<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, nóvember 29, 2004

Eins og flest annað raftækjadrasl sem ég á þá bilaði GSM síminn minn nýlega (raftækjabölvunin strikes again). Ég fór því niður í miðbæ á föstudaginn með hann í viðgerð. Ég hafði ekki farið niður í miðbæ í rúmlega 2 mánuði enda ekki haft neina sérstaka ástæðu til þess, eftir allt saman þá er allt sem háskólastúdent þarf til að lifa hérna í hverfinu. Nú hringdi ég til þess að athuga hvort búið væri að gera við hann og fékk þau svör að þeir hefðu fundið merki um vatnsskemmdir sem gerðu ábyrgðina á símanum ógilda.

Bara svo að þið vitið það þá hefur verið þurrkur hérna mest allan tímann sem ég hef verið hér og ég hef ekki misst símann minn í poll eða bjórglas eins og sumir hafa lent í. Þannig þetta er bara kjaftæði í þeim en það sem fyndnara er að þeir gátu ekki gert við hann en sögðu að ég mætti ná í hann og borga 25$ skoðunargjald. Vitiði hvað, ég er orðinn þreyttur á þessu eilífa rip offi, þeir mega eiga þennan fína síma sinn.

En auk þess að fara með símann þá fékk mér sem sagt göngutúr um miðbæinn og settist svo niður til þess að fá mér kaffibolla og horfa á mannlífið. Þá fór ég að pæla í því hvað þetta er í raun stór borg sem ég bý í og ólíkt því sem maður á að venjast heima. Á hverjum einustu gatnamótum er skari fólks sem hleypur yfir í hollum eftir því hvort ljósið er grænt eða rautt. Endalaus flaumur af fólki á þönum, samt er Brisbane þekkt fyrir að vera mjög afslöppuð borg. Þar sem ég sat þarna og horfði á þetta þá fékk ég hugmynd að ljósmynd sem ég ætla að reyna að koma í framkvæmd einhvern daginn.

En þangað til þá gróf ég upp gamla mynd til að hafa sem mynd dagsins. Og nei, þetta er ekki stolið úr túristabæklingi eins og sumir vildu meina að síðasta mynd hefði verið :)


Queensland......The Sunshine State, North Stradbroke Island.
Posted by Hello



þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Frá því á fimmtudag, þegar ég tók síðasta prófið, þá hef ég verið í fullkominni afslöppun. Það hefur verið rigning síðan þannig ég hef mest lítið farið út en þess í stað hef ég bara lesið, horft á bíómyndir, leikið mér í tölvunni og sofið út (vaknaði t.d. ekki fyrr en klukkan 12 í dag :) Reyndar var kíkt á pöbbarölt strax eftir prófið á fimmtudaginn sem var skemmtilegt og svo var grillveisla á laugardaginn. Þar tókst einhverr fjandans pöddu að gæða sér á vinstri löppinni á mér þannig ég var með fimm bit á tánum og hefur mig klæjað óendanlega þangað til í dag.

Í kvöld kemur svo vinkona mín hún Jazmin í heimsókn og ætlum við ásamt Robert að kíkja í leikhús og út að borða. Þetta er eiginlega meira sirkus en leikhús en leikflokkurinn heitir Cirque de soleil.

Ég er búinn að fá út úr fyrsta prófinu og það gekk svona líka frábærlega vel, ég er hæst ánægður með niðurstöðuna. Er enn að bíða eftir næstu tveimur en ég veit að þau verða ekki eins góð þar sem stór hluti einkunnarinn byggist á verkefnum sem sum hver gengu ekki allt of vel. Ég er búinn að komast að því að ég er ekki akademíker, ég er athafnamaður. Þegar maður skrifar skýrslu og allar þær upplýsingar sem maður þarf á að halda eru í sömu bókinni (sem NB er mjög áreiðanleg heimild) þá sé ég ekki tilgang í að rýna í tugi greina í viðbót bara til að lesa um sama hlutinn. Nema auðvitað ef maður væri að rökræða niðurstöðurnar frá mismunandi sjónarhornum sem ég átti ekki að gera. Þannig ég leysti verkefnin en var gagnrýndur fyrir að nota of fáar heimildir.....get sætt mig við það.


Beach walk, North Stradbroke Island.
Posted by Hello



miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Jæja nú er ég alveg að springa á limminu...ég nenni ekki að lesa meira fyrir þessi blessuðu próf. Síðasta prófið er á morgun þannig þetta er sem betur fer að taka enda. Ekki verið neitt svakalega strembin próftörn í þetta skiptið. Búinn að setja bjór inn í ísskáp og hlakka mikið til að koma heim á morgun og grípa einn ískaldann og teyga í botn. Það er alveg hrikalega skrítið eitthvað að vera að lesa í mogganum um blindbyli og ófærð á meðan ég sit hérna ber á ofan í stuttbuxum allan daginn til þess að reyna að láta hitann og rakann ekki á mig fá. Ekki beint jólalegt það.

