<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, desember 31, 2004

Nú er árið liðið eins og þeir syngja svo oft í skaupinu. Ég hef svo sem ekki séð flest ykkar mikið á árinu sem er að líða en takk fyrir þann stutta tíma sem við áttum saman á árinu 2004. Ég vil óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og farsældar á komandi ári.

En það er oft á áramótum við hæfi að líta yfir farinn veg og athuga hvað maður hefur lært. Í mínu tilviki er vegalengdin ansi löng og lærdómurinn ansi mikill. Fyrir utan allt það sem ég hef lært í skólanum hérna úti þá er ýmislegt sem ég hef lært í skóla lífsins líka. Að búa í öðru landi og umgangast fólk af ýmsu þjóðerni dagsdaglega gefur manni annað sjónarhorn á sitt eigið land og þjóð......og það er góður hlutur.

Vona að það rætist nú úr gamlárskvöldi hjá ykkur þrátt fyrir stormviðvaranir ég ætla hins vega að fara niður á South Bank í kvöld að horfa á flugeldasýningu og taka þátt í götupartíi fram eftir nóttu.


Happy new year!!!
Posted by Hello



mánudagur, desember 27, 2004

Hrikalegur endir á hrikalegu ári myndu sumir segja. Jarðskjálftin stóri og flóðbylgjurnar sem riðu yfir í kjölfarið í löndunum kringum Indlandshaf, sorglegt. Sérstaklega þykir mér sorglegt að flest öll dauðsföllin á Indlandi og Sri Lanka hefði mátt koma í veg fyrir, líklega fleiri en 11 þús. Af hverju segi ég það? Nú þessi lönd eru í 2000 km fjarlægð frá upptökum skjálftans, flóðbylgjurnar sem ferðuðust á 800km hraða á klukkustund voru 2 og hálfan tíma á leiðinni þangað....tvo og hálfan tíma!

Afsaknir eru á þá leið að á þessum svæðum hafi ekki verið til þess gerð Tsunami viðvörunarkerfi what!...má ég spyrja var til sími á lögreglustöðvum þessara staða hversu frumstæðir sem þeir voru? Voru til bílar með gjallarhornum til þess að fá fólk af strandsvæðunum eða bara nóg af fólki til að hlaupa milli húsa? Auðvitað og það hefði vel mátt koma í veg fyrir mörg af þessum dauðsföllum, ekki öll en mörg...viðkomandi stofnanir og yfirvöld sváfu einfaldlega á vaktinni og eiga skammir skilið. En svona er þetta nú bara og það þýðir lítið að gagnrýna.



föstudagur, desember 24, 2004

Það er víst kominn aðfangadagur jóla, þannig ég ætla að óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Takk fyrir árið sem er að líða (þó að ég hafi nú ekki séð mikið af ykkur á því) og ég hlakka til að hitta alla aftur á nýja árinu.


Merry Christmas!, King George Square Brisbane.
Posted by Hello



laugardagur, desember 18, 2004

Í dag gerði ég aldeilis magnaðan hlut, ég fór í loftbelgsflug. Mig hefur alltaf langað að svífa í rólegheitum yfir landið í litríkum loftbelg og í dag lét ég verða af því. Ég var sóttur klukkan 3:30 í nótt því keyra þurfti upp í Lockyer Dal sem er cirka 80 km fyrir vestan Brisbane. Þar er fyrirtækið staðsett sem sér um þessar ferðir og þar er tekið á loft út af því að aðstæðurnar eru mjög góðar þarna fyrir slíkt flug, rólegt loft á morgnanna við sólarupprás og mjög fallegt landslag.

Þetta er eitthvað það magnaðasta sem ég hef gert, sérstaklega þar sem mér er frekar illa við hæðir, en þetta var merkilega þægilegt og afslappandi. Það er enginn vindur, ekkert vagg og allt mjög stabílt. Auk þess er sjónarhornið svo allt öðruvísi en þú átt að venjast, þú getur horft beint niður og séð jörðina líða undan þér í rólegheitum en ekki eins og í flugvél þar sem þú sérð bara út um smá gat og kannski væng. En flugið var sem sagt frábært, gott veður, gott útsýni og einstök tilfinning að svífa um án nokkurrar vélar eða vængja.

Lendingin var nokkuð verri en flugtakið en flugtakið gekk vel og var belgurinn furðulega fljótur að hækka flugið. Lendingin var svona sæmilega mjúk en um leið og við lentum kom smá vindgustur sem feikti belgnum áfram og karfan valt á hliðina. Samt ekkert mál og allt í góðu. Þegar búið var að lenda þá var boðið upp á dágóðan morgunverð sem var vel þegin því ég hafði verið á fótum síðan klukkan 10 um morgunin áður eða sem sagt tæplega 24 tíma. En þetta var skemmtileg reynsla og myndi ég hiklaust mæla með þvi að fólk prófaði þetta, ég hef sett inn MYNDIR af ferðinni á myndasíðuna njótið ;) Mynd dagsins er svo úr ferðinni, landbúnaður er aðalmálið á svæðinu sem ég sveif yfir.


