<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, júlí 31, 2007

Jæja eru allir ánægðir með álagningaseðlana sína? Ég er bara ágætlega sáttur, skulda Skattmann 10 þúsund kalla og meirhlutinn af því er í framkvæmdasjóð aldraðra sem mér skilst að sé notaður í allt annað en að framkvæma eitthvað fyrir aldraða.

Annars er snýst öll umræðan í fréttum um það sama og hún gerir á hverju ári, eiga álagningatölur einstaklinga að liggja frammi hjá Skattstjóra. Ég verð nú að segja að ég er á báðum áttum þegar kemur að þessu atriði.

Að vissu leiti skil ég vel sjónarmið þeirra sem eru á móti þessu. Þetta býður upp á óþarflega hnýsni og eftirgrennslan inn í líf nágranna og samborgara sinna, sumir eru viðkvæmir fyrir þessu og líður kannski illa yfir að þetta liggi á glámbekk. Ekkert endilega af því að þeir eru að svíkja undan skatti, þeim finnst þetta bara vera frekar persónulegar upplýsingar sem eigi að njóta verndar.

Tökum smá samlíkingu: Ef þú færir á veitingahús með hópi af fólki og þegar kæmi að því að borga reikninginn þá borgar hver sinn hluta og allir sjá hver borgar hvað. Hvað myndi gerast ef allir myndu bara borga undir borðið þar sem engin sæi hver borgar hvað? Ég er viss um að upphæðin myndi ekki duga fyrir reikningnum og ástæðan er einföld, sumir eru bara ekki eins heiðarlegir og aðrir þegar kemur að því að borga í pottinn og sé ekki hægt að sjá hver borgar hvað þá er líklegra að þeir telji sig komast upp með það.

Annars finnst mér athyglisverð umræðan um hvað heimilin hafa það gott um þessar mundir. Eignir þeirra í formi fasteigna hafa aukist svo gífurlega á meðan skuldir í fasteignum hafa farið úr 38% árið 2002 niður í 34% í ár. Mér finsnt þetta nú ekkert til þess að hrópa húrra fyrir því verðmæti fasteigna var 946 milljarðar árið 2002 (skuldir = 359 milljarðar) en 1824 milljarðar árið 2007 (skuldir = 620 milljarðar). Þannig hafa skuldir heimilana aukist um 72% á þessu tímabili á meðan verðmæti fasteigna hefur aukist um 92%. Það er nú allt gott og blessað en hvað gerist ef fasteignaverð lækkar, verðbólgan eykst eða krónan veikist enn meira? Skuldirnar hækka hrikalega og hrein eignastaða heimilanna versnar til muna.




mánudagur, júlí 30, 2007

Jæja nú er sá dagur runninn upp að ég þarf að fara að passa upp á þyngdina. Alla mína hunds og kattatíð hef ég getað treyst á að genin haldi mér grönnum til þrítugs eða u.þ.b. Þannig var pabbi og þannig var það hjá báðum bræðrum mínum, aukakílóin byrjuðu ekki að gera vart við sig fyrr en um þrítugt.

Síðan ég var tvítugur hef ég verið á bilinu 72-74 kíló og ekki rokkað mikið í þyngd. En þegar ég steig á vigtina um helgina þá hafði ég stokkið upp um 5 kíló og er nú orðin 79 kg.

Þessi aukakíló virðast hafa dreifst nokkuð jafnt á mig en ég ætla nú samt að fara að huga að því að fara að hreyfa mig eitthvað. Minn tími er kominn, ég hélt kannski að ég gæti sloppið með þetta til þrítugs en genin eru kannski ekki hárnákvæm upp á sekúndu.



sunnudagur, júlí 29, 2007

Þetta er búinn að vera svakalegur dagur, morð í Reykjavík. Atburðarásin heldur engu lík, eins og eitthvað út úr skáldsögu þar sem morðinginn sviptir sig lífi á Þingvöllum, af öllum stöðum og skilur eftir sig bréf þar sem hann játar morðið sem ástríðuglæp. Þetta er allt afar sorglegt, sértaklega fyrir þá sem næst málinu standa.

