<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, september 28, 2007

Er ekki kominn smá tími á fréttir héðan frá Orkustofnun? Ég veit ekki hversu mikið þið fylgist með í fjölmiðlum en það hefur komið á daginn að Vatnamælingar á að flytja undir umhverfisráðuneytið (var undir iðnaðarráðuneytinu). Ég er mjög ánægður með það því við það mun rannsóknarstarf innan Vatnamælinga að öllum líkindum eflast töluvert.

Einnig hefur verið ákveðið að Veðurstofan og Vatnamælingar eiga að renna saman í nýja stofnun sem enn hefur ekki fengið nafn (formlega á þetta að gerast eftir áramót). Ég hef ekkert heyrt af því hvort við eigum að flytja af Grensás en það hlýtur að gerast síðar. En þetta þýðir þá að ég þarf að breyta heitinu á blogginu mínu enn einu sinni þar sem ég verð ekki lengur að blogga frá OS. Gárungar hér í húsi hafa komið vinnuheiti á nýrri stofnun og er það 4R sem stendur fyrir Rok, rigningar og rennslismælingar Ríkisins.

Ég kíkti í smá útivinnu á þriðjudaginn og fékk líka þennan æðislega dag, mitt á milli lægða, sól og logn en samt soldið svalt. Það er svo hressandi að komast upp í sveit og anda að sér hreinu lofti.

Ég fór í morgun með Bláu Þrumuna (bílinn minn fyrir þá sem ekki vita) að láta laga púströrið en það fór í sundur um daginn sökum elli. En á meðan ók ég um í óbærilegum hávaða eins og versti rallíbíll og allt nötraði og skalf. Fór til þeirra hjá BJB pústþjónustu og fékk afbragðsgóða þjónustu og sanngjarnt verð og nú er aftur kyrrð og friður inni í bílnum mínum.



mánudagur, september 17, 2007

Góðan daginn, það er nú stundum skemmtileg vitleysan sem manni getur dreymt. Sumt man maður mjög vel en annað hverfur í þoku og móðu um leið og maður vaknar. Síðustu nótt dreymdi mig frekar undarlegan draum sem ég ætla að deila með ykkur.

Ég var staddur heima í Bakkaseli að tala í símann þegar mér verður litið út um gluggann og sé ég þá hvar Snæfellsjökull er byrjaður að gjósa. Þetta líka risasprengigos og sé ég hvar höggbylgjan og brennandi heitt öskuskýið æðir yfir Faxaflóan beint í áttina að Reykjavík. Ég bregst snöggt við og hleyp inn á baðherbergi og inn í sturtu. Fyrir þá sem ekki vita þá er sturtuklefinn uppi steinsteyptur og opið snýr frá Snæfellsjökli, þannig þetta er eflaust öruggasti staðurinn. Til að verjast brennandi heitu öskuskýinu skrúfa ég svo frá kalda vatninu í sturtunni alveg í botn og í því ríður höggbylgjan yfir og herbergið fyllist af sjóðheitum öskumekki en kalda vatnið í sturtunni kemur í veg fyrir að ég brenni. Svo vakna ég.

Ég ætla nú ekki að hræða neinn en ég hef áður dreymt hluti sem hafa síðan ræst en þó tel ég að það séu undantekningar tilvik. Hins vegar myndi ég fresta öllum ferðum upp á Snæfellsnes í bili, maður veit aldrei.

Ég er aftur á móti að fara norður á land í vinnuferð á morgun og kem ekki aftur fyrr en á föstudagskvöld. Veðurspáin er ágæt en það verður nokkuð kalt.






sunnudagur, september 09, 2007

Einn vinur minn er að fara að gifta sig í mánuðinum og af því tilefni var hann steggjaður í gær. Þetta var alveg frábær dagur og skemmtilegur en við gerðum ýmislegt skemmtilegt. Þemað snérist um Breiðholtið þar sem við ólumst upp og sumir eru enn. Meðal annars fórum við í Lasertag, tókum stjórnun (eins og í 70 mínútum) á steggnum í mjóddinni þar sem fólk hélt að hann væri uppdópaður. Alveg sprenghlægilegt.

Svo var farið upp í Breiðholtsskóla og íþróttakennarinn okkar hleypti okkur inn í salinn þar sem farið var í Tarzan leik eins og í gamal daga. Eitthvað var maður nú þyngri og svifaseinni en áður og eftir 30 mínútur þá var maður nú bara alveg að springa eftir öll hlaupin, hoppin, sveifla sér í köðlum o.fl. Eftir þetta fengum við að fara í skólalaugina og kepptum í sundbolta. Það var mjög fyndið að mér fannst laugin eitthvað hafa grynnkað miðað við hvað mig minnti að hún var djúp. En auðvitað var það bara ég sem hafði hækkað :)

Um kvöldið var svo farið til eins félaga okkar og grillað auk þess sem að Þrándur nokkur Jensson kom og var með uppistand. Hann er einn besti grínisti landsins að mínu mati og var alveg sprenghlægilegur. Svo var farið niður í bæ en ég man voða lítið eftir því, það má kannski segja að ég hafi gengið heldur hratt um gleðinnar dyr :) En ég sé ekki eftir því en ég segi nú bara að vonandi giftist hann félagi minn ekki oftar en einu sinni og óska ég honum innilega til hamingju og vona að hjónabandið verði langt, farsælt og gæfuríkt.



föstudagur, september 07, 2007

Ég var þó nokkuð úti að vinna á Reykjanesinu í þessari viku. Þetta er alveg magnað landslag, allt þetta hraun og allur þessi mosi. Mjög sérstakt. Þar sem ég var að stilla upp GPS tækjum við Eldvörp þá gekk ég fram á merkta gönguleið sem lá þarna um. Þetta var greinilega mjög gömul leið því hún var rofin niður í hraunið og mjög greinileg, margir fætur og hófar sem hafa meitlað sig niður í bergið á hundruðum ára. Ég lét hugan soldið reika og ímyndaði mér hvað margir hefðu farið þarna um í gegnum árin, hvert þeir hefðu farið og í hvaða erindagjörðum.

Svo lagði ég líf og limi í hættu þegar ég setti upp GPS tæki nærri varnarsvæðinu fyrrverandi, skilti út um allt sem vöruðu við ósprungnum sprengjum. Ég reyndi nú að stíga bara á það sem voru greinilega stórir steinar. Tók svo smá könnunarleiðangur inn á svæði í kringum gamlar sprengjugeymslur, ég veit nú ekki að hverju ég var að leita.....kannski geimverum. En já það er gaman að geta komist út af skrifstofunni og lenda í ævintýrum á Reykjanesi.



laugardagur, september 01, 2007

Ahh loksins er komið alvöru íslenskt sumar, rok og rigning. Enginn að kvabba í manni að drífa sig út upp á fjöll og fyrnindi, get bara með góðri samvisku haft það næs hérna heima og legið í leti.

Annars var skemmtilegur dagur í dag í vinnunni, það er ekki á hverjum degi sem ég drekk bjór fyrir hádegi í vinnunni og svo fleiri um eftirmiðdaginn en það gerðist í gær. Vatnamælinar skruppu upp í Heiðmörk í hádeginu í gær og þar var grillað og sprellað. Svo var önnur grillveisla í boði starfsmannafélags Orkugarðs seinni partinn. Já það er búið að vera rólegt yfir félagslífinu í vinnunni í sumar, flestir hafa verið úti um hvippinn og hvappinn í vinnuferðum en þegar eitthvað gerist þá gerist það sko svo um munar!



This page is powered by Blogger. Isn't yours?