<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, mars 22, 2007

Mikið rosalega er búið að vera leiðinlegt veður síðustu viku eða svo, ég hélt að vorið væri komið :) Á svona leiðinda rok og rigningar eða slyddu og stormadögum langar mann ekkert að mæta í vinnuna og þökk sé tækninni þá þarf ég þess ekki.

Já ég er heldur betur búinn að koma mér vel fyrir, búinn að stilla tölvuna mína í vinnunni og hérna heima þannig að ég geti unnið að heiman. Nú get ég nefnilega fjarstýrt vinnutölvunni minni héðan úr Bakkaselinu og hef aðgang að öllu því sem ég hef aðgang að í vinnunni, forritum og gagnagrunnum og svo þegar ég er búinn að stilla símann á áframsendingu á gsminn minn þá fara öll símtöl úr vinnunni minni í hann. Þannig get ég unnið heima ef verkefnin sem liggja fyrir eru þess eðlis, MAGNAÐ :)

Ég ætla nú samt ekki að hætta að mæta í vinnuna en þetta er þægilegt að geta gert ef það er einmitt ömurlegt og leiðinlegt veður og maður bara vill ekki út úr húsi. Best að prófa dæmið, ég ætla að græja eitt lítið kort.



sunnudagur, mars 18, 2007

Jæja þá er búið að skila sínu til skattmann, kláraði að fylla út skattaskýrsluna mína á netinu rétt í þessu. Það er ekkert eins gefandi og að vakna snemma á sólríkum og fallegum sunnudagsmorgni og skila sínu til samfélagsins :) Það hefði nú samt sem áður mátt vera aðeins meira sem skilaði sér í minn vasa en ég kvarta svo sem ekki. En þetta er orðið rosalega þægilegt hjá þeim þarna á www.skattur.is, hægt að nálgast allar upplýsingar og eyðublöð rafrænt og meira segja að senda upplýsingarnar rafrænt úr heimabönkunum. Gott að vera laus við þetta pappírsfargan.

Annars fór ég í enn eina mælingaferðina austur á föstudaginn, þetta var sko föstudagurinn langi (ekkert guðlast meint) þar sem ég var að til klukkan 21:00 um kvöldið. Var að mæla inn hæðarpunkta á ákveðnu svæði sem ég ætla svo að nota til að búa til þrívíddarlíkan. Það verður svo notað í flóðaspálíkan þannig hægt verði að segja til um hver hugsanleg útbreiðsla flóða á svæðinu yrði miðað við ákveðna flóðhæð. Allt saman mjög spennó og gaman, allavega finnst mér það :/

Mikið var nú gaman að skoða fasteignablað REMAX í morgun. Ég renndi bara í gegnum það á 15mín og sá fram á að þurfa bara ekkert að mæta í neinar fasteignaskoðanir eða opin hús í dag. Af hverju? Jú þannig var mál með vexti að það var ekki ein einasta eign í blaðinu sem ég myndi koma til með að hafa efni á, allt vel yfir 20 millurnar þar á ferð. Eins og ég segi þetta getur ekki gengið til lengdar, fólk fer að koksa á þessu. En nóg í bili, ég ætla út í góða veðrið.



miðvikudagur, mars 14, 2007

Hræðsluáróðurinn er byrjaður, það hriktir í stoðum græðgishyggjunar og konungríki hinna útvöldu er í hættu ef marka má þessa frétt á mbl.is http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1258801.

Spurningin sem við þurfum að spyrja okkur fyrir næstu kosningar er einföld.

Viljum við aukin jöfnuð, samkennd og sanngirni í þjóðfélaginu eða viljum við aukin ójöfnuð, einstaklingshyggju og græðgi í þjóðfélaginu???!!!

Ég kýs fyrri kostinn.



mánudagur, mars 12, 2007

Úff hvað ég er þreyttur, samt svona gott þreyttur eins og þegar maður er búinn að taka vel á því í ræktinni. Ég var samt ekki í ræktinni heldur var um annan dýrindisdag á suðurlandsundirlendinu að ræða þar sem kortlögð voru flóðför. Ég veit ekki hvað ég gekk marga kílómetra yfir tún og skurði, móa og mýrar en þeir voru nokkrir það er ég viss um. Við fengum líka þetta frábæra veður, logn, sól og dásamlega falleg fjallasýn.

Svo á morgun verður innivinna við að koma gögnunum úr GPS tækinu, inn í tölvu og svo á kort. Gaman, gaman, það er svo gaman að búa til kort.

