<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, febrúar 27, 2007

Ég fór og keypti mér jakkaföt í dag, kallinn leit bara helvíti vel út svona upp á klæddur þó ég segi sjálfur frá ;)

Tilefnið er nú margþætt, framundan er hangikét (nokkurs konar þorrablót Orkustofnunar) og svo er ársfundur Orkustofnunar sem haldinn verður á Akureyri að þessu sinni í lok mánaðarins. Því ákvað ég að smella mér á ný jakkaföt svo að maður yrði nú frambærilegur, sérstaklega þar sem ég mun koma fram á sviði á hangikétinu.

Ég verð með skemmtiatriði sem ég gef ekki upp frekar hér þar sem ég veit af fólki hjá OS sem les síðuna mína. En ég er víst kominn á fullt í félagslífinu hjá Vatnamælingum þar sem ég er einnig kominn í nefnd sem á að skipuleggja og halda starfsdag VM í lok apríl og svo skipuleggja dagskrá í tilefni af 60 ára afmæli Vatnamælinga í október.

En ég má ekki vera að þessu ég þarf víst að fara að æfa mig fyrir atriðið á föstudaginn.



sunnudagur, febrúar 25, 2007

Já það er margt skrítið á Íslandi og eflaust nokkurt sannleikskorn í þessu:

"Ísland einstætt í heimi er,
meðan aðrir einu læri af nauðsyn stela,
í fyrirtækjum baukar jakkaklæddur her.
Þeir í gróðatölum stóra glæpi fela.

Aðeins annar þeirra er þjófur nefndur
á meðan hinn er við góðan business kenndur."

Vona að þið hafið átt góða helgi, það gerði ég allvega.



þriðjudagur, febrúar 20, 2007

Það er gott að búa í Kópavogi...............ef þú ert ekki tré þ.e.a.s.



mánudagur, febrúar 19, 2007

Það er áhugavert að sjá hvernig fasteignasalar og bankarnir reyna nú eftir fremsta megni að keyra aftur upp verðið á fasteignamarkaðinum í ljósi 2,3% hækkunar fasteignaverðs í janúar. Greiningadeildir bankanna og fasteignasalar keppast um að skrifa í blöðin um að nú sé markaðurinn að fara að taka við sér á ný og allt stefni upp á ný. Jú jú það eru eflaust allar líkur á því að fasteignaverð eigi eftir að hækka eitthvað í ár, skattalækkanir eru framundan og verðbólga á undanhaldi. Veiking krónunnar á einnig eftir að gera erlend lán hagstæðari og allt þýðir þetta að neytendur verða bjartsýnni og eru eru tilbúnir að demba sér út í fasteignakaup.

Það er hins vegar ekki nema hálfur sannleikurinn sem fram kemur í máli bankanna og fasteignasalanna því að þeir eru lítið að tjá sig um eða fjalla um fréttir eins og þessa:

Laugardaginn 6. janúar, 2007 - Erlendar fréttir

Fasteignaverð hrapar

Verðstöðnun hefur ríkt á fasteignamarkaði í Kaupmannahöfn síðan í mars á nýliðnu ári en nú lækkar verðið hratt, að því er segir á vef blaðsins Berlingske Tidende . Að undanförnu hefur verð lækkað að meðaltali um 5–10%.

Verðstöðnun hefur ríkt á fasteignamarkaði í Kaupmannahöfn síðan í mars á nýliðnu ári en nú lækkar verðið hratt, að því er segir á vef blaðsins Berlingske Tidende. Að undanförnu hefur verð lækkað að meðaltali um 5–10%. Dæmi eru um lækkanir er nema 20% frá ásettu verði, að sögn Niels Brandt hjá landssambandi fasteignasala.

Brandt segir að lækkanir af þessu tagi séu "afar óvenjulegar", en fasteignasalar eigi æ erfiðara með að finna áhugasama kaupendur og því sé ekki alltaf auðvelt að losna við eignirnar. "Verðhrunið sýnir að liðið getur langur tími áður en nokkur nennir að leggja fram tilboð," segir Brandt. Heimild: http://mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?radnr=1123099


Ég skil nú ekki alveg af hverju svona lækkun á að vera eitthvað "óeðlileg". Fólk er bara ekki tilbúið að borga svo hátt verð og þá lækkar verðið, framboð og eftirspurn. Þessi frétt fór þó einhvern veginn alveg framhjá mér í fjölmiðlum og hef ég ekki heyrt nokkurn mann minnast á þetta í umræðunni. Ég rakst á þetta þegar ég var að grúska á www.malefnin.com núna um daginn og það var það fyrsta sem ég hafði heyrt af þessu.