Það rignir og rignir í dag, þetta er heldur ekki klassíks íslensk rigning heldur frekar útlandarigning. Hellirigning, stórir og þungir dropar sem falla beint niður í staðinn fyrir láréttan rigningarsudda sem venjulega einkennir Ísland. Það er samt gott að fá rigninguna eftir allt góða veðrið og þurrkinn sem verið hefur. Ég kíkti út í smá göngutúr til að finna hressandi rigninguna á andlitið, anda að mér hreinu loftinu og finna blóma- og trjá anganin sem stígur upp af gróðrinum í kjölfar svona rigningar.

Svo er þetta líka frábært því nú þarf ég ekki að skola af bílnum mínum í bráð. Ég er sestur upp í sófa með góða bók, heitan tebolla og kex og ætla að hafa það gott á meðan ég les og horfi út á rigninguna steypast niður.



föstudagur, júlí 20, 2007

Ég er kominn aftur úr vinnuferðinni minni, þetta var mikil og erfið vinna en samt mjög skemmtileg og gefandi. Fór víðsvegar um Austurland, allt frá Eyjabökkum til Héraðsflóa og sá ansi magnað landslag.

Magnaðast var samt að taka miðnætur rennslismælingu á Jökulsá í Fljótsdal nærri Snæfelli. Miðnætur sólin litaði skýin blóðrauð og dalalæða læddist í kringum mann í algeru logni. Alveg kynngimagnað. Svo hvarf hún eins fljótt og hún birtist og læddist niður dalinn.

Mér tókst líka að aka hringveginn þar sem við fórum norðurleiðina austur og suðurleiðina aftur til Reykjavíkur. Hérna eru svo nokkrar myndir úr ferðinni.



Þetta er fararskjótinn sem ég borðaði og svaf í í 8 daga.


Snæfell og Jökulsá í Fljótsdal þar sem miðnætur rennslismælingin fór fram.


Miðnætur sólarlag nærri Jökulsá í Fljótsdal.


Stoppaði við Jökulsárlán á leiðinni suður.



þriðjudagur, júlí 10, 2007

Ég verð í vinnuferð á Austurlandi næstu viku, kem aftur á miðvikudags kvöld 19., þangað til má ná í mig í farsíma.

Annars er ekki mikið að frétta, kíkti í smá útilegu á Snæfellsnes um síðustu helgi og var það hin besta skemmtun. Þar náðist ég á myndband þar sem ég fór með einu dónalimruna sem ég kann. Ég treysti því að viðkomandi sem varðveiti þetta myndband kyrrfilega í sínum fórum ;)



sunnudagur, júlí 01, 2007

Karlinn er mættur aftur á Skerið frá Kalíforníu, Ísland tekur vel á móti mér með smá rigningu. Mér skilst að það hafi verið þurrkur og brakandi blíða á meðan ég var í burtu.....go figure. En það er gott að finna smá rigningu á skinninu því ekki var það dropi sem kom úr lofti þarna úti.

Ráðstefnan í San Diego var alveg frábær, hefði aldrei trúað því hvað það væri gaman að sitja og hlusta á fyrirlestra allan daginn frá 8-16. Mjög spennandi GIS stöff og svo var líka fullt af kortasýningum og græjusýningum sem ég kíkti á. En það gafst nú líka tími til að fá sér bjór (nema hvað) og kíkja á borgina og næturlífið. San Diego er klassaborg og skemmtileg, hópurinn íslenski sem ég fór með var líka eðalfólk og hresst.

Ekki var dvölin í San Francisco síðri, hitti vini mína þar og bara naut lífsins. Kíkti út í Alcatraz og slapp aftur í land, skil ekki af hverju engum tókst það á sínum tíma það er ferja sem fer á hálftíma fresti......ekkert mál sko. Svo fór ég í nokkra göngutúra í fjöllunum í kringum SF og á ströndina, borðaði góðan mat og drakk góð vín. Mér tókst líka að kaupa mér iPod, ég ætlaði nú að láta það ógert en það er ágætt að eiga afrit af lagasafninu sínu einhvers staðar og svo keypti ég mér líka iTrip þannig loksins get ég hlustað á lögin mín í útvarpinu í bílnum.

Á morgun tekur svo vinnan við, ég hlakka bara til enda fékk ég margar góðar hugmyndir á ráðstefnunni sem mig langar að reyna að hrinda í framkvæmd. Ferðalög eru skemmtileg en það er ekkert eins og að koma heim í sitt eigið rúm....over and out.





This page is powered by Blogger. Isn't yours?