<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, október 30, 2004

Vá komin vika síðan ég bloggaði síðast, rosalega líður tíminn eitthvað hratt. Svo sem ekki mikið að frétta af mér, ekkert heyrt í sambandi við atvinnuumsóknirnar. Veit svo sem ekki hvort það er gott eða slæmt vona nú að það komi einhver svör allavega í næstu viku. Var að enda við að klára síðasta verkefnið mitt á þessari önn þannig það eru bara prófin eftir.

Var að lesa á mogganum um niðurstöðu samkeppnisráðs, 3 milljarðar í sekt fyrir olíufélögin. Miklir peningar en enn meiri merking hvað varðar það sem hefur nú verið staðfest að þau gerðu. Og hver segir að þetta viðgangist ekki á öðrum sviðum í íslensku samfélagi, tek tryggingar sem dæmi. Þetta er gallinn við að vera lítið eyríki úti í miðju norður Atlantshafi býst ég við, hver er lausnin? Kannski bara best að flytja til Ástralíu eða þéna yfir 500 þús á mánuði.

Mynd dagsins er svo panorama mynd sem ég var að setja saman og er frá New Farm Park.




laugardagur, október 23, 2004

Dagurinn í gær var alveg eðal dagur, var reyndar soldið heitt en nú er hitinn farinn að fara yfir 30 stigin á daginn (núna er t.d. 36 gráður). Mér líður samt alveg ágætlega þrátt fyrir það sem betur fer.

En í gær var ég í algeri afslöppun, gerði ekkert nema rölta um með myndavélina mína og taka myndir af því stórmerkilega fyrirbæri sem eru Jacaranda tré. Ég hef aldrei séð nokkuð eins magnað. Þessi tré blómstra á vorin og eru hulin fjólubláum blómum. Svo eru þau hérna út um allt þannig þetta er alger litasprengja og fín tilbreyting frá vetrinum þegar það eru engir litir í gróðrinum nema auðvitað grænn.

Ég byrjaði rúntinn í kringum UQ og svo hélt ég upp eftir ánni til New Farm Park, ekki komið þangað síðan ég flutti. Ég tók fullt af myndum og setti í nýtt albúm á síðunni minni. Þetta er mest bara myndir af þessum trjám þannig þetta er kannski ekki mjög spennó en þetta er öðruvísi en maður á að venjast frá Íslandi :)


Jacarandas in the UQ campus.
Posted by Hello



mánudagur, október 18, 2004

Rigning, rigning, rigning en ekki rok! Það er búið að rigna í tvo daga, langþráð rigning hérna þannig það má búast við því að skógareldarnir séu svo gott sem búnir að vera í bili. Sökum rigningar var helgin með rólegra móti......vá í þessum skrifuðu orðum sló eldingu niður hérna mjög nálægt, kannski bara í húsið því það skalf allt og nötraði og hávaðinn var þvílíkur. Plastdolla sem var hérna uppi á ísskáp datt niður á gólf og rafmagnið fór af húsinu. Það þýðir það að ég get ekki sett þetta komment á netið fyrr en rafmagnið kemur á. Skiptir svo sem ekki öllu máli en nú er gott að vera með fartölvu því ég get haldið áfram að skrifa.

En já helgin var róleg, á laugardaginn gerði ég ekkert í skólanum, bara slappaði af, kíkti í bíó og át súkkulaði köku með ískaldir mjólk í tilefni dagsins. Jú jú ég átti víst afmæli, bara orðinn 26 ára og þökk sé náminu orðinn nokkuð vitrari en ég var fyrir ári. Ég hef verið að spá í því hvað eigi að gera í fríinu og held að ég sé komin með hugmynd. Held að það sé góð hugmynd að fljúga héðan til Sydney, vera þar í nokkra daga, kannski klifra yfir brúnna, tjilla á ströndinni og svo leigja campervan. Keyra svo til Canberra, áfram niður að ströndinni og svo enda í Melbourne. Skilja bílinn þar eftir og fljúga aftur til Brisbane.

