<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, febrúar 25, 2005

Jæja nú er ég að átta mig á því að maður á ekki svo mikið eftir hérna í Ástralíu. Í dag keypti ég mér nefnilega farmiðann minn heim. Þar sem ég er sæmilega snemma á ferðinni þá held ég að ég hafi bara gert góðan díl en með sköttum var farið til London 65 þús ísl og svo frá London til Keflavík 8 þús eða samtals 73 þús.

Ég flýg með Malaysian airlines frá Brisbane 2. sept til Kuala Lumpur þar sem ég hef heilan dag til að skoða mig um í borginni áður en ég tek flug þaðan með KLM til Amsterdam þar sem skipt verður um vél snöggvast og flogið til London. Svo skutlast ég á milli flugvalla frá Heathrow til Stanstead með rútu og flýg með Iceexpress til Kef og verð mættur þann 4. sept kl 15:00. Þetta verður örugglega ágætt ferðalag og leggst bara vel í mig fyrir utan það að ég sé fram á að vaka í 30 tíma en það var nú ekki svo erfitt á leiðinni út þannig þetta reddast. Ég verð bara að passa mig á fuglaflensu í KL og passa mig á að enginn planti á mig dópi í Amsterdam og þá er þetta allt í fína :) Löglega get ég svo bætt Malasíu og Hollandi á listann yfir lönd sem ég hef komið til he he.



mánudagur, febrúar 21, 2005

Ég vaknaði í gær og var frekar eirðarlaus og langaði til þess að gera eitthvað skemmtilegt. Ég ákvað því að leigja mér bíl í einn dag og keyra bara eitthvað, engin ákveðin leið, enginn ákveðinn áfangastaður. Það var mjög gott að komast aðeins út og keyra um enda langt síðan ég hafði keyrt síðast. Ég endaði á að keyra niður að ströndinni og svo aftur tilbaka í gegnum staði sem ég hafði aldrei komið til. Í lok dags hafði ég lagt 200 km að baki sem er bara alveg ágætis bíltúr þó svo maður hafi nú ekki farið út fyrir Brisbane. Fjarlægðirnar hérna eru soldið súrrelískar þegar maður pælir í því :)



mánudagur, febrúar 14, 2005

Kjötbökur eru vinsælar hérna í Ástralíu. Það er sagt að það sé ekkert eins ástralskt eins og að fá sér eina kjötböku og horfa á fótboltann. Ég verð að segja fyrir mitt leiti að ég hef fallið fyrir þessari matargerðarlist og var ég að enda við að fá mér steak og bacon böku í morgunmat. Ég er viss um að þetta gæti orðið vinsælt heima, ég sé þetta fyrir mér sem næsta undrið en síðast var það kebab.

Annars er það helst að frétta að á Whitmore st hefur íbúum fjölgað um einn. Það er nú samt aðeins tímabundið en í heimsókn er amerísk stelpa sem er að byrja mastersnámið sitt hérna. Þetta er vinkona Liz og hafði hún samband við mig fyrst fyrir hennar hönd. Henni vantaði stað til að gista á sína fyrstu daga hérna í Brisbane á meðan hún finnur sér húsnæði. Ég veit nákvæmlega í hvaða sporum hún er enda verið í þeim sjálfur og því hef ég tekið það að mér að lóðsa hana hérna um Campusinn svona fyrstu dagana og sýna henni hverfið.

Svo eru þær fréttir helstar að von er á gestum frá Íslandi í apríl en þá ætla pabbi, mamma og jón bróðir að kíkja down under í heimsókn. Ég bíð spenntur þangað til og ef það er einhver séns gætuð þið pakkað niður svo sem einum poka af góðum íslenskum lakkrís og kúlusúkk (lakkrísinn hérna er hræðilegur) :)



laugardagur, febrúar 12, 2005

Ég ætlaði að byrja umræðu um launamun kynjana hérna og var kominn með slatta af efni. Ég var ekki sáttur við það sem ég skrifaði og ákvað að breyta því og þegar ég postaði það aftur þá datt það allt út. Hef eiginlega ekki orku í að skrifa það aftur inn núna, kannski seinna.



fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Jæja loksins kom að því Kalli "Handsome" Bretaprins og Kamilla "Beauty" Bowles eru að fara gifta sig. Gott hjá þeim bara ég vona að þau verði mjög hamingjusöm en ef þau ætla sér að eignast afkvæmi þá vorkenni ég þeim börnum.

