<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, apríl 29, 2008

Kominn tími á smá blogg held ég. Mikið rosalega tel ég mig heppinn að hafa ekki lagt út í íbúðakaup á síðasta ári. Ef ég hefði tekið innlent lán væri verðbólgan nú í óða önn að hækka lánið mitt upp úr öllu valdi, ef ég hefði tekið erlent lán þá hefði gengisfall krónunnar hækkað lánið mitt um 30% 30 dögum og nú blasir við frost á fasteignamarkaði og verðlækkanir. Þetta er bara rugl og ég hef marg oft sagt það að þetta gengi ekki til lengdar. Lánadrifið góðæri er alls ekkert góðæri og það ætti hver einasti maður með eitthvað smá vit á peningum að geta sér til um.

Hvað mun ég gera, jú ég sé tvo kosti í stöðunni að leigja þangað til ég tel að skilyrði til húsnæðiskaupa hafi orðið almennileg eða flytja af landi brott. Hvaða skilyrði þurfa að vera fyrir hendi til þess að ég kaupi á Íslandi húsnæði? Afnám verðtryggingar svo ég geti tekið lán í íslenskum krónum nú eða upptaka evru og innganga í Evrópusambandið svo ég geti tekið lán í evrum (ef það gerist ekki þá myndi ég sætta mig við að fá hluta launa greidda í evrum til að geta borgað af láninu).

Þessi skilyrði sé ég ekki alveg að séu í spilinum næstu árin þannig að kannski ætti ég bara að fara að athuga með vinnu og búsetu erlendis, Ástralía togar enn í mann en auðvitað væri frábært að geta verið aðeins nær fjölskyldu og vinum :)

Og talandi um utanlandsferðir þá fór ég á 3 daga námskeið í Boston í síðustu viku. Fékk alveg frábært veður (því miður því mestur tími fór í inniveru á námskeiðinu) og hafði gott af því að losna aðeins úr þessum íslenska vetri sem ætlar aldrei að enda. Búið að vera nokkuð gott veður samt síðan ég kom til baka sem betur fer.

Ég missti samt alveg af þessu gas æði sem gekk yfir landann en sá þá nokkur myndbrot á mbl.is á meðan ég var á námskeiðinu. Meira ruglið sem gengur á þessa dagana, mótmælin svo sem skiljanleg en viðbrögð lögreglu nokkuð sjokkerandi. Spái því að ef fram fer sem horfir þá verði slík sjón æ algengari, þanþol fólks gagnvart því sem er að gerast í þjóðfélaginu er heldur betur farið að minnka.



This page is powered by Blogger. Isn't yours?