<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Jæja nú er allt farið að smella saman fyrir brottför, búinn að ganga frá öllum lausum endum og búinn að kveðja vinina. Ég veit ekki hvenær ég sé þau aftur en það verður örugglega einhvern tímann í framtíðinni. Nú hefur maður sambönd víðsvegar um heim þannig það verður auðveldara og skemmtilegra að ferðast ef maður getur stoppað við hjá einhverjum sem maður þekkir og hefur þekkingu á svæðinu sem maður er að ferðast um.

Ferðaplanið fyrir flugið heim er nokkuð stíft ég flýg til Kuala Lumpur í Malasíu með Malaysian airlines sem eru 8 tímar í flug. Í KL hef ég 17 tíma til að drepa en ég er ekki viss um hvað ég geri, kannski skrepp ég með lest inn í borgina en ég hef grun um að ég verði nokkuð þreyttur þannig ég tek með mér Da Vinci lykilinn til að lesa.

Eftir KL flýg ég svo með KLM til Amsterdam en það er 12 tíma flug. Ég hef áhyggjur af því flugi því ég held að KLM sé ekki með nærri því eins góða þjónustu um borð eins og þessi asísku flugfélög. Frá Amsterdam er það svo stutt 40 mín flug til London og svo frá London til Keflavíkur tæpir 3 tímar. Sem sagt ansi mikið flogið á stuttum tíma en það verður bara þeim mun betra að komast heim og komast í rúmið.



mánudagur, ágúst 22, 2005

Ég prófaði litbolta eða paintball í gær. Í dag er ég með 6 stóra marbletti víðsvegar um líkamann auk þess að vera með harðsperrur í lærunum. En þetta var svo sannarlega þess virði, þetta var spennandi og hraður leikur. En ég verð að segja að ég gæti ekki ímyndað mér að vera í alvöru stríði. Nógu taugatrekkjandi var það að liggja á grúfu ofan í skurði og láta mold og málningu rigna yfir sig, þora ekki að líta upp þar sem maður gæti átt á hættu að fá litakúlu beint milli augnanna. Það hlýtur að vera ógnvekjandi þegar alvöru kúlur rigna yfir mann og maður getur ekki byrjað upp á nýtt þegar búið er að skjóta mann.



föstudagur, ágúst 19, 2005

Það fer að styttast í brottför frá Oz þannig ég ákvað að drífa mig í að pakka niður dóti í kassa sem ég sendi svo heim. Ég var með rétt tæp 20kg af dóti sem ég sendi, mest bækur eða gögn frá skólanum. Fyndið hvernig tilvera manns síðasta eitt og hálfa árið passar nú allt í einu í tvo littla kassa og eina ferðatösku. En það er fínt enda er ekkert verra en að sanka að sér drasli sem maður þerf ekkert að nota síðar.

Ég tek ferðatöskuna og fartölvuna með mér í vélina eins og þegar ég kom og svo sendi ég kassanna með skipi til Íslands. Tekur reyndar þrjá mánuði segja þeir en þetta var ódýrt þannig séð og það er ekkert í þessum kössum sem mig bráðvantar held ég............. hvar setti ég nú aftur flugmiðann og vegabréfið hmmm?



sunnudagur, ágúst 14, 2005

Ég er mættur aftur í siðmenninguna eftir ágæta útlegð á Great Keppel Island. Ég flaug á þriðjudaginn til Rockhampton þar sem ég gisti eina nótt áður en ég hélt áleiðis með rútu og svo ferju til eyjunnar. Rockhampton er skemmtilega skrítinn bær sem ég hélt að ég myndi ekki koma aftur til eftir að ég fór þar um í júlí. Þarna snýst allt um nautakjöt, það eru meira segja beljur á flugvellinum (innan girðingar þó). Ég fékk mér því aftur nautasteik í kvöldmatinn á sama stað og síðast þegar ég var þarna og í þetta sinn var steikin betri hjá þeim. Hitti þar fyrir þýskar systur sem ég þekkti frá hostelinu þar sem ég hafði skráð mig inn fyrr um daginn og sátum við fram eftir kvöldi yfir steik, bjór og umræðum um Ástralíu.