Agriculture, Lockyer Valley.
Posted by Hello



fimmtudagur, desember 16, 2004

Jæja nú á sem sagt að fara að kalla fótbolta fótbolta í Ástralíu en ekki "Soccer" (sjá frétt morgunblaðsins http://www.mbl.is/mm/sport/frett.html?nid=1116555). En er þetta góð hugmynd? Nú þegar eru þrjár gerðir af áströlskum fótbolta eða "footy" eins þeir kalla það og er það nógu flókið að skilja fyrir mig og eflaust flesta sem hingað koma.

Þeir eru með Australian rules football, Rugby league og Rugby Union en hver þeirra er nokkuð öðruvísi með mismunandi reglum. Nú ætla þeir sem sagt að fara að kalla soccer líka footy þannig það á eftir að verða verulega flókið að ræða um fótbolta hérna í framtíðinni. Sama er mér svo sem enda ræði ég ekki mikið fótbolta hvort sem er. Hef samt mest gaman að horfa á Rugby Union fótbolta, skemmtilegt sport þar á ferð. Er meira að segja farinn að kunna eitthvað af yfir 300 reglum sem þar eru í gangi.

Mynd dagsins er svo frá smábátahöfninni í Manly þar sem ég fór í gær en þarna eru skútur allra ríku Brisbane búanna geymdar og möstrin eru nánast óteljandi.


Masts in Manly Marina.
Posted by Hello



mánudagur, desember 13, 2004

Mér tókst það! Ég fann hérna eitthvað sem gæti flokkast sem hamborgarhryggur. Að vísu fylgir hryggurinn ekki með heldur er þetta kallað smoked loin ham og er bara sá hluti hryggsins sem er á milli rifjana (aðal kjötið sem sagt). Ég tók eina prufukeyrslu á þessu í gær til að gá hvort þetta væri ætt sem jólamatur, eldaði þetta ásamt brúnðum kartöflum, aspas, rauðbeðum og gulum baunum. Og viti menn þetta var bara alls ekkert vont, reyndar mjög gott (samt ekki eins gott og hjá múttu).

Annars er stefnan tekin niður að sjó í dag, spáð 37 gráðum og þá er eins gott að halda niður að strönd til að fá smá golu og busla í sjónum. Annars er búið að vera mikið um skæð óveður hérna í kringum Brisbane. Mikil flóð og miklar skemmdir, t.d. fór rafmagnið af tvisvar í gærkveldi þó ekki væri eitt einasta ský sjáanlegt. Þá er þetta nefnilega þannig hérna að kerfið er ofhlaðið og um leið og eitthvað gefur sig einhvers staðar langt í burtu þá er það keðjuverkandi og slær út rafmagnið hérna líka. Og ég sem hélt að Ástralía væri þróað land. Þetta eru nú bara pjakkar sem geta ekki einu sinni skaffað almennilegt rafmagn ;)



miðvikudagur, desember 08, 2004

Þetta var undarlegt. Hvað var undarlegt? Ég vaknaði klukkan korter yfir sex. Hvað er svona undarlegt við það? Síðustu viku þá hef ég ekki farið á fætur fyrr en að ganga tólf...já ég veit alger leti. En nú vakna ég allt í einu galvaskur klukkan sex en fór samt ekki að sofa fyrr en tvö í nótt.

Þegar ég vaknaði og leit á klukkuna þá hugsaði ég með mér að ég hefði nú sofið fimmtudaginn af mér og klukkan væri orðin sex að kvöldi. Svo kom ég fram og kíktí út um gluggann og það var ekkert að gerast. Enginn frammi og engin umferð. Þá leið mér eins og í sögunni um Palla sem var einn í heiminum. En ég fattaði nú samt fljótt að hið rétta væri að klukkan væri bara sex að morgni og enginn kominn á fætur. Fékk mér því peru í goginn og blogga aðeins.

