<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, maí 28, 2007

Ég þarf víst að játa það að ég er ekki búinn að kaupa mér nýjan bíl :) Ég get nú stundum tekið upp á ýmsu en ég er nú ekki svo ruglaður (ennþá) að eyða peningunum mínum í svona leikfang. Annað er nú samt satt í þessum frásögum mínum, það var gaman að fá að grípa í svona eðalbíl.

En hverjir trúðu þessu annars upp á mig réttið upp hönd! :) he he he



Ég elska þriggja daga helgar, það er eitthvað svo rosalega gott að vakna á mánudegi og ekki þurfa að fara í vinnuna. Ætti að lögleiða allar helgar sem þriggja daga.

Helgin er búin að vera góð, Grái Fiðringurinn var tekinn aftur út og að þessu sinni var brunað til Þingvalla og að Geysi. Á Þingvöllum var borðað nesti, Sushi......ég veit ég veit....sushi á Þingvöllum þetta er náttúrulega bara uppaskapur dauðans :)

Svo var topurinn tekinn niður og keyrt að Geysi í sólinni. Það er ótrúlegt hvað það spillir hraðaaukningunni að hafa toppinn niðri, bíllinn var ekki nærri eins sprækur en samt nóg.

Í gær skellti ég mér svo í veiði, ég glímdi nú meira við veiðigræjurnar heldur en fiskana. Held að ég sé enginn veiðimaður allavega.





sunnudagur, maí 20, 2007

Loksins loksins, nýjar myndir komnar inn í myndaalbúmið. Ég hef lítið verið að ferðast undanfarið en er búinn að bæta við Englands myndunum í myndaalbúmið þannig endilega kíkið ef þið hafið áhuga.

Annars er ég búinn að gefast upp á því að kaupa mér íbúð, þetta er bara alger vitleysa og hef ég ákveðið að eyða peningunum mínum frekar í skemmtilegri vitleysu og keypti mér því bara bíl í staðinn. Mig hefur alltaf langaði í Mercedes Benz og því fjárfesti ég í þessum hérna í staðinn fyrir íbúð.



Ég kalla nýja bílinn minn Gráa Fiðringin og það er fínt að taka þetta bara út strax áður en ég verð fimmtugur :) Það er ekkert smá skemmtilegt og þægilegt að keyra hann. Ég náði honum upp í 200 km/klst á Nesjavallaveginum á 7 sekúndum á 600m kafla án þess að vélin svitnaði. Svo steinliggur hann í öllum beygjum, Kambarnir voru sérlega skemmtilegir að keyra þar sem maður tók beygjur á 100 án þess að finna fyrir neinu.

Í gær var svo toppurinn tekinn niður og rúntað með heiðan himinn og sól fyrir ofan sig.



föstudagur, maí 18, 2007

Það stefnir nú allt í ríkisstjórn sjálfstæðisflokks og samfylkingar, eins og ég sagði áður var það gáfulegasti kosturinn miðað við vilja kjósenda of fylgi flokkanna. Ég get þá etv lagt áform um að flytja úr landi á hilluni a.m.k í bili, við skulum gefa þessari stjórn 2 ár og sjá hvort Samfylkingin nær að koma sínum málefnum og breytingum til jafnaðar á framfæri í stað þess að verða enn ein hækjan fyrir D.

Mig langar nú samt sem áður að kíkja aftur til Ástralíu í svo sem eitt ár eða svo, kannski taka einhverja kúrsa eða bara vinna. Mér hafði dottið í hug að fá mér diploma eða certificate í mælingum bara svona til að hafa vottun upp á það að maður viti hvað maður er að gera :) Ég gæti þá notað tímann til að gera það sem ég komst ekki yfir að gera þarna en það var helst að læra að kafa og læra á mótorhjól, vrúmm vrúmm.

Annars gekk fyrirlesturinn í dag bara mjög vel, verð þó að lýsa yfir vonbrigðum með mætingu míns árgangs af landfræðingum þó svo að sumir höfðu löglega afboðað sig :) Ég hitti þó marga af fyrrverandi RALA genginu og var auðvitað kátt á hjalla þegar það fólk hittist.



fimmtudagur, maí 17, 2007

Jæja gott fólk, ég vona að þið hafið það gott í dag og njótið frísins. Veðrið hérna sunnanlands mætti nú vera aðeins betra en á svona dögum er bara gott að vera inni, undir teppi og lesa góða bók eða horfa á góða bíómynd.

