<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, janúar 31, 2007

Ég fór út í gær og kíkti á leikinn og fékk mér bjór. Þetta var ótrúlega spennandi leikur en að venju elti óheppnin okkur og hvernig Loga tókst að senda beint á Dani í lok fyrri framlengingar er með öllu óskiljanlegt. En svona fór það og þá er það bara að stefna á 5ta sæti.

Ég gerði aftur þau mistök að prófa grænmetisfæði í hádeginu í dag, brokkolíbuff (sá samt ekkert brokkolí í því) og það var jafnvel verra en kjúklingabaunabuffið. Ég elska mat og mér þykir gott að borða en og ef ég þyrfti að lifa á grænmetisfæði þá myndi ég tjúllast.

Er að spá í að elda mér djúsí steik í kvöld með smjörsteiktum sveppum og brokkolí mmmm.



miðvikudagur, janúar 24, 2007

Mig langar að tala um hraðkassana í matvöruverslununum, þessa sem yfirleitt eru merktir skýrt og greinilega "hámark 10 hlutir!". Nú fór ég í Hagkaup í hádeginu í dag til að kaupa mér hádegismat og var með einn hlut og langaði að drífa mig með hann aftur upp í vinnu til þess að njóta matarins. Fór því á hraðkassann sem var opinn en á undan mér var sem sagt annar kúnni og þegar hann fór að týna upp úr körfunni sinni kom í ljós að hann var með mun fleiri hluti en 10.

Ég hef látið þetta fara í taugarnar á mér lengi en aldrei sagt neitt fyrr en núna að ég spurði afgreiðsludömuna hátt og skýrt svo manngarmurinn heyrði "Hvernig er það hérna er ekkert að marka regluna um hámark 10 hluti á hraðkassanum". Svar hennar var "ja jú en sumir fara bara ekki eftir reglunum", er það ekki ykkar að framfylgja þeim spurði ég á móti og þá var fátt um svör. Gaurinn sem var á undan mér reyndi að vera eitthvað fyndinn og með einhverja stæla en ég sagði honum bara að reyna að álpast á réttan kassa næst. En allavega ég er ánægður með að hafa sagt eitthvað og þeir sem voru á eftir mér létu líka í sér heyra sem var gott.

Annars fékk ég sendar ótrúlega flottar myndir af bænum Versoix í Sviss þar sem hann er í klakaböndum. Þessar myndir hafa verið að ganga og er ein þeirra hérna fyrir neðan, alveg magnað.



En allavega þessar myndir gáfu mér innblástur að lítilli skrítlu sem ég teiknaði svo í stíl Hugleiks Dagssonar og er hún hér fyrir neðan :)




þriðjudagur, janúar 23, 2007

Minnisblað til sjálfs míns:

Kjúklingabaunabuff eru bragðverri heldur en þig grunaði, forðist í framtíðinni nema ef einhver alvöru kjúklingur er í buffinu.



þriðjudagur, janúar 16, 2007

Það er ekki á hverjum degi sem það er sagt við þig að þú sért bara núll en það kom fyrir mig í dag. En þetta sagði sem sagt kona við mig í dag og brá mér nokkuð þangað til að hún bætti því við að hún meinti blóðflokkinn sem ég væri í sem sagt O+ eða "núll plús" eins og þeir segja á læknamáli.

Ég fór sem sagt í Blóðbankann í dag og gaf blóð í fyrsta sinn, ákvað þetta fyrir áramót þegar það var mikið í fréttum að það vantaði blóðgjafa. Það er um að gera að reyna að láta gott af sér leiða. Þetta var nú ákveðin áskorun fyrir mig líka, verð að játa það að ég er með netta fóbíu fyrir nálum og að sjá blóð, sérstaklega blóð sem er að yfirgefa minn líkama í lítravís (ok hálfslítravís).

Konan sem sá um mig var nú samt hin vænsta og var svona að reyna að spjalla við mig, þar sem hún sá að mér leið ekkert alltof vel, og var að reyna að fá mig til að slappa af. "Þetta er ekkert mál" sagði hún "Hallaðu þér bara aftur og slappaðu af, þetta er bara eins og þú sért heima að horfa á sjónvarpið". Já sagði ég, kannski ef ég væri sprautufíkill :) En þetta hafðist að lokum án teljandi vandræða eða sársauka og hvet ég hér með alla að drífa sig að gefa blóð.



mánudagur, janúar 15, 2007

Ég gerði kauptilboð á föstudaginn í íbúð í Stigahlíð, ágætis íbúð 3hb 75 fm en þarfnaðist smá andlitslyftingar og þar af leiðandi bauð ég nokkuð lágt en þó sanngjarnt að mínu mat. Fékk svar í dag þar sem kom gagntilboð en það munaði nú bara einhverjum hundrað þúsund köllum þannig ég hafnaði því enda nokkuð langt í milli þess sem ég var reiðubúinn að greiða.



fimmtudagur, janúar 11, 2007

Það má segja að ég sé í tvöfaldri vinnu þessa dagana en ég hef dembt mér á kaf í fasteignakaup. Ég er búinn að skoða 9 íbúðir á síðustu viku og sú tíunda bætist í hópinn í dag.

Þetta er hörkuvinna finnst mér og markaðurinn er frekar erfiður verð ég að segja. Mikið um lélegar eignir sem metnar eru allt of hátt, jafnvel þannig að ég nenni ekki einu sinni að gera ofurlágt tilboð.

Ég hef svona verið að taka alla flóruna í þessu til að fá tilfinningu fyrir því hvað mig langi í. Risíbúð, kjallara, hæð og hvað eina en ég held að risíbúð sé samt út úr dæminu. Ég meina flestar eru nú frekar lágar í loftinu og þó ég sé nú enginn Shaq þá finnst mér þær nú flestar frekar aðþrengdar þó að einhverjar geti verið ágætar, kjallari er þó betri ef hann er lítið niðurgrafinn. Auk þess yrði maður eflaust fyrir endalausu gríni ef maður keypti sér risíbúð. Sé þetta alveg fyrir mér "Hva er eitthvað lágt á þér risið", "Hva áttu við risvandamál að stríða" o.s.frv. o.s.frv.

Annars eru af þessum 9 sem ég hef skoðað 3 álitlegar og er ég að hugsa um að gera tilboð í einhverja þeirra. Annars tek ég þessu bara með stóískri ró mér liggur svo sem ekkert á en ef færi gefst og gott verð þá læt ég vaða.



This page is powered by Blogger. Isn't yours?