<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, apríl 26, 2005

Mikið hló ég nú um daginn þegar ég sá trailer úr OC þætti næstu viku. Ég hef aldrei horft á þennan þátt (fyrir eitt undantekningar tilvik) enda tel ég hann vera meðal lélegasta sjónvarpsefni sem í boði er í dag (ásamt copy cat þættinum Summerland). Eftir að hafa horft á þennan eina þátt þá gerði ég mér ljóst fyrir að plottið í þættinum yrði það að allir myndu enda á að sofa hjá öllum (mikið drama).

Ég kom því að orði við Robert félaga minn að á endanum yrðu þáttargerðarmenn uppiskroppa með efni þegar þeir væru búnir að láta alla strákana sofa hjá öllum stelpunum og öfugt. Þá kæmi líklega þáttur þar sem stelpurnar myndu byrja að sofa hjá hvor annarri og jafnvel gaurarnir líka. Og hvað haldið þið að ég hafi séð úr trailer fyrir þátt næstu viku? Nú vil ég ekki eyðileggja spennuna fyrir dyggum OC aðdáendum heima en læt ykkur þess í stað engjast um af spenningi (nema að búið sé að sýna þennan ákveðna þátt).

Bið ég heldur um góða glæpaþáttaröð eða grín, CSI er farið að verða dáldið þreytt en skömminni skárri. Desperate housviwes lofar góðu ef þeir falla ekki í þá gryfju að halda þessu endalaust áfram heldur ljúka upp leyndarmálunum sem fyrst. En því miður virðist vera að það sé bara alveg að detta uppfyrir að grín eða glæpir selji lengur (mjög sorgleg þróun). Allir góðu grínþættirnir eru að lognast út af og byrjaði það á Seinfeld, Fraiser, Friends og nú Raymond kallinn.

En jæja ég býst við að það góða við þetta allt saman er að maður horfir þá bara kannski minna á sjónvarp í staðinn í framtíðinni, les frekar kannski bara bók eða fer út hitta vini sína.



laugardagur, apríl 23, 2005

Ástralir eru skemmtilegt fólk með skrítið tungumál. Hér er t.d. hefð að stytta öll nöfn eins mikið og mögulegt er því þannig þarf sem minnst að hafa fyrir því að segja nafnið (hefðbundið atitude hjá Áströlum, að reyna að hafa sem minnst fyrir hlutunum). Sem dæmi um þetta má nefna að nafnið Rebecca er yfirleitt stytt niður í Becky í USA en hérna er enn saxað á nafnið og það stytt niður í Bec.

Annað sem er skemmtilegt við nöfn er að karlmannsnöfn eru oft stytt niður og látin enda á O. Þannig verður Thomas = Tommo, Jack = Jacko, David = Davo, Daniel = Danno o.s.frv. Mitt nafn hefur nú ekki verið stytt og endar nú þegar á O (Bo) þannig ekkert slíkt hefur verið klínt á mig. Ég hef hins vegar fengið á mig nýtt viðurnefni en eins og ég held að ég hafi minnst á áður þá eiga Ástralir það til að klína á fólk viðurnefnum.

Ég gerði nú garðinn frægan hérna þegar ég lýsti gourmet matargerð íslendinga þegar kemur að hákarlskjöti og varð mér á að betrumbæta þá sögu. Hvernig fór ég að því jú þannig var það að mér tókst að álpa því upp úr mér að í gamla daga hefði rauðhært fólk verið notað sem beita til að veiða hákarla. Þetta gerði þvílíka lukku meðal ástralana vina minna að þeir samstundis gáfu mér viðurnefnið "Shark bait" eða bara "Sharky" þar sem þeir vilja stytta allt eins og ég sagði áður. Flott viðurnefni ekki satt, hvenær læri ég eiginlega að halda kjafti? Til að kóróna brandarann hvað haldiði þá að þeir hafi gert? Jú auðvitað gáfu þeir mér hálsmen með hákarlstönn á :) En ha ha mér finnst það bara flott þannig ég ætla að ganga með það!


City folk, Queen Street, Brisbane.
Posted by Hello



þriðjudagur, apríl 19, 2005

Það er gaman að þessu páfakjöri, heilmikil dramatík sem búin er til í kringum þetta þar sem kardínálagreyin eru læst inni og látinn hugsa svo stíft að svartur reykur stígur upp af þeim. Það mun halda áfram þangað til þeir geta hætt að hugsa svona stíft og komist að samkomulagi um nýjan "pába" en þá munu þeir kveikja sér í einhverju aðeins sterkara til að komast í gott skap og nær skaparanum svo upp stígur hvítur reykur. En það er ekkert að því að halda í hefðirnar, það er gaman að hefðum svo framarlega sem þær gera engum mein.