Mynd dagsins er svo panorama mynd frá the Glasshouse Mountains. Ég var að leika mér í photoshop að splæsa saman fjórum myndum sem ég tók þar. Kemur ágætlega út.




föstudagur, október 15, 2004

Var að ljúka við stórt verkefni í dag, snérist um GPS mælingar, mjög áhugavert og ég held að ég hafi bara komið þessu vel frá mér...er allavega mjög ánægður með það. Ég ætla því að leyfa mér að hafa það náðugt í kvöld og horfa á bíómynd. Superman 1 er í imbanum til minningar um hann Christopher Reeves heitinn. Örlögin geta verið soldið kaldhæðin þegar maður hugsar um það. Stálmaðurinn sjálfur, ímynd hreystis og krafts, endar svo ævi sína ósjálfbjarga í hjólastól. En svona er þetta you never know, sama hvað þær segja allar þessar símaspákonur.

Á morgun er svo ætlunin að kíkja upp í New Farm Park, fyrsta sinn síðan ég flutti, og slappa af, njóta þess að vera til og taka kannski nokkrar myndir. Það er Fish N´ Chips búð sem fór stundum í þegar ég nennti ekki að elda og þeir eru bara með ansi góðan fisk.


What lies ahead?
Posted by Hello



fimmtudagur, október 14, 2004

Hér loga skógareldar enn og síðast þegar ég frétti var verið að flytja liðsauka inn frá öðurm hlutum Queensland til þess að berjast við eldana og aðsotða slökkviliðið hér á staðnum sem margir hverjir eru orðnir úrvinda af þreytu í baráttunni við bálið. Borgin hefur samt sloppið hingað til en nokkur heimili í meira dreifbýli hafa orðið eldinum að bráð en sem betur fer hefur enginn týnt lífinu, vonum að svo haldist.

Annars er það helst að frétta af mér að ég sótti um mín fyrstu störf hérna í Oz í dag. Fyrsta starfið sem ég sótti um var hjá Brisbane City Council sem GIS tæknir. Ég er að vona að reynsla mín af Landupplýsingakerfum Reykjavíkur og köppunum þar á bæ eigi eftir að mælast vel fyrir. Sótti einnig um sem fjarkönnunar tæknir og þar held ég að reynsla mín hjá Simma og Co hjá RALA eigi eftir að gagnast. Ég er samt hæfilega bjartsýnn þar sem samkeppnin um þessar stöður er gífurleg. Það voru ekki nema samtals 50 sem fengu stöður á síðasta ári á öllum sviðum allt frá bókhaldi til verkfræði.

Hin vinnan sem ég sótti um er hjá fyrirtæki sem kallast Fugro Spatial Solutions en það er einkafyrirtæki sem sérhæfir sig í loftmyndatöku, myndmælingum, landmælingum, GIS kerfum og kortagerð. Held að það sé enn erfiðara að fá þar inn en ég fékk meðmæli frá nokkrum prófessorum hérna í skólanum sem vonandi hjálpa, annars gætu þeir alveg eins tekið upp á því að segja að ég sé bölvaður vitleysingur. Stöðurnar eru yrðu báðar tímabundnar stöður í sumarfríinu og ekki ætlaðar til langframa (eða hvað?!).

Nú er því ekkert annað að gera en að bíða eftir svörum og halda áfram að vinna að skólanum, tvær vikur eftir af önninni og verkefnin að hrúgast upp. Kveð að sinni með mynd af miðborg Brisbane að næturlagi.


Bright lights, Big City.
Posted by Hello



föstudagur, október 08, 2004

Hér liggur reykur yfir öllu, reykjarlykt út um alla Brisbane. Skógareldar hafa herjað illa á South East Queensland undanfarna daga enda aðstæður óhagstæðar, heitt (fór í 34 gráður í dag), þurrt og vindasamt. Alls staðar eru skógareldar í kringum borgina og á þessu svæði. Maður er nú svona vanur sinubrununum í henni Reykjavík en þetta er soldið öðruvísi upplifun. Versnandi ástandi er spáð þar sem ekki er gert ráð fyrir neinni rigningu fyrr en í næstu viku.