Ég hef eiginlega ekki frá neinu að segja nema vinnunni, kannski frekar leiðinlegt að lesa um það fyrir ykkur. Ég hef ekki keypt mér íbúð ennþá er að spá hvort ég eigi að bíða eftir að krónan lækki og taka erlent lán. Það er nú samt orðinn ansi þunnur þrettándi á markaðnum af íbúðum sem ég tel ásættanlegar á ásættanlegu verði. Er ekkert allt of bjartsýnn á að finna íbúð úr þessu sem ég hef efni á og er sáttur við.



miðvikudagur, mars 07, 2007

Mikið rosalega var gaman í vinnunni í dag. Maður eiginlega skammast sín fyrir að þiggja laun fyrir þetta .......og þó he he he. Í dag var sem sagt útivinnuferð þar sem ég fór suður á Skeiðin að mæla inn flóðför úr desember flóðunum með GPS tæki. Það var frábært að komast út og fá sér hressilegan göngutúr og heilsa öllum dýrunum í sveitinni.

Síðan stoppaði ég líka hjá manni sem heitir Jón Eirkíksson á Vorsabæ og fékk mér kaffi og með því jafnframt sem við ræddum um flóðin og útrbreiðslu þeirra um svæðið. Þessi maður er einhver fróðasti maður sem ég hef hitt en hann er með ljósmyndadellu og hefur tekið myndir úr sveitinni síðan hann var 20 ára en er 85 ára núna og geri aðrir betur. Hann er mjög svo fróður um örnefni á svæðinu, sögu og hefur grúskað mikið í fornsögunum og tengt þær örnefnum og kennileitum í landinu í kring. Hann lumar líka á heilmiklu efni um önnur flóð sem orðið hafa í hvítá allt aftur til 1948 sem á eftir að nýtast sem góðar heimildir fyrir okkur.

Sem betur fer hefur hann skrifað mikið af sínu efni niður og er að gefa út bækur þannig að þekking hans mun lifa áfram eftir hans dag. Það eru nú samt eflaust margir sem hafa ekki haldið eins vel utan um sína þekkingu og hann og maður spyr sig hversu mikil þekking og fróðleikur mun hverfa með þeim handan móðunnar miklu þegar þar að kemur. Vonandi bara sem minnst.



þriðjudagur, mars 06, 2007

Helgin var ágæt, nema að ég var eitthvað hálf slappur í gær en það tengdist þó ekkert þorrablótinu á föstudaginn :)

Skemmtiatriðin gengu alveg ágætlega hjá mér, fyrst sá ég um að skipuleggja samkvæmisleik. Var leikurinn "morðingi" fyrir valinu en þá á einhver einn að reyna að "drepa" aðra með því að blikka þá. Morðinginn átti að myrða tvo fyrir klukkan 22:00 og rétt náði hann að drepa þann síðasta á slaginu og fékk að launum fyrir það dýrindis hvítlaukspressu.

Svo var nú aðalatriðið hjá mér en ég var með sjónhverfingar og töfrabrögð í anda David Blaine og Darren Brown. Í stuttu máli þá gerði ég þrjár tilraunir, í þeirri fyrstu lét ég sjálfboðaliða ganga um salinn og safna klinki. Ég sagði svo hvað mikið það væri án þess að sjá það fyrirfram. Næst bað ég annan sjálfboðaliða að velja 4 smáhluti úr salnum og svo hugsa stíft um einn þeirra og ég las hugsanir hans og valdi hlutinn sem hann var að hugsa um. Að lokum spáði ég til um framtíðina með því að fá sjálfboðaliða til að velja úr þremur spjöldum með mismunandi táknum á en ég hafði skrifað niður á miða fyrirfram hvað hann myndi velja.

Auðvitað gekk þetta allt upp, ég gaf upp rétta upphæð af klinki, ég spáði rétt til um hvaða hlut viðkomandi var að hugsa um og svo sá ég fyrirfram hvaða form þriðji sjálfboðaliðinn valdi. Ég tek það fram að engin þessara sjálfboðaliða hafði fengið fyrirmæli frá mér áður, það vissi enginn nema ég hvað atriðið mitt gekk út á fyrirfram og hvíldi mikil leynd og dulúð yfir því fram á síðustu stundu.

Grand lokaatriðið var svo þegar ég upplýsti hver morðinginn var en ég lét nafn hans birtast á auðum pappírsmiða fólki til mikillar undrunar. Eftir þetta er fólk farið að kalla mig Galdrakarlinn í OS :), mér finnst það bara cool.







This page is powered by Blogger. Isn't yours?