<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, ágúst 25, 2007

Það var mikill sorgardagur í gær hjá minni fjölskyldu þegar fyrsta skóflustungan að 6000 fermetra vatnsátöppunarverksmiðju Jóns Ólafssonar á Hlíðarenda var tekin í gær. Við höfum verið að reyna að berjast gegn þessari verksmiðju sem er í landi Hlíðarenda, í 300 m fjarlægð frá sumarbústaðnum okkar, síðan sveitastjórnin nánast gaf landið og breytti skipulagi svæðisins úr útivistar og skógræktarsvæði í iðnaðarsvæði í fyrra. Allar okkar athugasemdir hafa verið hunsaðar af sveitastjórninni og skipulagsstofnun og nú er svo komið að við blasir að 40 ára starf foreldra minna við að byggja upp friðsæla paradís þarna er unnin fyrir gíg.

Verksmiðjan er sjálf er massív og eins stendur út úr landslaginu eins og krækiber í helvíti með tilheyrandi sjónmengun. Henni mun einnig fylgja massív umferð tankbíla sem flytja vatnið í flöskum frá verksmiðjunni niður í Þorlákshöfn, samkvæmt ætlunum er gert ráð fyrir allt að 1.5 slíkum bílum á klukkustund með tilheyrandi umferðarhávaða og slysahættu. Landið okkar og sumarhús er í raun orðið nánast verðlaust. Yfirgangur sveitastjórnarinnar í þessu máli hefur verið með eindæmum og er til skammar.

Ef þið ákveðið að kaupa einhverntímann Icelandic glacial vatn á flöskum munið þá að fórnarkostnaðurinn við það vatn var ævistarf foreldra minna.


Vatnsverksmiðjan á Hlíðarenda. Heimild: www.javerk.is



sunnudagur, ágúst 19, 2007

Ég vona að sem flestir hafi skemmt sér vel á nýliðinni menningarnótt, ég sat heima veikur en sá allavega flugeldasýninguna út um stofugluggann. Tek þetta bara með trompi næsta ár. Annars líður mér mun betur í dag, reyndar bara mjög vel. Var að enda við að skúra og skrúbba pleisið hátt og lágt enda ekki seinna vænna því ma og pa koma heim úr sumarbústaðnum kl 17 :)

Annars stefnir allt í það að ég fari héðan út í haust, er ekki búinn að kaupa og mun ekki kaupa núna. Verðin eru bara orðin of há til þess að ég geti keypt sæmilega íbúð og staðið undir afborgunum, sorgleg staðreynd. Nei ég ætla að fara að leigja og ég er hugsanlega kominn með meðleigjanda þannig að það verður bara hið besta mál. Á meðan ætla ég að spara og safna pening, er þegar búinn að ávaxta vel á falli krónunnar en ég færði spariféið mitt yfir í Evrur rétt áður en krónan féll. Seðlabankinn spáir 15% raunverðsrýrnun á húsnæði til 2009 og þar sem hann er eini hlutlausi aðilinn af þessum greiningaraðilum þá trúi ég því. Miðað við hvernig vændræðin hrannast upp í fasteingageiranum víðast hvar í kringum okkur þá er engin ástæða til að ætla að þetta komi ekki hingað líka fyrr eða síðar.

Annars gleður það mig mjög að sjá hvað það er mikill uppgangur í landupplýsingabransanum um þessar mundir. Tvær stöður hafa verið auglýstar núna á stuttum tíma, ein hjá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og ein á Vatnamælingum (nei það er ekki búið að reka mig :). Það vantar bara fleira GIS fólk hjá Vatnamælingum og vona ég að sem flestir sæki um.



föstudagur, ágúst 10, 2007

Hlutabréf að falla í verði út um allan heim, krónan að veikjast og almenn svartsýni á fjármálamörkuðum. Nú þegar raunverulegt verðgildi þessara ruslpappíra sem hafa verið að hækka og hækka í verði vegna auðvelds aðgengi að ódýru fjármagni (lánum) virðist á enda þá taka seðlabankar þjóðanna sig til og reyna að stemma stigu við fallið. Skattgreiðendur og almenningur á sem sagt að blæða fyrir fjármagnseigendur sem hafa farið offari í þessu bévítans spilavíti sem hlutabréfamarkaðurinn er. Þetta fer mjög í pirrurnar á mér, af hverju situr almenningur alltaf eftir með sárt ennið, látum þessa vitleysinga bara fara á hausinn. Jú því mun fylgja kreppa og jú það verður erfitt en kannski lærir fólk þá að meta hvað raunveruleg verðmæti eru. Kannski lærir fólk að kaupa ekki hluti á lánum, kannski lærir fólk að spara!!

Kapítalisminn og frjálshyggjan er alltaf að væla um það að ríkið eigi ekki að skipta sér af fjármálamarkaðinum en einhvern veginn efast ég um að það heyrist píp í Hannesi Hólmstein og hinum frjálslhyggju hræsnurunum nú þegar seðlabankar ríksisins eru í raun að reyna að bjarga þeim frá gjaldþroti.



This page is powered by Blogger. Isn't yours?