyma blessuðum skordýrunum. Eftir gönguferðina var tekinn hádegismatur og svo haldið áfram og fleiri vötn skoðuð þar sem aftur var skellt sér til sunds og slappað af. Svo var haldið heim á leið og vorum við komin til Brisbane um 20:00.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili heldur leyfa þeim sem áhuga hafa að skoða MYNDIR sem ég er búinn að setja inn í myndasafnið. Góða skemmtun.


Fraser Island.
Posted by Hello



föstudagur, júlí 09, 2004

Hann er gengin aftur eða réttar sagt farin að ganga aftur......skólaus á annarri. Égg er að tala um engan annann en "The man with one shoe!!" Að þessu sinni náðist hann á mynd. Ég þurfti að koma mér vel fyrir í pálmunum undir feluklæðum til að ná þessari einstæðu mynd þar sem maðurinn er með eindæmum kvikur og styggur. En það hafðist með þolinmæði og þrautseigju og sönnunin liggur fyrir.


The man with one shoe
Posted by Hello


Annars gerði ég nú mest lítið í dag annað en að versla ýmsan smávarning fyrir ferðalagið á morgun til Fraser Island. Vonandi verður eitthvað hresst lið með þarna í för annars þekki ég bara einn annan sem er að fara, kanadamanninn Shawn. Tek allavega með mér smá gleðivökva til að drekka yfir varðeldinum annað kvöld og vonandi verður gítar á svæðinu. Skál!



miðvikudagur, júlí 07, 2004

Í dag er mikil spenna í loftinu hér í Queensland þar sem úrslitaleikurinn í "The state of origin" keppninni er í kvöld. State of orgin er hlutgerving á þeim ríg sem er á milli hinna tveggja miklu fylkja New South Wales og Queensland. Í liðin eru valdir þeir bestu úr hinum ýmsu rugby liðum úr hverju fylki fyrir sig og svo er spilað upp á hverjir eru bestir. Að þessu sinni er staðan jöfn 1-1 og því hreinn úrslitaleikur í kvöld sem snýst um virðingu og titilinn state of origin eða sem sagt hið upprunalega fylki. Queensland á undir högg að sækja þar sem leikurinn er háður í Sydney að þessu sinni en ég ætla að kíkja út í kvöld á pöbbinn og fylgjast með á stórum skjá.

Þar verður drukkinn bjór og hrópað "go moroons!!!" en Quennsland spilar í vínrauðu á meðan New South Wales spilar í bláu og eru "Blues".



sunnudagur, júlí 04, 2004

Enn einn dagurinn sem fer bara í að slæpast og skoða sig um í Brisbane. Að þessu sinni rölti ég um hverfið Hawthorne og rakst þar á líka þetta flotta ljósmyndagallerí. Til sýnis voru hefðbundnar ljósmyndir frá Ástralíu vítt og breytt en svo var líka mjög áhugaverð og skemmtileg sýning af röntgenmyndum af hinu og þessu. Fann líka ódýrt bíó sem er kostur því næsta bíó er í CBD-inu og kostar heila 10$ (500 kr), Þetta aftur á móti kostar aðeins 5$ fyrir stúdenta ;). En ég fann nú líka alveg heila helling af veitingstöðum og kaffihúsum. Þetta var í fyrsta sinn sem ég hef tekið ferjuna lengra en New Farm park.

Ég kíkti svo líka á kaffihús hérna í hverfinu og hitti þau Davíð og Marin en þau eru að flytja heim aftur til Íslands á morgun. Ég óska þeim bara góðrar ferðar og alls hins besta á Fróni. Það hlýtur nú samt að verða mjög skrítið eftir að hafa búið hérna í 3 ár. Hitamismunur, birtumismunur, verðmunur o.fl. o.fl. sem þau eiga eftir að þurfa að ganga í gegnum....good luck guys :)

En annars ætla ég að skilja við ykkur með smá pælingu sem ég fékk á röltinu í dag ............. er ástin ekkert annað en blindgata?


