<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, júní 25, 2005

Það styttist óðum í ferðalagið mikla, Sigurbjörn kemur í fyrramálið og á mánudaginn leggjum við í 1800 km langt road trip norður með austurströnd Ástralíu. Ég get varla beðið þetta, á eftir að verða mergjað ferðalag.

Ég setti inn kort af áætluðu ferðalagi, bláa línan er leiðin sem við keyrum og gulu línurnar eru leiðir sem við fljúgum. Smellið á myndina til að sjá stærri og skýrari útgáfu. Við tökum 9 daga í að keyra upp til Cairns og skoða regnskógana þar og svo kafa við Rifið Mikla. Á leiðinni verður svo stoppað á ýmsum stöðum, t.d. er stefnan að fara í skoðunarferð djúpt í iður jarðar og sjá hvar eðalsteinar eins og ópalar og demantar eru grafnir upp.

Eftir keyrsluna fljúgum við svo til Sydney, við höfum 4 daga til að skoða okkur um og kíkja út fyrir borgina, t.d. upp í Bláfjöll he he (Blue Montains). Nafngiftin er nú samt önnur en hjá hinum íslensku nöfnum þeirra. Á kvöldin liggur víst blátt mistur yfir dölunum þar sem sólin hitar eucalyptus tréin á daginn sem leiðir til þess að euacalyptus olían í laufunum gufar upp og liggur yfir fjöllunum.

Loks verður svo flogið aftur til Brisbane þar sem tíminn verður notaður í að skoða allt það sem í boði er hér, eða allavega brota af því þar sem það er svo hrikalega mikið að sjá hérna í kring.

Við reynum eftir fremsta megni að setja inn fregnir á leiðinni og jafnvel eina og eina mynd. Svo verður eflaust raulað mikið hið víðfræga ástralska dægurlag "Down Under", maður fær sko aldrei leið á því.

"Travelling in a fried out combie, on a hippy trail head full of zombie. I met a strange lady she made me nervous, she took me in and gave me breakfast..and she said .....Do you come from a land down under......................."


Australia trip 2005.
Posted by Hello



miðvikudagur, júní 22, 2005

Loksins, loksins....ég er búinn með ritgerðina en ég fer á morgun, prenta hana út og skila henni. Ég verð ekki fullkomlega frjáls einhvern veginn fyrr en það er búið og gert.

Annars brá mér nú í brún um daginn þegar ég komst að því að fræg tennsidrottningin er reykingamaður. Kannski að hún sé að reyna að breyta ímynd sinni úr saklausri tennisprinsessu í goth pönkara hægt og rólega. Við skulum sjá hvort hún spili næstu leiki með sígó í munnvikinu.


Smoking hot!?
Posted by Hello



laugardagur, júní 18, 2005

Gærdagurinn var merkilegur fyrir ýmsar sakir, í fyrsta lagi var t.d. þjóðhátíðardagur Íslendinga, húrra! og í öðru lagi þá kláraði ég fyrsta og eina prófið mitt á þessu misseri og kannski það sem eftir er.

Það gekk bara ágætlega held ég en annars var þetta svona próf þar sem þú getur ekki verið 100% viss fyrr en einkuninn er komin í hús. Núna er svo bara framundan að rúlla upp ritgerðinni og skila henni inn sem fyrst.



mánudagur, júní 06, 2005

Það er mikill léttir að vera búinn að klára fyrstu útgáfuna af lokaverkefninu mínu. Ég býst ekki við að ég þurfi að endurskrifa mikið eftir að umsjónarkennarinn minn hefur lesið það yfir......vonandi. Ég vandaði mig eins mikið og ég gat og kláraði alla lausa enda þannig að þegar ég fæ þetta aftur í hendurnar þá verð ég snöggur að laga það sem þarf að laga og prenta þetta út og segja búið og bless. Allt í allt geri ég því ráð fyrir að það séu ekki nema u.þ.b. 11 dagar eftir af þessu námi. Magnað hvað þetta er búið að vera fljótt að líða.

Fyrir utan fréttir af náminu er ekki mikið að segja svo sem, hlustaði á nýju plötuna með Coldplay í gærdag. Ég verð að segja það að ég varð fyrir svolitlum vonbrigðum með hana. Hlustaði nú ekki mjög gaumgæfilega þar sem ég var staddur í plötubúð og svona hlustaði á brot og brot úr öllum lögunum. Mér finnst þessi plata bara allt of róleg eitthvað, held að það hafi haft slæm áhrif á tónlist þeirra félaga að Chris Martin skyldi hafa fundið ástina og eignast krakka. Við sjáum til ég hlusta á hana aftur síðar og þá kannski betur, kannski batnar hún eftir því sem maður hlustar meira. Ég man að þannig var það með hinar tvær plöturnar þeirra.



This page is powered by Blogger. Isn't yours?