<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, apríl 24, 2007

Þar sem kosningar eru nú í vændum þá ætla ég að verða smá pólítískur. Ég held að það viti það allir sem mig þekkja að ég er jafnaðarmaður út í gegn. Ég hef aldrei dregið neinn dul á það og er stoltur af því. Sem jafnaðarmaður trúi ég því og finnst það sjálfsagt að þegnar landsins leggji sitt í púkk til að halda uppi öflugu velferðar- og menntakerfi. Auk þess eiga allir þjóðfélagsþegnar að leggja sitt af mörkum til að borga fyrir þá þjónustu semríki og sveitarfélög veita þeim.

Þess vegna er það eitur í mínum beinum þegar skattkerfið er hannað til að hygla sumum umfram aðra og þá sérstaklega til að hygla þeim sem þegar hafa það yfirdrifð nógu gott. Mig langar að taka dæmi til að draga fram þetta óréttlæti og í hverju það kristallast.

Tökum dæmi um einstakling A sem er verkamaður með 250 þús í mánaðartekjur og svo einstakling B sem hefur 1 milljón í tekjur á mánuði í gegnum fjármagnstekjur einvörðungu, t.d. einstaklingur sem rekur eigið fyrirtæki en greiðir sjálfum sér arð í stað launa.

Einstaklingur A borgar í kringum 36% skatt af sínum launum en það gera 61 þús krónur að frádregnum persónuafslætti. Hann heldur því eftir 189 þús kr af tekjunum eða 76%. Einstaklingur B greiðir 10% fjármagnstekuskatt og ekkert útsvar (þ.e. sveitarfélögin fá ekkert). Einstaklingur B greiðir 100 þús til ríkisins sem sagt og heldur því eftir 90% af tekjunum. Einstaklingur B nýtir sér sömu þjónustu sveitarfélaganna og einstaklingur A en borgar ekkert fyrir það. Hann er að vísu að greiða meira í skatt til ríkisins en hann heldur líka eftir mun stærri hluta af tekjunum.

Er þetta sanngjarnt? Sumir segja já, því að einstaklingur B er að skapa atvinnu og skila inn meiri verðmætum heldur en einstaklingur B. En hvar væri einstaklingur B án einstaklinga eins og A sem er kannski í vinnu hjá honum. Að mínu mati eru þetta alveg jafn verðmætir einstaklingar fyrir samfélagði, það þarf á þeim báðum að halda og því eiga þeir þá ekki að borga sama hlutfall í skatt bæði til ríkis og sveitarfélaga? Og afhverju eiga þeir því ekki báðir rétt á að halda sama hlutfalli eftir af sínum tekjum?

Frjálshyggjumenn vilja halda því fram að ef skattur á fjármagnstekjur yrði hækkaður myndi það leiða til stórfellds flótta hátekjufólks og fyrirtækja úr landi, "Gullgæsinni" eins og það er kallað yrði slátrað. En ég segi þá á móti, hvers konar þjóðfélagsþegnar eru það sem sjá ekki sóma sinn í því að borga til samfélagsins sem þeir búa í? Er það yfir höfð fólk sem við kærum okkur um? Hvers konar græðgi er það í fólki sem hefur þegar 900 þús á mánuði að geta ekki komist af með 800 þús á mánuði í staðinn (ef t.d. það yrði lagður flatur 20% skattur á allar tekjur).

Þetta er bara einfalt dæmi en röksemarfærslan er skýr, á Íslandi á að vera jöfnuður ekki ójöfnuður. Ójöfnuður leiðir ekkert gott af sér heldur slítur þjóðir í sundur, það er skylda okkar allra að standa vörð um þjóðina okkar og varðveita jöfnuðinn.

Kjósum rétt! :)



mánudagur, apríl 16, 2007

Hvað er nýtt að frétta, heilmikið skal ég segja ykkur. Í fyrsta lagi er nóg að gera í vinnunni, bara unnið langt fram á kvöld og jafnvel tekið smá um helgar. Þetta er bara farið að verða eins og mín síðasta vinna :)

Annars mun ég halda fyrirlestur á vorráðstefnu landfræðinga núna í maí um verkefnið sem nánast allur minn tími fer í um þessar mundir. Ég hvet alla ykkur landfræðinörra sem ég þekki og lesa þetta að mæta, hlusta á mig, spyrja einskis í lokin og klappa hátt og snjallt.