Ég var loksins að klára að lesa bókin "Journey to the Center of the Earth" eftir Júlla Verne. Ekki það að bókin hafi verið mjög löng heldur ég bara latur við að lesa. Þetta var bara alveg ágætasta bók þrátt fyrir að jarðfræðilegt skrúð átti það til að þvælast fyrir manni (eflaust þrælskemmtileg lesning fyrir jarðfræðinga samt). Gaman væri að vita hversu nákvæmur hann Júlli er í þessum skrifum sínum en frá landfræðilegu sjónarhorni þá var hann mjög nákvæmur miðað við að bókin var skrifuð 1870. Til að mynda gistu þeir í Gufunesi á leið sinni út frá Reykjavík á leið til Snæfellsjökuls en þá var það dagsferð að fara upp í Grafarvog úr miðbænum, núna er það ekki nema 6 tímar ef þú ert heppinn með traffík (Sundabrú? hvaða brú? Hvar er sú brú?). En það var gaman að lesa lýsingarnar á landi og þjóð sem þarna komu fram.



miðvikudagur, apríl 13, 2005

Tvö blogg í röð hvað er að gerast hérna hjá mér. Í framhaldi af því sem ég var að skrifa síðast þá fór ég að pæla í snilligáfum. Fólk sem er afburða snjallt á einhverju sviði án þess þó að þurfa að hafa mikið fyrir hlutunum. Eins og t.d. persóna Russel Crowe átti að vera og t.d. eins og Regnmaðurinn sem gat talið alla tannstönglana á gólfinu á sekúndubroti. Þá fór ég að pæla að það gæti nú verið gaman að vera svona "Savant" á einhverju sviði, samt þó án þess að vera fatlaður á öðrum eins og Regnmaðurinn var. Það myndi opna fyrir manni margar dyr að vera svona snjallræðis pési.

En hvað myndi maður þá vilja vera snillingur í að gera? Í augnablikinu vildi ég óska þess að ég væri snillingur í forritun því þá væri ég að brillera hérna í skólanum án mikilla vandræða. Svo þegar ég myndi klára skólann þá myndu allir vilja ráða mig því eins og þið vitið þá er heimurinn gjörsamlega háður tölvum og á bara eftir að verða það meira í framtíðinni. En ef þú pælir í því þá væri það svo sem ekki nógu sniðugt því allar þjóðir heims (og fyrirtæki) myndu líta á þig sem öryggishættu þar sem þú gætir jú krakkað hvaða kerfi sem er. Þú myndir eflaust enda í litlum klefa í kjallara CIA þar sem þú yrðir látinn vinna við að krakka kóða daginn út og inn og fengir ekki að yfirgefa húsið af hættu að þér yrði rænt.

En hvað væri þá gaman að vera í staðinn? Ég held að ég vildi þá frekar vera snillingur á listasviðinu, málari, ljósmyndari, tónlistarmaður eða jafnvel kokkur bara. Það er voðalega sjaldan sem einvher nennir að ræna eða drepa slíka menn (nema þá kannski tónlistarmenn).



þriðjudagur, apríl 12, 2005

Langt síðan ég bloggaði síðast, svo sem ekki mikið nýtt að frétta. Grámyglulegur hversdagsleikinn og námsmannalíf er hundleiðinlegt eftir þvílíkt og annað eins ævintýri. Veðrið hérna í Brisbane er líka búið að vera hundleiðinlegt, kalt (miðað við venjulega) rigning og drungaleg ský.

Í svona leiðinda veðri er best bara að leigja sér vídeó svona til að horfa á þegar maður tekur sér pásu frá lærdóminum. Ég rölti því út á Blockbuster um daginn og greip ég myndina "A beautiful mind" með Russel Crowe. Sú mynd hafði einhvern veginn sloppið framhjá mér þegar hún kom út fyrir nokkru síðan. Bara ágætasta ræma fannst mér og jú Russel lék bara vel, átti óskarinn bara skilið held ég.