Býst við að maður þurfi að lifa við síversnandi reykjarfýluna þangað til, eins gott að maður er ekki með asma.



fimmtudagur, október 07, 2004

Ég sver það ég er alveg að verða geðveikur á þessu blessaða interneti hjá mér um þessar mundir. Nú er það farið að taka upp á því að detta út endalaust aftur og aftur og ég þarf að endurræsa tölvuna til að fá það inn aftur. Þá endist það í 10 mín og dettur út aftur.

Það sem er ennþá meira pirrandi er að það er í fínu lagi hjá Robert og búið að vera það síðan ég setti það upp á hans tölvu fyrir tveimur mánuðum síðan. Ekki nóg með það heldur fór ég niður í skóla í dag og ætlaði að nota internetið en nei það var sama sagan þar, komst ekki inn á neina síðu. Ég virtist vera einn um þetta vandamál þarna því fullt af fólki í kringum mig var að nota netið og það var allt í lagi með það hjá þeim, ARRGGG. Segið svo að ég sé hjátrúarfullur að trúa að á mér hvíli bölvun þegar kemur að raftækjum, ég er fæddur á vitlausum áratug vildi óska þess að ég væri staddur einhvers staðar í USA í kringum 1950 held það sé rétti tíminn fyrir mig. Þá var flóknasta raftækið sjónvarpið!

En fyrir utan þetta internet ástand er svo sem allt fínt að frétta héðan, bara skóli skóli. Veðrið er farið að verða mjög skaplegt hérna, nær svona 30 gráðum á daginn og er í kringum 20 á kvöldin. Það er lítill raki sem þýðir að þetta er alveg kjörið hitastig og hægt að leyfa sér að vera úti án þess að líða illa.

Það var eitthvað rosalega sniðugt sem ég sá í fréttunum í dag sem ég ætlaði að tala um en ég bara man ekkert hvað það var, oh jæja ég held þá bara kjafti.


Focus Focus Focus.
Posted by Hello



sunnudagur, október 03, 2004

Það er alltaf erfitt að koma sér í gang aftur eftir að hafa verið í fríi. Maður endar alltaf á því að gera eitthvað allt annað en að læra, t.d. að blogga. Það eru 4 vikur eftir af skólanum, 2 stór verkefni og 2 minni sem ég á eftir. Er hæfilega bjartsýnn á þetta hafist ef ég vinn jafnt og þétt. Próftaflan er komin í hús, fyrsta próf þann 10 nóv og það síðasta 18. nóv. Var að kíkja á gömul próf áðan og er lýst ágætlega á þessa próftörn og held að hún eigi eftir að ganga vel.

Ég er loksins búinn að gefast endanlega upp á internet explorer sem vafrara. Ég tók mig til og náði mér í nýjan vafrara í gær, Mozilla firefox. Mæli með honum ef þú vilt ekki að tölvan þín fyllist af rusli og þú ert orðinn leiður á að bíða endalaust eftir að vefsíður hlaðist vegna endalausra auglýsingaglugga sem hoppa upp þegar þú ferð inn á svæðið.

Ég er búinn að vera að pæla í því hvað ég eigi að gera af mér í sumarfríinu, held að ég finni mér vinnu og svo þarf ég að fara að huga að lokaverkefni. Svo er aldrei að vita nema maður taki sig til og geri eitthvað flippað, kannski að maður taki mótorhjólapróf!?!?


Harley-Davidson and the Marlboro man?
Posted by Hello



föstudagur, október 01, 2004

Síðustu þrír dagar hafa verið mjög afslappandi og skemmtilegir. Þar sem það var frí í skólanum núna í þessari viku þá var ákveðið að leigja bíl til þess að skreppa í skoðunarferðir í kringum Brisbane. Já viti menn ég keyrði í fyrsta sinn á ævinni á vinstri vegarhelming og er ennþá lifandi, ég vona allavega að ég sé ennþá lifandi því ef ekki þá er ég afturgenginn. Nei nei þetta var svo sem lítið mál og ólíkt sumum sem ég þekki þá fór ég alltaf inn réttu megin í bílinn og notaði aldrei óvart rúðuþurrkurnar þegar ég ætlaði að gefa stefnuljós.