Næsta sem fréttnæmt er er kannski það að ég hef verið kosinn trúnaðarmaður FÍN hjá Orkustofnun. Var þetta rússnesk kosning, fékk ég 100% greiddra atkvæða. Sló ég þar engum öðrum við en Geir H Haarde sem fékk ekki NEMA 95% atkvæða sem formaður á nýafstöðnum landsfundi Sjálfstæðismafíunnar ehhhh ég meina Sjálfstæðisflokksins.

Það skal tekið fram að ég var einn í framboði af einhverjum ástæðum......hmmm. En allavega ég mun núna geta formlega farið á "trúnó" með vinnufélögunum og þeir geta treyst því að ég kjafti ekki frá. Ég vona bara að ég geti reynst traustur og góður trúnaðarmaður næstu tvö árin og getil látið gott af mér leiða.

Nú þarf ég hins vegar að sökkva mér ofan í lestur á kjarasamningum, vinnulöggjöf og allskonar öryggis og hollustureglugerðafargani. Very interesting ......... eða hvað?!?! :/



sunnudagur, apríl 08, 2007

Gleðilega páska.



þriðjudagur, apríl 03, 2007

Enn ein vettvangsferðin í dag og enn meiri mælingar. Ég sver það mér finnst ég bara vera kominn aftur í gömlu vinnuna fyrir austan :) Það er bara fínt ég hef bara gaman af því að mæla, sérstaklega þegar maður skákar fyrri atvinnuveitanda (VST) í þeim málum. VST hafði mælt inn flóðför á einu svæðanna sem ég mældi inn líka og það kom svo í ljós í dag að þeir höfðu mælt vitlaust, æ greyin.

En svona í tilefni af því þá langar mig að birta lista yfir atriði sem félagi minn og mælingamaður hann Axel Ben skrifaði um lífið í gamla starfinu, lífið í survey í hnotskurn. Þetta er óskaplegur einkahúmor en ég ligg í hláturskasti yfir þessu og aldrei að vita nema fleiri hafi gaman af :)

1. Kaupa skúr og búa í honum, vegagerðaskúrar eru fínir
2. Vera með með morgunverðarhlaðborð í skúrnum.
3. Vera alltaf með górilluapadúkku við fartölvuna á skrifstofunni og kalla hana fyrir Steina.
4. Spila 90 mín spólu í segulbandstækinu þar sem blöðruð er slafneska með kúrfa í öðru hverju orði.
5. Sólgleraugu, plasthjálmur og talstöð hjálpa.
6. Tala í hendina á sér þar sem höndin er talstöð.
7. Umgangast samstarfsfólk sem eru eins og úrillur, reykjandi og kaffiþyrstur spánverji.
8. Tala þýsku
9. Vera alltaf með bland í poka
10. Kalla nýja samstarfsfólkið ýmsum nöfnum, eins og Kannslarinn, Urn, Dagfinnur, Jónas, Bylgja, Árný, Bogi og Örvar, Elli Skrítni osfrv.
11. Skoða fasteignasíðurnar
12. Vera með hvíta verkefnatöflu
13. Vera ákveðinn við gamla feita glímukalla...og segja ...do you want survey or not.
14. Drekka bjór á kvöldinn
15. Fara í drug test
16. Fara í HRV búninginn í þriðjudagsbollta
17. Borða súrkál
18. Þefa svitafílu
19. Kaupa sér Skóda
20. Fara 2 tímum fyrr úr vinnuni og segjast vera að fara í 4 daga frí og vera að missa af flugvélinni
21. Eigna sér einn vinnubílinn
22. Kalla nýju samstarfsfélagana sem eru hvað skrýttnastir Þingeyjasýslingar, sérstaklega þá sem eru alls ekki úr þingeyjarsýslu
23. Leita í gífurlega flóknum og stórum teikningagagnagrunni
24. Mæta í vinnuna kl 6
25 Fylla út savety card
26. Borða vonda súpu, morgunmat eða gamlan kvöldmat í hádeginnu.
27. Vinna í kuldagalla.
28. Passa sig á Grænum dráttarvélum
29. Segjast vera að mæla kranabita
30. Tala íslensku því að helvítis útlendingarnir skilja þig ekki
31. Vera með Kollaleiru veðursíðuna sem upphafsíðu og tékka reglulega á henni.
32. Lesa söguna um Jónas í hvalnum og krota yfir orðið hvalur og skrifa Síló í staðinn.
33. Keyra á 30 á Miklubraut á vinnutíma
34. Spyrja allar fitubollur hvort þær vinna hjá Suðurverk
35. Reyna á öllum vinnufundum með yfirmönnum að snúa umræðunni yfir í einhverja umræðu um einhverja Skóda bifreyðar
36. Kalla reglulega orð eins og Get down og Lets get ready to Trimble.
37. Fá nýju samstarfsfélagana til að nota orðið röra reglulega.
38. Sannfæra sjálfan sig um það á föstudegi að það er vinna daginn eftir.
39. Sannfæra sjálfan sig að maður er alltaf að fara heim eftir 10 daga
40. Taka 14 daga vinnutörn
41. Vinna 340 tíma á mánuði.
42. Reykja hass
43. Grilla
44. Borða hrásalat
45. Taka upp kjækina hans Steina, eins og klóra sér í bumbunni og hreinsa reglulega kusk úr naflanum
46. Taka í vörina
47. Fara á kojufyllerí
48. Vera með kex í glærum plastpoka á skrifborðinu hjá sér.
49. Horfa á gamla þætti með Húsinu á sléttunni
50. Drekka Diet coke

