<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, janúar 31, 2005

Australia day var fínn dagur, krikketið gekk svona ágætlega bara. Þetta var nú ekki alveg eins auðvelt og ég átti von á en ég náði nú að slá nokkra góða bolta. Annars gekk mér mun betur í að kasta og var mér sagt að ég væri með góðan stíl. Annars var bara grillað, drukkinn bjór og spjallað.

Í gær var svo haldið brúðkaup hérna í íbúðinni hjá mér. Herbergisfélagi minn hann Robert og kærastan hans Doris, sem er núna hérna í heimsókn, gengu í hnapphelduna og var ég vottur. Þetta var allt saman mjög óformlegt og afslappað, svona borgaraleg gifting. Eftir athöfnina þá flúðum við borgina, sem var allt of heit og klístrug, og héldum upp til fjalla ásamt vini okkar Jason sem líka var vottur. Fórum upp á Mt Glorious, sem er 45 mín akstur héðan, og grilluðum. Svo röltum við í skóginum í kring sem var svalur og skuggsæll og kærkomin tilbreyting frá borginni.



þriðjudagur, janúar 25, 2005

Hvað var fólk að spá segir maður við sjálfan sig eftir að hafa verið í kringum fólk í blettetígursbolum, með sítt að aftan og túberað hár. Þannig var umhorfs um helgina hjá mér þar sem ég ferðaðist aftur í tímann til níunda og tíunda áratugar síðustu aldar. Sjálfur fór ég sem rappari frá síðari hluta tíunda áratguarins, íklæddur svörtum Adidas smellubuxum með hvítum röndum á hliðunum, ermalausum bol, með hvítt svitaband um ennið og nóg af bling bling gullkeðjum um hálsin (sem ég fékk reyndar á spottprís í byggingavöruversluninni). Það var spiluð músík frá þessu tímabili út í gegn, drukkinn bjór og pizzur étnar. Allt saman hin ágætasta skemmtun.

Á morgun er svo Australia day, nokkurs konar þjóðhátíðardagur Ástrala sem er áhugvert þar sem þeir eru ekki sjálfstæðir en hey þeir eru snillingar í að finna upp opinbera frídaga til að slappa af á hérna. Stefnan er auðvitað tekin á BBQ og smá krikkett spil sem verður áhugavert því ég hef aldrei spilað þá íþrótt. Er að pæla í að taka bara baseball útgáfuna á þetta og reyna að negla þessa kúlu sem lengst í burtu þannig ég þurfi ekkert að pæla í einhverjum flóknum reglum heldur fái bara fullt hús stiga í hvert sinn. En það stefnir nú samt í það að það verði ekkert spilað þar sem nú er úrhellis piss rigning og þannig spáð til föstudags.



föstudagur, janúar 21, 2005

Af gefnu tilefni vil ég taka það fram að getgátur um fráfall mitt eru úr lausu lofti gripnar. Síðasta vika hefur einfaldlega verið afar viðburðarsnauð vika og ég hef verið frekar andlaus þegar kemur að skrifum á bloggið. Ég vona nú að ég nái fljótlega að rífa mig upp úr þessari ritstíflu og geti von bráðar farið að tala um allt og ekkert ykkur til fróðleiks og skemmtunar.

Ég þarf hins vegar að fara núna að leita mér að litríkum svitaböndum en á morgun er ég að fara í "eighties" partí og þarf að klæða mig í anda þess tíma.


Myndin tengist höfundi á engan hátt
Posted by Hello



miðvikudagur, janúar 12, 2005

Góðan daginn gott fólk, það hefur ekki heyrst í mér lengi en ég sem sagt lifði veiðiferðina af. Ég hef bara verið í agalegu letikasti síðustu vikuna og mest lítið að frétta. Veiðin gekk so so, veiddi ekki neitt sem er nú soldið fyndið þar sem ég er nú einu sinni kominn af þjóð veiðimanna. En það voru fleiri en ég sem veiddu ekkert, fiskarnir voru ekkert að gefa sig að þessu sinni. Held nú að þessir kallar sem við fórum með hafi nú verið eitthvað vafasamir þar sem ég sá einn þeirra draga upp bók á leiðinni út úr höfninni sem hét "Fishing"....hmmmm menn ekki vissir á því hvað þeir eru að gera.

Annars voru þetta ágætir kallar og virtust vita hvað þeir voru að gera. Við lærðum að beita og svo var bara skellt út stöngunum. Sjógangurinn var nú nokkuð mikill þar sem maður átti fullt í fangi með að standa í lappirnar og varð að passa sig að kastast ekki út fyrir borðstokkinn þegar báturinn vaggaði fram og aftur í öldunum. Stundum fékk maður smá gusu yfir sig af sjó en ég lít svo á að það hafi bara verið sárabót fyrir að veiða ekki neitt, mitt mottó með sjóferðir er nefnilega þeim mun meira "rock and roll" því skemmtilegra. Ég hef aldrei orðið sjóveikur og það var einnig reyndin núna þó við hefðum verið tæpa fimm tíma úti.

Svo er ég að byrja á lokaverkefninu mínu. Einn prófessorinn minn hérna var með verkefni á höndum sem vantaði að gera og ég bauðst til þess. Málið snýst um að meta heilsu mangrove skógar hérna við strönd Brissy með því að nota fjarkönnunargögn og sérstaka aðferð sem metur hvað er mikil blaðgræna í laufblöðum trjánna. Þetta verður eflaust áhugavert þar sem ég þarf að vinna gögnin, fara út í mörkina og taka sýni og svo skrifa smá skýrslu og svo búa til kort af niðurstöðunum (sem er nú alltaf gaman).

Mynd dagsins er svo tekin úr bátnum á leiðinni út á sjó en þetta er hluti af "Gullnu ströndinni" eða the Gold Coast eins og þeir kalla það hérna.


Fishing of the Gold Coast.
Posted by Hello



þriðjudagur, janúar 04, 2005

Nýja árið heilsar hérna megin með ágætri hitabylgju. Það er búið að vera um og yfir 33 gráður hérna i Brissie síðustu daga og spáð áframhaldandi hlýnun. Á morgun er t.d. sagt að það eigi að fara upp í 36 gráður og það verði rakt....mmmmmmm. En ég kvíð því ekki því á morgun er ég á leið niður á strönd og þaðan er svo ferðinni heitið út á Kyrrahaf á djúpsjávarfiskveiðar.

Ég hef aldrei prófað það áður og tilvalið að skella sér út á sjó og njóta sjávargolunnar í mesta hitanum. Hver veit kannski verð ég líka heppinn og fæ að kljást við einhvern stóran og sprækan fisk t.d. sverðfisk.

Í dag var hins vegar leitað skjóls í loftkældum bíósal niður á South Bank og var það myndin Oceans 12 sem horft var á. Allt í lagi ræma samt ekki eins góð og fyrri myndin en þessi átti sín moments.....segi ekki meir þið verðið bara að kíkja á hana sjálf.



This page is powered by Blogger. Isn't yours?