<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, maí 27, 2005

Fór á fund með umsjónarkennara mínum í dag til að ræða fyrstu þrjá kaflana (inngang, fræðin og efni/aðferðafræði) og það gekk líka svona rosalega vel. Hann var bara hæst ánægður með hvern staf hjá mér og vildi engu breyta. Það var því mikill léttir hjá mér í dag því ég bjóst við hinu versta enda gerir þessi kennari miklar kröfur til verkefna hef ég heyrt.

Ég ákvað því að verðlauna sjálfan mig smávegis. Ég hef gert það að vana mínum í gegnum árin að verðlauna sjálfan mig soldið ef ég lýk einhverju og þannig held ég sjálfum mér við efnið. Þessi aðferð virðist virka ágætlega en trikkið er að vera nógu agaður til að grípa ekki gulrótina áður en maður er búinn. Það getur verið erfitt sérstaklega ef þú situr beggja vegna borðsins.

En ég sem sagt fór og fékk mér hammara með beikoni og osti í hádegismat og keypti mér tvör ný pör af skóm. Mig var farið að skorta skófatnað þar sem skórnir sem ég kom í hérna um árið eru eiginlega búnir að bræða úr sér. Auk þess gerði ég líka kostakjör því bæði þessi pör af skóm kostuðu ekki nema samtals 3000 ísl kr þannig ég verð vel skóaður þegar ég kem aftur heim til PrIcelands, dýrasta skófatnaðarsvæði Evrópu skv. mbl.is.



þriðjudagur, maí 24, 2005

Ég fór á mánudaginn að sjá nýjustu Star Wars myndina og var bara nokkuð ánægður með hana. Mér finnst samt alltaf gömlu myndirnar einhvern veginn betri, ég veit ekki alveg hvað það er en þessar nýju eru einhvern veginn ekki alveg eins raunverulegar ef raunveruleika má kalla þetta er náttúrulega allt hugarburður.

Ég fór líka út í fenjaskógana hérna í síðustu viku til að safna sýnum fyrir verkefnið mitt, var að ná í laufblöð til að mæla blaðgrænu. Við fengum líka þetta fína veður og það var gaman að ösla um í sjónum og drullunni svona til tilbreytingar. Það er eitt að sitja inni og lesa um hlutina eða skoða gervitunglamyndir en annað að komast út og gera eitthvað, "get your hands dirty" eða í mínu tilviki fæturna.

Komst reyndar illilega að því að ég gæti aldrei búið í frumskóginum þar sem ég áttaði mig á því að ég er með ofnæmi fyrir moskítuflugnabiti. Ég var bitinn þrisvar á vinstri hendinni og hún tútnaði út eins og upplásin blaðra og ég gat ekki sofið um nóttina vegna kláða. En þetta var nú samt áhugavert og meðal annars þurfti ég að taka skemmtilegar myndir með fyndinni linsu svokallaðri fish eye linsu. Út frá þessum myndum þarf ég svo að reikna út hversu gisin gróðurkrónan er. Ég læt þetta gott í bili og hendi hér með inn einni af þessum myndum sem ég tók.


Luggage Point Mangroves, Queensland.
Posted by Hello



fimmtudagur, maí 19, 2005

Jæja þið eigið nú aldrei eftir að trúa því sem ég ætla að segja ykkur núna. Það er 5cm jafnfallinn snjór hérna fyrir utan húsið mitt!!! Ég hef nú aldrei upplifað annað eins. Ég var niðri í skóla fyrir klukkutíma þegar þetta rosalega þrumuveður gekk yfir. Þegar storminum slotaði og ég fór út fann ég að hitastigið hafði fallið um helling þar sem það kom frost móða þegar ég andaði. En það var nú engan snjó að sjá bara bleyta þannig ég hoppa upp í strætó og þegar ég er kominn í götuna mína þá sé ég hvar það er snjór út um allt (svona haglélsnjór blanda). Það voru allir komnir út að taka myndir og leika sér í snjónum enda fæstir séð svona á ævi sinni áður. Mér fannst þetta líka stórmerkilegt og vissi að enginn myndi trúa mér þannig ég náði í myndavélina og smellti af nokkrum myndum, þær eru komnar á netið Belive it or not!!!

Það er allt að fyllast af fólki hérna fyrir utan og ég sé allavega einn fréttabíl. Ég ætti kannski að fara út og láta taka viðtal við mig sem sérfræðinginn frá Íslandi eins og Sigurbjörn stakk upp á.

En þetta var nú gaman, ég hef ekki séð snjó í eitt ár og þrjá mánuði, svona smá taste of home.