HA HA HA HA alger snilld en ég býst við að þú hafir þurft að vera þarna til að fatta þetta.



sunnudagur, apríl 01, 2007

Góðan daginn öllsömul, hvað segist í dag? Merkilegar niðurstöður úr kosningunni um álverið í Hafnarfirði, 88 atkvæðamunur og þeir sem voru á móti höfðu betur. Maður veit því ekki hvort eigi að óska Hafnfirðingum til hamingju eða óhamingju þegar maður hittir einn slíkan þannig að ég hugsa að ég láti það alveg ógert :) En nú er bara að sjá hvort að þessi kosning þýði í raun eitthvað eða hvort að þetta hafi bara verið skoðanakönnun. Persónulega myndi ég ekki vilja álver við mínar bæjardyr en það er greinilegt að tæplega helmingur Hafnfirðinga hefur einhverja hagsmuna að gæta við að hafa það þarna áfram.

Annars er nóg að gera hjá mér þessa dagana í vinnunni og aldrei verið skemmtilegra. Einhver besti dagur ársins var á miðvikudaginn síðasta en þá skellti ég mér austur að kortleggja flóðför og fékk líka þetta frábæra veður, logn og heiðskírt. Mér varð svo heitt á tímabili að ég skellti mér bara á stuttermabolinn og er ekki frá því að ég hafi nælt mér í smá lit. Kannski ekki erfitt miðað við að ég er jafn hvítur eftir veturinn eins og þessi blaðsíða.

En til gamans þá skellti ég mér á netið og náði í nýjustu gervitunglagögnin frá þessum degi og bjó til eftirfarandi falslitamynd. Það skal tekið fram að undirlendið er í raun og veru ekki svona grænt þess vegna heitir þetta falslitamynd. Enn er allt frekar grátt og gult en ég sá þá nokkur græn strá að byrja að kíkja upp úr jörðinni. Fyrir þá sem þekkja til þá gerði ég þetta svona því að svo virðist sem NASA sé hætt að láta fylgja með gögnunum öll 3 böndin sem þarf til að búa til raunlitamynd. Ég þurfti því að skálda svona aðeins í eyðurnar en þar sem vantar eitt band þá er ekki hægt að fá eðlilegan lit á ástkæra Ísafold. En samt sést vel hve heiðskírt var yfir landinu (sem er ekki það oft því miður :).





This page is powered by Blogger. Isn't yours?