En eftir að horfa á myndina þá fór ég svona að pæla (þeir sem ekki hafa séð myndina ættu að hætta að lesa hér). Hvernig er það þegar fólk verður geðveikt eins og hann Russel í myndinni. Hefur það virkilega enga hugmynd um að það sé að verða kú kú? Og þá fór ég að pæla er Robert meðleigjandi minn raunverulegur eða bara hugarburður minn? Og ef út í þá sálma er farið er ég virkilega staddur í Ástralíu en ekki í bólstruðum klefa uppi á Kleppsvegi?

Hvað varstu að segja eitthvað? Nú varstu ekki að tala við mig? Fyrirgefðu.



mánudagur, apríl 04, 2005

Það er víst langt síðan hefur heyrst í mér en ástæðan fyrir því er auðvitað sú að ég var í fríi og skellti mér í siglingu um Whitsunday eyjar. Þetta svæði þarna er alveg stórbrotið og ægifagurt. Þetta er líklega það magnaðasta sem ég hef gert hingað til hérna í Ástralíu það er víst. Ég ætla að segja stuttlega frá því sem ég tók mér fyrir hendur.

Ferðin byrjaði á miðvikudeginum 30. mars og flaug ég til Prosepine frá Brisbane (1 og hálf klst). Frá Prosepine þurfti ég svo að taka rútu til Airlie Beach sem er nokkurskonar inngangurinn til Whitsunday eyja. Þetta er ekki stór bær en mjög túrista sinnaður, ein aðalgata með pöbbum, klúbbum og veitingastöðum......svona majorka fílingur í þessu en samt vinalega lítill bær. Ég gisti í bakpoka plássi þarna í bænum og hitti þar allra þjóða kvikindi, mest þó breta og ameríkana og verð ég að segja að bretarnir eru nú skemmtilegri.

Ég átti svo að sigla út með bátnum sem ég var búinn að bóka ferð með næsta dag en þegar ég mæti svo næsta dag niður á höfn þá er mér sagt að það sé komið babb í bátinn .......bókstaflega. Báturinn bilaður og mér sagt að hann leggi ekki út fyrr en á morgun. Sem betur fer þá hafði ég nokkra aukadaga þannig það var ekkert mál að hliðra til gistingunni. Um kvöldið var því bara slett ærlega úr klaufunum og lærði ég fimm nýja drykkjuleiki ,sem ég þarf að flytja með mér heim, og kíkti á alla helstu pöbbana í bænum.

Næsta dag var ég nú svona hálfþunnur en samt ekkert alvarlega og var ég betur staddur en margir um borð sem höfðu fylgt sama plani og ég kvöldið áður nema voru svo óheppnir að hafa ekki sama stálmaga og ég ;) Það var nokkuð mikið vagg og velt fyrsta daginn enda dáldill vindur og jafnvel smá rigning. En það rættist nú úr því og kíktum við fyrsta daginn í göngutúr á einni eyjunni þar sem við sáum m.a. helli með frumbyggja list. Um nóttina var svo gist um borð í bátnum og séð var fyrir kvöldverði, ágætis kjúklingakarríréttur með hrísgrjónum, og svo var sungið, drukkið undir stjörnubjörtum himninum.

Næsta dag var farið á stærstu eyjuna í eyjaklasanum og kíkt á strönd sem var kosinn fallegasta strönd í heimi árið 2004 (að sögn leiðsögumanna :). Ég er ekki frá því að þetta sé fallegasta strönd í heimi. Ég hef allavega aldrei séð annað eins á minni ævi áður (ég set inn myndir fljótlega). Allur þessi hvíti sandur og inn á milli grænblá lón með skötum, litlum hákörlum og allskonar kröbbum. Þarna eyddum við dágóðum tíma þar sem ég fékk mér göngutúr, synti í briminu og skoðaði dýralífið í lónunum.

Næst var siglt áfram á afvikinn stað þar sem fólk skellti sér í sjóinn og snorklaði. Ég hélt að snorklið á Kúbu hefði verið nokkuð gott en þetta skaut það í kaf. Hundruðir tegunda af kórölum í öllum regnbogans litum. Fiskar stórir og smáir og svo sá maður nokkrar skjaldbökur. Mér er sagt að þetta svæði komist næst því að vera líkt og rifið mikla (er reyndar hluti af því tæknilega) en það er víst enn betra fyrir norðan (og hlakka ég til að kíkja þangað eftir skólann :).

Fyrir utan þetta var svo bara siglt, slappað af og notið þess að vera til. Ég ætla nú ekki að hafa þetta mikið lengra í bili svo reyni ég að koma þessum myndum inn sem fyrst.


Witsunday sky, Queensland.
Posted by Hello



This page is powered by Blogger. Isn't yours?