Á þriðjudeginum héldum við Robert norður í upp eftir í átt að Sunshine coast (sjá nýjar myndir í samnefndu albúmi). Við kíktum á the Glasshouse mountains, í annað sinn sem ég kem þangað, en það er alltaf jafn mikilfenglegt að horfa yfir svæðið frá útsýnispallinum. Svo keyrðum við áfram upp til bæjar sem heitir Noosa. Noosa kom mér soldið túristalega fyrir sjónir en samt soldið kammó, gæti alveg hugsað mér að kíkja aftur. Megin ástæðan fyrir heimsókninni var samt sem áður að kíkja í þjóðgarðinn sem þar er staðsettur, Noosa National park. Þar var tekin góð gönguferð og á leiðinni sást koala björn hangandi einhvers staðar lengst uppi í tré. Ég reyndi nýja 10x optical zoomið á vélinni minni en það sást nú ekkert betur þvi kvikindið var lengst lengst uppi í tré. En eftir göngutúr um svæðið þá var haldið heim aftur til Brisbane undir kvöld.

Á miðvikudeginum var ákveðið að keyra niður til Gold Coast og kíkja á Surfers Paradise. Surfers er eins og ég hef áður sagt alger túristagildra, kfc, mcdonalds og billabong á 200m fresti. En þetta er staðurinn ef þú ætlar að sörfa og djamma á sama stað, nóg að gera nóg að túristast og nóg af fólki. Næstu helgi verður götunum breytt í indy keppnisbraut og ökuþórarnir eiga eftir að þjóta þarna um á 200kmh. Ég leyfði sjálfum mér að ímynda sér hvernig það væri þar sem ég keyrði á 60 framhjá tómum áhorfendapöllunum sem þeir voru að setja upp. Eftir smá sólbað og busl í sjónum á surfers var keyrt áfram suður eftir ströndinni til staðar sem heitir Tweed heads, ekki svo merkilegur staður nema hvað að þar er fínt útsýni og svo er líka farið að draga aðeins úr áhrifum Gull strandarinnar hérna, andrúmsloftið mun þægilegra og strendurnar ekki eins fjölmennar en samt góðar. Hér var etið og hér var drukkið en svo var kíkt í heimsókn til vinkonu okkar hennar Jazmin frá Perú þar sem hún var svo góð að leyfa okkur að gista. Hún er svo heppin þar sem hún býr á ströndinni og vinnur í surf klúbbnum hinu megin við götuna. Það var að venju glatt á hjalla og kíktum við aðeins út um kvöldið og sulluðum í okkur nokkrum bjórum.

Á fimmtudeginum var svo keyrt í vestur, inn í bakland Gold Coast. Stefnan var tekin á Springbrook national park og Tamborine mountains þar sem okkur hafði verið tjáð að þar væri margt fallegt að sjá, flott útsýni yfir skemmtilegar jarðmyndanir, regnskógar og hitt og þetta. Þetta var fín tilbreyting frá hraðbrautunum og traffíkinni niðri á strönd þar sem maður keyrði um bugðótta og þrönga fjallavegi sem liðuðust upp og niður hlíðar og meðfram dalbotnum. Af og til rofaði til í skóginum og þá mátti sjá hross og beljur á beit og einstaka listaverkasölu eða vínekru. Í Springbrook kíktum við á svæði sem heitir natural arch vegna jarðmyndunar sem er þar og líkist brú og svo keyrðum við um Tamborine mountains. Að lokum var svo haldið aftur heim til Brisbane og ferðalaginu slúttað, við tekur lokaspretturinn í háskólanum.

Ég hef sett inn myndir af þessu ferðalagi okkar félaga undir tveimur nýjum albúmum, Noosa og Gold Coast revisited. Endilega kíkið á þetta en það verður að játast að eftir að hafa verið 6 mánuði á sama svæðinu eru margar hverjar myndirnar farnar að verða ansi kunnuglegar og satt best að segja þá held ég að maður sé búinn að venjast því sem hér er að sjá, kominn tími til að sjá eitthvað nýtt ;)

Mynd dagsins er svo af karlinum í tunglinu.


Can you see the man in the moon?
Posted by Hello



This page is powered by Blogger. Isn't yours?