<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, september 20, 2005

Kæru vinir og vandamenn ég hef tekið þá ákvörðun að hætta að blogga hér á bloggsíðunni. Þessa ákvörðun tek ég í ljósi þess að í fyrsta lagi er ég ekki lengur í undralandinu Oz og í öðru lagi þá hef ég ekki löngun til þess lengur. Ég vil frekar hætta að blogga núna í stað þess að enda sem aflóga bloggari sem hefur ekkert að segja. Bloggari sem uppfærir síðuna kannski einu sinni í mánuði lesendum sínum til ómældrar gremju.

Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim sem kíktu á síðuna hjá mér. Ég hafði mjög gaman af því að fá athugasemdir, kveðjur og heillóskir frá ykkur og ég þakka bara kærlega fyrir mig.

Og svo ég vitni nú í lokin í Hemma Gunn, bless bless og ekkert stress!!



miðvikudagur, september 07, 2005

Nú þarf ég víst að fara að breyta titlinum á blogginu mínu þar sem ég er kominn heim til Íslands. Við fyrstu umhugsun þá datt mér í hug "Bloggað frá Is". Svo er aldrei að vita nema maður leggi bara bloggsíðunni. Nettengingin hérna er nú ekkert rosalega hröð né góð enda bara gamla góða 56k módemið og símalínan sem sjá um að senda rafrausið úr mér út í hinn stóra heim.

En já ég mætti sem sagt á Klakann nokkrum dögum fyrr en ég hafði sagt vinum og vandamönnum þar sem mig langaði að koma fjölskyldunni á óvart. Ég hafði planað að kíkja heim til mömmu og pabba og hringja úr gsm síma rétt áður en ég kæmi að útidyrahurðinni og segjast vera að leggja af stað frá Oz. Þegar ég bankaði svo upp á útidyrahurðina og mútta opnaði og stóð með símann í hönd þá var það alveg priceless svipur á henni þar sem hún hélt að hún væri að tala við mig í Ástralíu.

Annars hef ég bara verið að venjast því að vera kominn heim aftur, það er kalt, það er dýrt og það er bjart langt fram eftir kvöldi sem ég er ekki vanur. En þetta er nú fljótt að koma og það er gott að vera kominn heim þrátt fyrir allt þetta. Svo hef ég líka verið að hitta vini og kunningja og ef ég hef ekki ennþá kíkt í heimsókn til þín lesandi góður þá hlýtur nú samt að fara að styttast í það. Ég er líka byrjaður að vinna í vinnumálum og fer að demba mér í þetta af fullum krafti á næstu dögum. Ég vona að það gangi nú allt saman vel og að óskum og fyrsti staðurinn sem ég reyni á bara ráði mig á staðnum því þá þarf ég ekki að hugsa um þetta frekar :)



This page is powered by Blogger. Isn't yours?