En jallavega það er ánægjulegt að heyra að fasteignaverð virðist geta farið niður en ekki bara alltaf upp upp upp :) En það verður þó að bæta því við að í Kaupmannahöfn er fasteignamarkaðnum ekki handstýrt eins og hérna heima.




laugardagur, febrúar 17, 2007

Afturhvarf til fortíðar er alltaf skemmtilegt. Í gær var langur vinnudagur hjá mér, 12,5 tímar og útivinna. Var að GPS mæla inn borholur á Reykjanesi og minnti það mig á vinnuna fyrir austan í álverinu. Mikið rosalega var það hressandi að fá að komast út af skrifstofunni og fá að hlaupa um holt og hæðir með GPS tækið. Frábært landslag, skemmtileg vinna hreint loft og $$$$, hvað getur verið betra :)

Ég sakna ekki Reyðarfjarðar sem slíks en ég sakna þess að fá ekki að vinna meira úti, það eru sko forréttindi skal ég segja ykkur. En ég get þó allavega hlakkað til sumarsins því þá verður næg útivinna hjá Vatnamælingum og þangað til á ég von á að geta komist út af og til.



þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Enn og aftur er ég í fasteigna hugleiðingum hérna á blogginu. Ég gerði kauptilboð í gær í íbúð. Aftur var það Stigahlíðin sem var staðsetningin, sama hús en önnur íbúð. Þetta var mjög svipuð íbúð og sú sem ég bauð í fyrir nokkru nema að þessi var á annarri hæð og öllu snyrtilegri. Hún var hins vegar verðlöð nokkuð hærra en hin og hagaði ég tilboðinu í samræmi, bauð milljón undir uppsettu verði.

Í dag hringdi svo fasteignasalinn í mig og sagði að seljandinn myndi aldrei selja á þessu verði en að hann gerði gagntilboð sem var 200 þús undir uppsettu verði og með fyrirvara um að kauptilboð sem hann gerði í aðra íbúð í morgun yrði samþykkt. Það lá við að ég spyrði hvort hann væri að grínast, 200 þús króna lækkun með fyrirvara?!? Hver er tilgangurinn? Ég sagði við hann að hann mætti hringja í mig þegar seljandinn væri búinn að fá svar við sínu tilboði en ég ætla ekki að taka þessu hvort sem er. Ég er ekkert að flýta mér í þessum efnum og þó þessi íbúð fari á þessu verði einhvern tímann síðar þá er það í fínu lagi, það er nóg af öðrum íbúðum.

Annars hef ég sterkan grun um að samkeppnislög séu þverbrotinn á fasteignamarkaði í dag. Það er búið að byggja fullt af íbúðum út um allt höfuðborgarsvæðið og mikið af þessum nýju íbúðum standa auðar (kíkti í bíltúr um daginn). Af hverju eru þær ekki að skila sér inn á markaðinn í meira mæli en raun ber vitni? Ég taldi t.d. ekki nema cirka 150 nýjar íbúðir á mbl.is í grafarholti, norðlingaholti og grafarvogi en víst er að það eru mun fleiri tilbúnar. Er einhver að skammta nýjar íbúðir inn á markaðinn vísvitandi til að halda verði á þeim og eldri eignum uppi? Fjármagnið sem til þarf í er vissulega til, voru bankarnir ekki að skila mörg hundruð milljarða hagnaði samanlagt á síðasta ári? Hvað var mikill hagnaður af hækkun lána vegna verðbóta og hærri lána vegna hærra fasteignaverðs? Myndi sá hagnaður dekka kostnaðinn við að eiga 2000 íbúðir á ári og láta þær standa mannlausar? Ég læt ykkur lesendur góðir að reikna dæmið til enda. Ég vona að neytendasamtökin og samkeppniseftirlitið taki skurk í þessu en mér sýnist áhugi neytendasmatakana hafa vaknað á því.

En nóg komið af rausi og samsæriskenningum, ég er víst með paranoiu á háu stigi þannig að það er ekkert að marka það sem ég segi :)



sunnudagur, febrúar 04, 2007

Þvílíkur dýrindisdagur í dag, sól, logn og nýfallinn snjór.....gerist ekki betra. Ég kíkti út í göngutúr í góða veðrinu og svo fór ég líka og kíkti á tvær íbúðir. Leist ágætlega á aðra þeirra nema hvað að hún var svona 2-3 herbergja dæmi, sem þýðir í raun að hún sé bara tveggja herbergja með stórri geymslu sem má breyta í þriðja herbergið .......en þá ertu ekki með neina geymslu :/ Ætla að hugsa málið.

Annars er ég búinn að kaupa mér flugmiða til London 4-9 maí. Er að fara að hitta félaga minn hann Robert frá Úganda og konuna hans hana Doris. Hef ekki séð kallinn síðan ég fór frá Ástralíu í ágúst 2005. Ég verð reyndar sama sem ekkert í London því hann á heima í Oxford og ég fer beint þangað, svo er planið að leigja bíl og keyra aðeins um. Langar til Stonehenge og Bath og bara að rúnta aðeins um breskar sveitir þar sem ég hef í rauninni aldrei komið út fyrir London. Ég hlakka mikið til og þetta er svona gulrótin mín þannig að nú verð ég að vera rosalega duglegur í ræktinni og vinnunni og öllu :)



This page is powered by Blogger. Isn't yours?