Lenti í umræðum í fyrradag við stelpu sem ég þekki um demantstrúlofunarhringi. Ég sagði að þetta væri eitthvað mesta rip off og sölutrikk sögunnar. Nóg væri til af demöntum í heiminum en framboðið væri takmarkað af demantaseljendum viljandi til að halda verðinu uppi. Auk þess væri búið að heilaþvo sumar konur með því að telja þeim trú um að maðurinn þeirra elski þær ekki nema hann gefi þeim stóran og dýran demantshring. Hún var nú heldur betur fúl út í mig og hreytti því í mig hvað ég myndi þá gefa minni heittelskuðu í staðinn fyrir demantshring.......ég sagði að ég myndi gefa henni mig og alla mína ást, virðingu, vináttu og stuðning sem hún þyrfti á að halda. Og svo líklega heimsreisu því ég myndi spara helling á því að þurfa ekki að kaupa fokdýran hring ;)


"Statues" in Queen street Mall, Brisbane.
Posted by Hello



þriðjudagur, desember 07, 2004

Ég ligg andvaka og því eins gott að blogga. Úti eru þrumur, eldingar og úrhellisrigning sem bylur á þakglugganum. Af og til lýsist herbergið upp í bláum hvítum blossa og skuggarnir dansa á veggnum hjá mér. Síðan fylgir hávaðinn sem gerir mér erfitt um svefn.

Einmitt þegar ég var búinn að ákveða að það væri komið nóg af afslöppun og aðgerðarleysi þá tekur veðrið upp á því að láta svona. Er víst spáð svona út þessa viku og ég sem ætlaði að fara að fara á ráp, ferðast aðeins. Er reyndar kominn með þá flugu í hausinn að eyða áramótunum í Sydney. Er víst einstök upplifun og heljarinn show og partí.

Mér finnst samt eitthvað svo skrítið að vera í sumarfríi og vera ekki að vinna. Finnst eins og ég sé að gera eitthvað ljótt af mér, brjóta reglurnar. Veit eiginlega ekki hvað ég á að gera af mér með allan þennan tíma á höndunum. Væri til í að ferðast allan tímann en hef því miður ekki efni á því. Ég þarf að velja og hafna og skipuleggja hvað ég ætla að gera. En hvar á maður eiginlega að byrja, þetta er svo hrikalega stórt land og margt að sjá?

Jæja þessi skúr er genginn yfir en útlitið er svart næstu viku, fer samt kannski bara út í rigninguna á morgun....hún er allavega ekki köld.



föstudagur, desember 03, 2004

Í dag komst ég í smá jólaskap en það hefur verið erfitt að finna rétta jólaandann hérna í hitamollunni og snjóleysinu ef ég á að segja ykkur satt. Jólin eru einhvern veginn ekki eins jólaleg ef maður hefur ekki skammdegið, snjóinn og kuldan. Reyndar eru íslensk jól heima yfirleitt umhleypingasöm og rauð en svona í huganum er þetta þannig að jólasveinninn er ekki í sundskýlu og á brimbretti. Hann þarf að komast áfram á sleðanum sínum og til þess þarf snjó.

En það sem kom mér í jólaskap var það að ég kíkti í kvöld niður á ráðhústorg til þess að fylgjast með því þegar Brisbane búar kveiktu á stóra jólatréinu sínu. Jólatréið var nú samt bara gervijólatré, ekki eins flott og það sem við fáum niðri á Austurvöll í boði frænda okkar Norðmanna. En það var samt gaman að sjá allt þetta fólk og hlusta á kór syngja lög eins og silent night, jingle bells, I´m dreaming of a white christmas og svo framvegis. Svo steig Jóli sjálfur á svið við mikin fögnuð barnanna og kveikti á ljósunum á jólatréinu með pompi og prakt. Úr hverju litlu andliti skein spenningur og gleði.

I'm dreaming of a White Christmas
Just like the ones I used to know
Where the treetops glisten
And children listen
To hear sleigh bells in the snow


Christmas is coming, King George Square.
Posted by Hello



fimmtudagur, desember 02, 2004

Ég hlýt að vera kominn með alzheimer sjúkdóm eða eitthvað. Ég átti að hitta prófessorinn minn í dag til að ræða hugmyndir að lokaverkefni fyrir næstu önn en einhverja hluta vegna fannst mér að það ætti ekki að vera fyrr en á morgun.

Það fyndna og sorglega kannski er að þetta er í annað sinn sem ég missi af fundi út af þessu (ekki gott mál). Í fyrra skiptið ruglaði ég saman dagsetningunni og tímasetningunni þ.e.a.s mætti þann 11 nóv kl 9 í staðinn fyrir þann 9. nóv klukkan 11. Núna var þetta öðruvísi ég lagði vel og greinilega á minnið að ég ætti að mæta 2. des klukkan 9 og ég vissi að í gær var 1. des en einhvern veginn tókst heilanum í mér að telja mér trú um það að ég ætti ekki að mæta fyrr en á föstudaginn, sem sagt á morgun. Hvað er í gangi spyr ég?

Oh jæja ég verð bara að biðjast afsökunar í bak og fyrir og endurpanta tíma, third time is the charm right!



This page is powered by Blogger. Isn't yours?