Nú með stuttu millibili hafa komið fram á sjónarsviðið tvær merkilega uppgötvanir á sviði kynörvunar kvenna. Sú fyrsta var svokölluð "Orgasmatron" græja en það er lítið tæki sem grætt er í rasskinn konununnar og fínir þræðir sem leiða rafmagn liggja upp í ákveðin svæði í mænunni. Með því að ýta á hnapp þá á konan samstundis að fá fullnægingu. Þetta eru góðar fréttir fyrir karlmenn um heim allan. Fyrir mörgum karlmanninum eru konur flóknar og þeir vita ekki hvaða hnappa þeir eiga að ýta á til þess að hafa þær ánægðar. Nú er þetta einfalt mál, fjarstýring með einum hnappi.....getur ekki brugðist.

Hin uppfinningin er einhverskonar kynörvunar úði, fundin upp af vinum mínum hérna í Ástralíu, sem úðað er á húðina til að fá konuna í gang. Nokkurs konar Viagra fyrir konur mætti segja. En áhugaverðast fannst mér að virka efnið er karlhormónið testósterón. Ég hef nú bara áhyggjur af aukaverkununum ég meina ekki vil ég láta reyna við mig af spólgraðri stelpu með 5 o´clock shadow sem talar eins og James Earl Jones (rödd Svarthöfða).

Annars er þessi dagur í dag, 11. febrúar, merkilegur fyrir þær sakir að nú er nákvæmlega ár liðið síðan ég yfirgaf Ísland.



mánudagur, febrúar 07, 2005

Nú vantar mig einhvern sem er góður í að ráða í drauma. Mig dreymdi nefnilega stórfurðulegan draum í nótt. Venjulega man ég mjög lítið eftir þeim draumum sem mig dreymir eftir að ég vakna á morgnanna en þessi er mér ferskur í minni. Svona var draumurinn:

Ég var staddur í miðri eyðimörk, sandurinn var svartur og teygði sig svo langt sem augað eygði í allar áttir en það voru engar sandöldur bara flatlendi. Himininn var hulinn gráum skýjum og við sjóndeildarhringinn sáust eldingar en það var ekkert hljóð bara þögn. Reyndar var allt í svart hvítu nema eitt sólblóm í fjarska sem var í lit. Þegar ég reyndi að ganga í átt að því þá virtist það fjarlægjast eða vera alltaf í sömu fjarlægð.

Svona var nú þessi draumur, eins og ég sagði mjög undarlegur og grámyglulegur. Ef ég tryði á það að draumar þýddu eitthvað þá væri ég ekki alveg sáttur :) Annars er það helst að frétta að ég hef ákveðið að taka ekki stundakennsluna að mér. Ég held ég hafi bara ekki tíma í það og vil einbeita mér að verkefninu og þessum kúrsi sem ég er í (hef heyrt að það sé mikil vinna tengd honum).


Dream.
Posted by Hello



fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Mikið rosalega var dagurinn í dag hressandi! Eftir þrjá mánuði af algeru letilífi, drykkju og áti þá tók ég heilan dag í dag niðri í skóla og lærði. Venjulega er ég orðinn grútþreyttur klukkan þrjú á daginn og tek mér blund en núna var enginn blundur tekinn og ég er uppfullur af orku. Ég hefði nú aldrei trúað því að eyða deginum í skólanum gæti verið svona hressandi :)

Ég kom heilmiklu í verk bara og svo var það rúsínan í pylsuendanum....mér var boðið starf. Mér var boðið að gerast stundakennari og kenna verklega hlutann í byrjenda GIS kúrsinum hérna í UQ fyrir undergrad (BS nema) og postgrad nemendur (Master og Doktors nema). Ég held að það væri alveg nett gaman, hafði allavega mjög gaman af kennslunni í HÍ, en þetta eru allt að 15 tímar á viku og ég bara veit ekki alveg hvort ég hafi tíma í þetta með lokaverkefninu og kúrsinum sem ég tek næsta misseri. Ég ætla að liggja á þessu um helgina og hugsa málið.

En ég bara held að ég sé kominn á rétt ról, ég nenni ekki að standa í þessu letilífi lengur nú er crunch time næstu 5 mánuði og svo hvíld. Bring it on! :)




This page is powered by Blogger. Isn't yours?