Er ástin blindgata?
Posted by Hello


Í Brisbane virðist allavega svo vera...... góðar stundir :)



laugardagur, júlí 03, 2004

Niðurstöðurnar úr prófunum eru komnar í hús, þetta er annað heldur en í HÍ þar sem maður þurfti að bíða eftir einkunnum langt fram á vetur liggur við.

Mér gekk líka bara svona frábærlega vel, ekki gengið eins vel í prófum síðan í grunnskóla :). Það fyndnasta var að þau tvö próf sem ég var smeykastur við....mér gekk langbest í þeim!!! Ég er himinlifandi yfir þessu og ætla bara að reyna að ná sama árangri á næsta misseri líka. Þetta var hrikalega mikil vinna að baki þessu skal ég segja ykkur en nú veit ég betur hvernig standardinn er þannig kannski get ég hagað vinnunni betur eftir því. Ætli ég hafi ekki farið soldið overboard hérna á síðasta misseri þar sem ég vissi ekki í raun alveg hvað mikla vinnu ég þyrfti að leggja í þetta.

Í dag ætla ég svo að kíkja í kaffi með Finn og Marge og heyra af þeim fregnir enda ekkert hitt þau síðan fyrir próf. Svo ætla ég aðeins að laga til, kíkja út og kaupa svefnpoka og tjald og svona ýmislegt dót fyrir útilegurnar.



föstudagur, júlí 02, 2004

Það var alveg glæsilegt veður í dag, reyndar eiginlega alltaf gott veður á daginn, og það var fínt útsýni yfir borgina. Ég skellti því inn þessari mynd sem var tekinn ofan af Mt Coo-tha lookout point.


Brisbane fra Mt Coo-tha
Posted by Hello



Síðasta vika er búin að vera mjög góð. Ég fór á þriðjudaginn í heljarinnar gönguferð um borgina en þá gekk ég heiman frá mér niður í bæ og keypti mér nýja göngu/strigaskó á spottprís. Fyrst ég var búinn að kaupa þá ákvað ég nú bara að prófa þá þannig ég gekk áfram yfir á South Bank þar sem ég kíkti inn í Queensland museum en þar var sýning á risaeðlubeinum ásamt helling af fróðleik um Queensland. Ég hafði aldrei séð risaeðlubein up close and personal áður (bara horft á jurassic park eins og flestir) en þetta var alveg magnað. Margar af þessum skepnum voru massífar og sumar með tennur á stærð við banana, ekki gott að lenda í kjaftinum á þeim.

Eftir að hafa eytt örugglea góðum 3 tímum þar þá hélt ég áfram í gegnum South Bank og aftur heim en þessi smá hringur hefur líklega verið 15 km langur. Á miðvikudaginn kíkti ég í heimsókn til nokkra félaga minna hérna í UQ og við horfðum á ræmuna windtalkers með Nick Cage, ágæt mynd svo sem, með nóg af World War 2 action. Um kvöldið fórum við svo út á lífið niðrí downtown með tilheyrandi stemningu.

Í gær fór ég svo aftur á röltið og kíkti hérna upp til Bulimba sem er hverfi rétt hjá mér hinu megin við ána og svo í partí um kvöldið til Þjóðverjanna. Þar var planað að fara í útilegu til Fraser Island um þar næstu helgi og svo aðra útilegu á Moreton Island þann 17 júlí sem sagt nóg að gera framundan.

Í dag er ég svo á leiðinni með nokkrum krökkum upp á Mt Coo-tha lookout þar sem ætlunin er að skoða sig aðeins um njóta útsýnisins og kíkja svo á show í Brisbane planetarium og fræðast aðeins um stjörnurnar sem sjást hérna megin á hnettinum.



This page is powered by Blogger. Isn't yours?