<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Morguninn er uppáhaldstíminn minn hérna í vinnunni. Ég reyni alltaf að mæta eldsnemma eða kl 7:30 á hverjum degi. Það er ekki sála á ferli og allt hljótt og rólegt, ég á pleisið yfirleitt þangað til kl 8:30 þegar samstarfsfólk mitt byrjar að mæta. Ég er ekki að segja að mér leiðist það, þvert á móti hef ég mjög gaman að því en það er ágætt finnst mér að geta unnið í smá ró og næði af og til (þó reyndar sé ég að blogga núna :).

Annar kostur við að mæta svona snemma er að ég get hætt fyrr á daginn ef ég hef áhuga á því eða nælt mér í smá stubb (yfirvinnu) án þess að þurfa að vera til kl 18:00 að því. Satt er því hið fornkveðna "Morgunstund gefur gull í mund" eða líka stundum pening á bankareikninginn.



mánudagur, nóvember 20, 2006

Hó hó hó eru komin jól.....nei en það er orðið mjög jólalegt úti um að litast. Allur þessi snjór minnir mig á það þegar ég var gutti og hafði gaman að því að búa til snjókalla, snjóhús og fara í snjóboltastríð. Ef ég á að segja ykkur satt þá þykir mér þetta allt saman ennþá gaman og kannski ég laumist í það að búa til svo sem einn snjókarl við tækifæri :)

En ekki voru nú allir jafn sáttir við snjókomuna, fólkið á djamminu niðri í bæ á laugardagskvöldið voru t.d. ekki mjög hress. Skiljanlegt þegar þú ert búinn að standa 1 klst í leigubílaröðinni á kafi í snjó og svo hætta leigubílarnir að ganga. Ég var sem betur fer ekki einn af þeim en festist samt sem áður niðri í bæ en hafði þó til allrar hamingju í hús að venda.

En ég vona samt að þetta haldist eitthvað áfram til þess að lýsa upp skammdegið fyrir okkur. Svo væri ég líka til í að fara að sjá fleiri jólaljós og seríur á trjám og húsum. Mér þykir það í fínasta lagi að byrja á því til að lýsa upp í kringum sig en jólalögin mega aðeins bíða sjáið þið til.



sunnudagur, nóvember 12, 2006

Jæja þetta var alveg ágæt árshátíð, vantaði samt aðeins meira fólk í mínum aldurshópi. Við vorum þrjú þarna á svipuðum aldri og hitti hún Vaka vinkona mín naglann á höfuðið þegar hún sagði að sér liði eins og litla krakkanum við borðið með öllu hina fullorðna fólkinu. Í kjölfarið fórum við að svipast um eftir krakkahorninu og var það barinn :)

En alveg ágæt árshátíð samt sem áður og skemmti ég mér vel. Ég var nú hluti af einu skemmtiatriðinu sem gekk út á að blekkja áhorfendur soldið og sjokkera. Fyrr um kvöldið hafði ég fengið skyrtu afhenta frá veislustjóranum sem ég fór svo í. Síðan átti ég að bjóða mig fram sem sjálfboðaliða þegar veislustjórinn bað um aðstoð. Síðan snérist atriðið um það að hún væri búin að finna nýja leið til að losna við það að strauja skyrtur. Það fólst í því að hún byrjaði að klippa alla skyrtuna utan af mér en skyldi eftir hálskragann og smá bút að framan ásamt fremst af ermunum. Svo fór ég aftur í jakkafatajakkann og það leit alveg eins út og ég væri bara í þessari fínu skyrtu en þryfti svo ekkert að hafa áhyggjur af straujun. Fólk var allt kvöldið að sjokkerast á þessu og spyrja mig hvort skyrtan hefði nokkuð verið dýr eða hvort ég fengi aðra :)

Eftir árshátíðina var gert mjööög stutt stopp á hestamannaballinu sem haldið var á sama stað. Eins og sönnu hestamannaballi sæmir þá var löggan þegar mætt á svæðið með herafla og því drifum við okkur bara niður í bæ. En ég man núna hvað það er ömurlegt að reyna að koma sér aftur úr bænum um helgar. Veðrið var frekar leiðinlegt, kalt og rigningarsuddi og leigubílaröðin niðri á lækjartorgi var allt of löng og gekk allt of hægt. Var einhvern klukkutíma að bíða eftir leigubíl og var orðið drullukalt og blautt á hausnum. Skil ekki af hverju borgin byggir ekki aðeins stærra skýli yfir þessa blessuðu röð, það væri nú ekki mikið mál.



föstudagur, nóvember 10, 2006

Jæja nú hefur veturinn heldur betur minnt á sig, bara vont veður og snjókoma úti. Ég rétt náði að komast heim áður en færðin versnaði sem er gott því bíllinn hjá mér er á hrikalega lélegum dekkjum. En allavega það er vetrarlegt úti þó að snjórinn sé ekki mikill þá er kalt og rok og él, tilvalið að til að slappa af heima. Hef ég því leigt mér góða mynd og ætla að elda mér eina góða pizzu í kvöldmat og hafa það náðugt.

Á morgun er svo tími til að kíkja út því þá er sameigninleg árshátíð Orkustofnunar og ÍSOR sem haldin er á Broadway. Það er víst metþátttaka og er ég ánægður með það enda finnst mér þetta góður tími til að byrja að kynnast nýjum samstarfsfélögum. En það eru einmitt breytingarnar í vinnunni sem ég minntist á áður hérna á blogginu. Vatnamælingar Orkustofnunar eru að renna saman við ÍSOR og verða því hluti af þeim og þar með hlutafélag í ríkiseigu sem væntanlega er stefnt á að verði í einkaeigu einhvern tímann síðar. Ég held bara að þetta verði gott mál.

Ég hef verið að uppgötva betur hvað hljómsveitin Metallica er eðal þungamálms grúppa. Það eru lög þarna sem eru bara í sannleika sagt algert eyrnakonfekt sem hæglega er hægt að verða háður. Þetta myndi ég segja að væru fimm uppáhaldslögin mín með þeim en enn er nóg eftir að hlusta á þannig þetta getur breyst:

1. Enter Sandman
2. No leaf clover
3. One
4. Die, die, die my darling
5. I disappear

Góða helgi og lifi málmurinn!!


Flottir
Posted by Picasa



sunnudagur, nóvember 05, 2006

Mikið rosalega er dagurinn í dag búinn að vera ömurlegur dagur, ömurlegt veður og leiðindi.

Ég er að hugsa um að skella mér út í spákonu bransann. Fyrir nokkru dreymdi mig draum og í dag rættist hann. Því miður var þetta ekki góður draumur ég ætla að reyna að einbeita mér að láta góðu draumana rætast í framtíðinni (sem ég ætti nú að geta séð fyrir).



This page is powered by Blogger. Isn't yours?