Ég vona nú að sem flestir landfræðingar mæti á vorþingið á morgun þó svo að ég viti um nokkra sem geta ekki mætt. Ég verð með fyrirlestur eins og áður sagði um eitt af helstu verkefnunum mínum hjá Vatnamælingum, kortlagningu flóðfara í tengslum við flóðin í desember 2006. En hvað ósköpunum eru þessi flóðför eiginlega og hvernig líta þau út myndu margir spyrja. Nú hérna fyrir neðan er mynd af slíku fari:


Þið eigið að geta séð dökka línu eða rák sem liggur eftir landslaginu þar sem hæsta yfirborð vatnsins náði og gras og annað drasl rak upp og varð eftir þegar sjatnaði. Þarna er t.d. einhver kassi sem flóðið skolaði með sér.

Eftir þessum línum hef ég verið að ganga með GPS tæki, oft er þetta mjög greinilegt eins og á þessari mynd en stundum ekki og þá þarf maður að leika Sherlock Holmes og lesa úr vísbendingum :) Að lokum langar mig svo að setja eina mynd af kallinum "in action" :) Þarna er ég að stilla upp viðmiðunarstöð yfir fastmerki sem sendir svo út leiðréttingar á staðsetningu til GPS tækisins sem ég nota til að mæla inn flóðförin.

Survey menn myndu nú gagnrýna mig fyrir að stilla þrífætinum heldur hátt en það var logn þannig að það kom ekki að sök og svo þurfti nákvæmnin ekki að vera upp á cm. Báðar myndirnar tók Oddur Sigurðsson samstarfsmaður minn hjá Vatnamælingum.





sunnudagur, maí 13, 2007

Ég ætlaði að vera búinn að blogga fyrir löngu síðan en ég er svo mikill prófessor í mér að ég var búinn að steingleyma aðgangsorðinu mínu inn á blogger og nennti ekki að leita að því fyrr en núna :)

Já það hefur margt gerst síðan ég bloggaði síðast. Ég skrapp til að mynda í viku til Englands, hef komið 7 sinnum til London en þetta var í fyrsta sinn sem ég fór út fyrir borgina. Ég fór til Oxford og gisti þar hjá bróður félaga míns sem ferðaðist með mér. Við leigðum okkur svo bíl og fórum í dagsferðir út frá Oxford. Mikið var nú skemmtilegt að fá að prófa að keyra aftur vinstra megin, ég hafði engu gleymd frá því í Ástralíu og fór rétt inn í öll hringtorg að þessu sinni :)

Fyrir utan að skoða mig um í Oxford þá skrapp ég til Stonehenge, Salisbury, Bath og dagsferð til London þar sem ég hitti herbergisfélaga minn frá Ástralíu hann Robert. Einnig kíkti ég á Musuem of Natural History og Museum of Science. Þetta var alveg frábær ferð, góður félagsskapur og fínt afslappelsi eftir nokkuð strembinn mánuð á undan í vinnunni.

En úr einu í annað, kosningarnar. Ég verð að láta vonbrigði mín í ljós með að stjórnin skyldi halda velli, allt út af úreltu og meingölluðu kosningakerfi. Þjóðin vill ekki núverandi stjórn, það er deginum ljósara þar sem hún hefur ekki meirihluta á bakvið sig. Ef þeir halda D og B halda áfram samstarfi með 48% atkvæða á bak við sig er það ekkert annað en eiginhagsmunagæsla og skrumskæling á lýðræðinu.

Miðað við niðurstöður kosninganna myndi ég telja eðlilegt að Sjálfstæðismenn og Samfylking færu í stjórn, það er vilji meirihluta þjóðarinnar að sjá þessa tvo flokka við stjórnvölin. Ég get sætt mig við slíka stjórn í von um að Samfylkingin geti komið smá velferðarhugsjón í kollinnn á Íhaldinu. Vinstri grænir stóðu sig vel en þriggja flokka stjórn þeirra, Samfylkingar og hvort sem er framsóknar eða frjálslyndra hugnast mér ekki nógu vel.



This page is powered by Blogger. Isn't yours?