Næsta morgun tók ég svo rútu til Yepoon, sem er strandbær um 50km frá Rockhampton, til þess að taka ferjuna yfir til eyjarinnar. Ferjan er nokkuð snögg yfir, tekur 30 mín u.þ.b. og hitti ég þar fyrir breskt par sem var að fara á sama hostel og ég á eynni. Um leið og maður var búinn að skrá sig inn á hostelið var farið í göngutúr á næstu strönd þar sem var svo snorklað. Kórallinn við eyjuna var ekki nærri því eins mikilfenglegur og sá sem ég hafði séð þegar ég kafaði við Rifið Mikla en nóg var um fiska þannig þetta var bara alveg ágætt. Sleginn var botn í daginn með því að kíkja aðeins á barinn að fá sér bjór og eftir allt fiskaglápið um daginn þá haðfi ég lyst á "fish n chips".

Fimmtudagurinn var snilld, sól, logn og 27 stiga hiti. Alveg fullkomið veður fyrir að liggja í leti á ströndinni og kæla sig aðeins í 22 stiga heitum sjónum með því að fara að snorkla. Ég leigði mér ekki blautbúning eins og margir gerðu þar sem sjórinn var nokkuð kaldur. Um leið og maður lét sig gossa út þá var maður fljótur að aðlagast og svo gat maður verið 40 mínútur að leika sér áður en maður þurfti að synda aftur upp á strönd og láta sólina ylja sér.

Föstudagurinn var ekki eins góður, þegar ég vaknaði var skýjað og smá rigning. Ég ákvað því að fara í könnunarleiðangur um eyjuna. Ég setti stefnuna á Wreck beach sem er hinu megin á eynni, 7 km frá næsta byggða bóli. Gangan var nokkuð strembin en skemmtileg og eyjan mjög falleg. Þegar ég svo kom til Wreck beach þá hafði ég þessa risaströnd alveg fyrir sjálfan mig, ekki sála í 7km radíus við mann og alveg magnað. Það byrjaði hins vegar að rigna hressilega því miður og ég þurfti því að ganga til baka í ausandi rigningu og það sem verra var að stígarnir sem ég þurfti að fylgja voru nógu slæmir fyrir en breyttust í læki núna og leirinn og leðjan gerði það næstum ómögulegt að standa í lappirnar. Ég þurfti eiginlega að búa mér til tvo göngustafi sem ég rak svo niður í leðjuna reglulega til að geta staðið í lappirnar upp erfiðustu kaflana. Ég kom því heldur blautur og kaldur til baka en þetta var nú samt alveg þess virði.

Laugardeginum var svo eytt í að komast aftur til Brisbane. Nú er bara verið að plana hverja á að hitta og hvenær áður en maður flýgur héðan. Svo margir sem maður þarf að kveðja og tíminn er farinn að líða hratt.


Wreck beach, Great Keppel Island, Qld.
Posted by Picasa



fimmtudagur, ágúst 04, 2005

Ferðaplanið hjá mér hefur breyst, ég ætlaði að fara inn í miðjuna og kíkja á eyðimörkina en það hefur reynst erfiðara gert en sagt. Í fyrsta lagi eru flestar ferðirnar sem ég var að skoða uppbókaðar og í öðru lagi er verðið á fluginu svimandi hátt (miðað við annað flug).

Ég ákvað því að breyta áætluninni og fara frekar norður í hitabeltið og á ströndina. Ég er því búinn að bóka flug til Rockhampton og svo 3 daga ferð til Great Keppel Island þar sem dögunum verður eytt í gönguferðir, snorkl og sólböð (ég bara fæ ekki nóg af þessu :). Jón bróðir og fjölskylda fóru einmitt þangað þegar þau voru hérna og létu vel af þannig ég held að þetta verði bara nokkuð gott. Ég kíki bara á eyðimörkina þegar ég kem aftur hingað ;)

Mynd dagsins er svo að sjálfsögðu frá Great Keppel Island en henni stal ég frá Jóni bróður, takk fyrir það.


Great Keppel Island, Queensland.
Posted by Picasa



This page is powered by Blogger. Isn't yours?