Snow in subtropical Brisbane, Queensland.
Posted by Hello



mánudagur, maí 16, 2005

Ég var að horfa aðeins á morgunsjónvarpið hérna áðan, þar var kona að tala um líkamsímynd kvenna. Hún vildi meina að fólk þyrfti að hætta að gera þær kröfur til kvenna að þær væru allar grannar og fallegar. Allar konur væru fallegar á sinn hátt og þær ættu ekki að þurfa að falla undir neina staðalímynd.

Næst var hún svo spurð hvort hún ætlaði að horfa á Star Wars en hún sagði að hún myndi frekar vilja stinga sig í augað með gaffli. Það sem hún sagði svo næst á eftir kom mér mjög á óvart miðað við það sem hún hafði rætt áður. Þessa blessaða kona sem vildi ekki að konur væru staðlaðar sagði með þvílíkum vanþóknunartón að Star Wars væri fyrir karlkyns lúða og hún var ekki að grínast. Hvernig væri nú að hlusta á eigin boðskap og hætta að staðla fólk vinan?



sunnudagur, maí 15, 2005

Héðan er mest lítið að frétta eða eins og þeir segja "Same old sh*t different day". Er bara á fullu að reyna að koma verkefninu áfram. Afskaplega leiðinleg vinna að lesa allar þessar greinar og svo ná kannski að skrifa eina málsgrein út úr efni þeirra. Manni finnst eins og þetta gangi ekkert áfram og tíminn flýgur frá manni. En ég er sem betur fer að verða búinn að skrifa innganginn og fræðilega hlutann og þá þarf bara að skrifa niðurstöður og túlkun. Svo er ég reyndar að fara út á miðvikudaginn að böðlast um skóginn og taka sýni fyrir verkefnið mitt, svona til að sjá hversu vel fræðin eiga við raunveruleikann. Það verður gott að komast aðeins út í náttúruna enda búinn að kúldrast hérna inni í langan tíma, það er svo mikið pappírsflóð hérna inni í herberginu mínu að það sér varla í teppið hjá mér. Þegar ég er búinn að klára þá ætla ég að opna glugga og redda mér svona laufblásara og bara blása þessu dóti út.

Ég er farinn að hlakka mikið til loka júní því þá er hann Sigurbjörn félagi að mæta á svæðið og við ætlum að leigja okkur svona húsbíl og keyra norður með ströndinni alla leið upp til Cairns sem er lengst uppi í hitabeltinu. Þetta eru cirka 1800 km en við höfum nú 8-9 daga í þetta og ýmislegt hægt að skoða á leiðinni. Frá Cairns ætlum við svo að fljúga niður til Sydney, klifra á brúnni eins og apar og hafa það gott í nokkra daga. Fyrir rest verður svo flogið aftur til Brisbane þar sem 5 dagar verða teknir í styttri skoðunarferðir hérna í kring, kíkt á ströndina og kíkt út á lífið.

Svo er það útskrift 22. júlí, þarf að losa íbúðina þann 26. og flyt þá væntanlega inn á vinkonu mína hérna og svo er óákveðið hvað verður gert. Mig langar að kíkja inn í eyðimörkina og líka til Melbourne. Við sjáum hvað setur og hvað fjárhagurinn segir ;)

En það er best að halda áfram að bulla í verkefninu. Hafið það gott á Klakanum nú fer að styttast í það að maður snúi heim úr útlegðinni, tíminn líður allt of hratt og þá á ég auðvitað við út frá verkefninu séð, ég er farinn að hlakka til að koma heim sko :).



fimmtudagur, maí 05, 2005

Þau gleðilegu tíðindi áttu sér stað í dag að ég fékk fyrstu niðurstöður út úr lokaverkefninu mínu. Ég skellti þeim upp í kort eins og góðum landfræðingi sæmir, kortið er þó heldur slorlegt og ekki samkvæmt venjum eða stöðlum enda unnið á hlaupum nánast (var að missa af strætó). En allavega það sýnir rannsóknarsvæðið mitt, Luggage point (svo nefnt því það er við endan á flugbraut Brisbane int airport). Eftir því sem liturinn verður rauðari þeim mun heilbrigðari á gróðurinn að vera. Á eftir að fara í næstu viku og bera niðurstöðurnar saman við það sem er þarna í raun og veru.

En sem sagt þetta er allt á réttri leið þó að ég verði að segja það að ég er orðinn soldið tæpur á tíma með þetta vegna vesens með að fá gögn. En þetta reddast allt saman er það ekki?


Luggage Point, Brisbane QLD.
Posted by Hello



This page is powered by Blogger. Isn't yours?