En það er gaman að þessum Áströlum, í fréttunum í gær kom fram að bíræfnir þjófar í Darwin stálu einu stykki 10 tonna stálbrú. Þjófnaðurinn uppgötvaðist fyrir tilviljun þegar einn innfæddra fór út að skokka með hundinn sinn. Ástralir eru þekktir fyrir að vera nokkuð kaldhæðnir og sagði lögreglan á staðnum að það hefði verið heppilegt að skokkarinn hefði uppgötvað þjófnaðinn en ekki lestarstjóri :) En hvernig í ósköpunum er hægt að stela 10 tonna stálbrú án þess að nokkur taki eftir því og það sem mikilvægara er AF HVERJU!!!!????


J.D. Story Bridge.
Posted by Hello



mánudagur, nóvember 08, 2004

Í ágúst voru það skógareldar en nú hefur dæmið snúist algerlega við. Nú er búið að rigna og rigna og rigna og það er allt á floti. Litlir lækir hafa breyst í straumharðar ár og hjálparsveitir eru nú á fullu að reyna að bjarga fólki sem hefur orðið fyrir skyndiflóðum. En þetta er samt ágætt próflestrar veður, bara vonandi að það verði sól og blíða eftir próf.

Ég er búinn að fá svör við tveimur af þremur starfsumsóknum.....og nei ég fékk ekki djobbinn. Nú bíð ég bara eftir að síðustu umsókninni verði svarað og býst ég við að hún verði á sama veg þar sem ég hafði minnsta trú á að fá það djobb. En ég hef augun opinn samt sem áður fyrir nýjum störfum sem gætu dúkkað upp.



föstudagur, nóvember 05, 2004

Í dag bönkuðu Vottar Jehóva upp á hjá mér og boðuðu að heimsendir væri nær nú en nokkru sinni áður. Ég sagði við þá að þeir gætu aldrei þessu vant haft á réttu að standa sérstaklega eftir að Bush náði endurkjöri. Þeir hlógu ekki.



fimmtudagur, nóvember 04, 2004

Ég vil byrja á að óska heimsbyggðinni til óhamingju með úrslit forsetakosninganna í USA. Fjögur löng ár í viðbót með Bush við stýrið. Það mátti nú svo sem alveg búast við þessu, það þarf idíóta til þess að kjósa idíót. Lengi lifi fólkið í miðvesturríkjum og suðurríkjum Bandaríkjanna, áhrifamestu idíótar í heimi, húrra, húrra, húrra!!

Og hvað er að gerast með morgunblaðið á netinu! Nú fær maður ekki að lesa fréttirnar á netinu lengur nema að vera áskrifandi eh?!? En jæja ég ætla að reyna að láta þetta ekki á mig fá, neyðist bara til að lesa sorpritið DV á netinu í staðinn (ef þeir eru þá ókeypis ennþá).



miðvikudagur, nóvember 03, 2004

Ég gekk í herinn í dag.....eða réttara sagt fór í skoðunarferð um herstöð í dag og er það í fyrsta sinn a ævinni sem ég hef stigið fæti inn á slíkt svæði. Einn félagi minn í MGIS kúrsinum er kafteinn í ástralska hernum, tilheyrir sveit sem kallast 1st Topographic and survey squadron og er staðsett hérna í Brissie. Þeirra job er að útbúa kort og greina myndir fyrir herinn, ansi cool stuff. Hann bauð okkur nokkrum úr kúrsinum að koma og skoða það sem þeir eru að vinna við og hvaða tól og tæki þeir nota.

Þetta er náttúrulega allt top secret og ég undirritaði þagnarsamning um að ég myndi ekki lýsa því sem ég sá. Var soldið fyndið að ganga þarna inn á skrifstofurnar hjá þeim þar sem allir þessir kallar (og reyndar nokkrar konur) voru að stússast og búa til einhver kort. Það fyrsta sem ég rak augun í (og nú er ég að brjóta samkomulagið) var kort sem hét lykilstöður í Írak og classified letrað þar á. Þeir voru nú samt fljótir að hlaupa til og rúlla því upp þegar við vorum mætt á svæðið þannig ég sá nú ekki mikið á kortinu.

Ég var nú bjartsýnn og ætlaði að ná einhverjum myndum af hertrukkum og dóti til að setja með þessu bloggi en ég þurfti auðvitað að skilja myndavélina og farsímann eftir áður en ég fór inn, bjóst svo sem við því. En þetta bara ansi áhugavert og gaman að fá svona annað sjónarhorn á það sem ég er að læra þ.e.a.s. að ég gæti notað þekkingu mína í hernaðuarlegum tilgangi í staðinn fyrir að nota hana í vísindalegum tilgangi.



This page is powered by Blogger. Isn't yours?